trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 06/05/2014

Hættu að grafa, Hanna Birna

Orð daganna frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eru „samantekt“, „spuni“ og auðvitað að hún muni ekki tjá sig „efnislega“ fyrr en lögreglurannsókn á ráðuneyti hennar er lokið. Samt heldur hún áfram að dýpka holuna sem hún er komin í.Hanna Birna

Rannsókn lögreglu beinist að því, hver lak minnisblaðinu úr innanríkisráðuneytinu. Engu öðru. Telja verður afar ólíklegt að það verði upplýst. Þeir sem vita þegja væntanlega áfram og blaðamenn láta vonandi ekki þvinga sig til að segja frá.

Eftir nokkrar vikur tilkynnir lögreglan að rannsóknin hafi ekki borið árangur og enginn verði ákærður. Þá stígur Hanna Birna fram og segir: „Lögreglan hefur lokið rannsókn og fann ekkert athugavert. Ráðuneytið og ég persónulega hef verið hreinsuð af rætnum pólitískum ásökunum og áburði.“ Og sanniði til: Stjórnarliðar munu koma í röðum og lýsa trausti á hinn flekklausa innanríkisráðherra.

En lekamálið snýst ekkert um lekann. Við vitum að minnisblaðinu var lekið, bara ekki hver gerði það. Og það skiptir heldur engu höfuðmáli. Eins og svo oft í svipuðum málum er það ekki kveikjan sem er alvarlegust, heldur viðbrögðin þegar upp kemst. Þar hefur innanríkisráðherra látið hrekjast úr einu horninu annað vikum og mánuðum saman. Með undanbrögðum og ósannindum.

Kjarni málsins er þessi: Yfirmaður dóms- og lögreglumála átti að víkja á meðan lögreglan rannsakaði hana og ráðuneyti hennar. Hún neitaði og þrætti meira að segja lengi vel fyrir að nokkur rannsókn stæði yfir.

Nú hefur lögreglurannsóknin leitt í ljós að ráðherrann sagði þinginu ósatt í lok janúar þegar hún sagði að minnisblaðið væri „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu.“ Hún vissi betur, en sagði þetta samt. Það heitir að segja ósatt vísvitandi. Og hún veit það.

Þess vegna reyndi hún í dag að „útskýra“: Hún hefði átt við þessar tvær lokasetningar sem einhver hefði bætt við skjalið eftir að það kom frá lögfræðingi ráðuneytisins. Þetta er í skársta falli örvæntingarfullt yfirklór, í versta falli enn meiri ósvífin forherðing. Tvær setningar (sem voru búnar til í ráðuneytinu líka) nægja ekki til að gera lekaskjalið „ósambærilegt“ við það sem lögfræðingurinn skrifaði. Það er ekki nokkur lifandi leið að halda því fram og ætlast til þess að því sé trúað. Samt reynir hún.

Sko. Það er vel skiljanlegt að ráðherrann reyni að verja aðstoðarmenn sína, annan eða báða. Hún „má“ meira að segja skrökva opinberlega (eins og hún hefur ítrekað gert) á hrakningi og flótta undan því sem orðið var. Kjósendur dæma um það háttalag.

En hún má ekki segja þinginu ósatt. Það er bara alveg bannað. Einhver velviljaður ætti að benda Hönnu Birnu á þessa staðreynd. Ráðherrar mega ekki segja ósatt í ræðustól alþingis. Og hún gerði það.

Eða ef hún skilur hitt orðalagið betur: Hættu að grafa á meðan þú átt enn möguleika á að komast upp úr holunni.

1,648