trusted online casino malaysia
Gestastofa 26/05/2014

Góðar hugmyndir í Reykjavík

Eftir Stefán Jón HafsteinStefán Jón

Kosningabaráttan lumar á nokkrum góðum hugmyndum fyrir Reykjavík. Einhvers staðar í smáa letrinu rakst ég á að Sjálfstæðismenn vilja opna bókhald borgarinnar og setja á netið, nótur og allt. Þetta væri rótttæk og mikilvæg nýbreytni fyrir allan opinberan rekstur og verðskuldar stuðning.

Hjá flokknum er það hins vegar reyndar tæpast „hugmynd“ að „lækka skatta og lækka skuldir“ samtímis svo ég geri þá tillögu ekki að umræðuefni meðan hann vill ekki útfæra hana.

Framsóknaroddvitinn minntist á að nauðsynlegt væri að taka á því skólavandamáli að ungir piltar gætu margir ekki lesið sér til gagns. Það er ótrúlegt að þessi staða skuli ekki hafa fengið meira pláss í umræðunni, því áfellisdómurinn um stærsta útgjaldalið borgarinnar er þungur.

Samfylkingin gerir sér grein fyrir þessu án þess að setja á oddinn og hefur í stefnuskrá sinni að bæta úr. Þetta ætti að vera eitt af brýnustu forgangsverkefnum á næsta kjörtímabili og vandséð að nokkur verði á móti.

Ég styð VG í leikskólamálum

Vinstri Græn eru með annað tveggja höfðumála kosningabaráttunnar: Gjaldfrjálsan leikskóla. Við eigum að stefna að þessu. Kannanir erlendis sýna að fjárfesting í góðum leikskóla, fyrsta skrefinu á menntabrautinni, borgar sig hratt aftur. Aðstöðumunur stétta minnkar, jaðarhópar eins og nýbúar komast á jafnréttisgrundvelli til móts við félaga sína – hér byrjum við að brúa menningargjár.

Því miður stóð talsmaður VG á gati í útvarpinu þegar spurt var um fjármögnun. Það er ekki boðlegt að vísa í sparnað í „yfirbyggingu“ þegar svo brýnt hagsmunamál er í húfi. Mér finnst þetta merkilegra framtíðarmál en hærri inneign á frístundakort Samfylkingarinnar, með fullri virðingu.

Samfylkingin hefur hins vegar, réttilega, sett húsnæðismálin í brennidepil. Við búum við óþolandi markaðsbrest og félagsleg úrræði eru nauðsyn. Það verður ekki auðvelt að fjármagna og reka 2500-3000 leiguíbúðir. Hér eru svo mörg víti að varast að ekki er hægt að telja upp, en nauðsyn er brýn.

Manni sýnist óhjákvæmilegt að byggingarkostnaður verði meiri en leigutekjur standi undir. Það er vandinn í hnotskurn. Einhver borgar það bil en það frumkvæði og áræði sem Samfylkingin sýnir er lofsvert.

Ef Björt framtíð veit nákvæmlega hvað hún ætlar að gera til að hjálpa smáfyrirtækjum og örva vöxt þeirra með aðgerðum á færi borgarstjórnar er það fínt, en útfærslan er ekki í stefnu flokksins frekar en ansi margt annað og veldur hún vonbrigðum. Það er í sveitarstjórnum sem hlutlægar og áþreifanlegar tillögur eiga heima.

Þorleifur Gunnlaugsson hjá Dögun hefur talað skýrt fyrir málstað utangarðsfólks, hér er aðgerða þörf því miður.

Fólkið á bak við hugmyndirnar

Á Íslandi er engin hugmynd góð nema að baki hennar sé fólk í augsýn sem getur hrint henni í framkvæmd. Þótt ég sé fyrrverandi trúnaðarmaður Samfylkingarinnar ber mér engin skylda til að styðja þann flokk eða fólk nema að verðleikum. Það geri ég.

Dagur, Björk, Hjálmar, Kristín Soffía og Skúli eru að mínu mati óspilltir stjórnmálamenn. Því miður er það fyrsta spurningin sem maður spyr í dag. Þau hafa sýnt dugnað á ólíkum sviðum og aflað sér reynslu.

Dagur verðskuldar það mikla fylgi sem hann hefur sem borgarstjóraefni því hann hefur vaxið í starfi á þremur kjörtímabilum. Staða Samfylkingarinnar í borginni í dag er ákveðin ábending til flokksins á landsvísu.

Nú renna öll vötn til Reykjavíkur.

Stefán Jón Hafstein

Flokkun : Pistlar
1,342