Gjald karlmennskunnar
„Maaark“, og allir karlmenn, bæði inni á fótboltavöllunum og framan við risaskjáina á börum heimsins hoppa hver upp um annan og hlæja eða gráta og faðmast og klappa hver öðrum á bakið – bæði þétt og lengi.
Þetta eru einu aðstæðurnar þar sem karlmennskan er samtaka um að sýna óritskoðaðar tilfinningar frá sínum innsta kjarna, þar sem karlmennskan ræðir um líðan sína við aðra karla, nýtur þess að finna hjörtun slá í takti og finna hlýjuna í snertingu og líkamlegri nánd við kynbræður sína, þ.e. án þess að vera kallaðir hommar. Ýkjur eða hvað?
Skoðum heiðarlega hvernig drengir tileinka sér kynjaímynd karlmennskunnar og hvað það er sem drengir og karlar gera öðruvísi en stúlkur og konur.
Kynjaímyndin er að miklu leyti mótuð á þriðja aldursári þannig að heimilið og fólkið og svo stórfjölskyldan eru í lykilhlutverkum. Flestir drengir sjá enn að móðirin tekur meiri ábyrgð á heimili og börnum og að systurnar eiga að hjálpa til en ekki þeir. Svo sjá þeir föðurinn og aðra karla í fjölskyldunni sinna launavinnunni umfram konurnar og vita að það skiptir máli að skaffa vel.
Þeir vita að mamman er sú sem ræðir við börnin þegar eitthvað ber út af en pabbinn ákveður hvort fjölskyldan hafi efni á að fara til útlanda þetta árið. Þeir sjá að konurnar tárast og faðmast á viðkvæmum stundum en karlarnir láta sér duga að hrista hendurnar hver á öðrum ívið lengur en venjulega og humma dimmum rómi. Þeir heyra foreldrana rífast og mamman situr eftir grátandi þegar pabbinn rýkur í reiði út – og í vinnuna. Flestir drengir í flestum fjölskyldum en vissulega ekki öllum.
Síðan hamrar samfélagið á gömlu ímyndinni með endalausum ofurhetjumyndum og blálituðum barnabókum með kjörkuðum körlum sem hræðast ekkert en bjarga ýmist prinsessum að öllum heiminum, eftir því hvað er viðeigandi hverju sinni. Þeir læra að alvöru karlar hræðist ekkert og þurfi ekki á öðrum að halda, einir á ferð með þunga ábyrgðarinnar á vöðvastæltum öxlum og án þess að líta til hliðar, hugsa málin, finna til eftirsjár eða skipta um stefnu í lífinu. Líkamleg ofurmenni og nánast mállausir þar sem þeir kinka kolli þegar þeim er þakkað fyrir lífgjafir og bjarganir. Trúlega er vöðvamassi kjálkanna að þvælast fyrir þeim.
Gjald þessarar karlmennsku er skelfilegt. Drengir og unglingar sem deyfa sig með neyslu langt umfram stúlkur, hræddir og ófærir um að leita sér hjálpar við andlegri vanlíðan. Sjálfsvíg ungra manna sem bugast undan lífinu með öllum sínum sársauka sem þeim var ekki kennt að bregðast við á réttum tíma. Skilnaðir ungra hjóna þar sem hann er ófær um að ræða tilfinningar sínar við konuna sem þarf enga ofurhetju, heldur bara mannveru sem sýnir umhyggju og áhuga á lífi hennar og barnanna. Heimilisofbeldi þar sem hann reiðir upp hnefann í hverjum vanda, rétt eins og ofurhetjan forðum. Eins skilningssljór og mállaus eins og ædólið hans í æsku. Krabbamein sem uppgötvast alltof seint því að alvöru karlar kvarta ekki og eyða ekki dýrmætum launavinnutíma í læknisheimsóknir. Hjartaáföll á miðjum aldri þar sem karlmennskan leyfir ekki hjartastyrkjandi grát sem dregur úr hjartakvillum samkvæmt rannsóknum. Slíkur munaður er bara fyrir konur.
Hvaða faðir eða karlmennskuímynd í fjölskyldu vill arfleiða litla drenginn að þessu gjaldi karlmennskunnar? Enginn. Og hvað er þá til ráða? Það besta sem fulltrúar pabbahlutverksins og afahlutverksins og frændahlutverksins gera er að horfa í spegil og breyta sjálfum sér ef á þarf að halda.
Sýndu drengjum að þú takir fjölskylduna fram yfir launavinnuna, komdu fyrr heim og slökktu á símanum. Talaðu við drenginn þinn um tilfinningar og leyfðu honum að læra um áhyggjur og líðan þína. Faðmaðu hann og horfðu í augun á honum. Sinntu áhugamálum með honum en ekki gera kröfur á að hann „standi sig“ heldur að hann skemmti sér og muni að boltaleikir séu til gamans en ekki stríðsátök þar sem litlir drengir tapa og vinna á víxl. Segðu honum að hann sé fallegur og leyfðu honum að ráða litunum á fötunum sínum.
Veldu fjölskyldumynd á föstudagskvöldum og njóttu þess að fella nokkur tár yfir Lassie sem elskar drenginn sinn umfram allt. Faðmaðu makann og notaðu falleg orð á heimilinu. Hjálpaðu drengnum þínum með heimanámið. Hann ræður ekki við það sjálfur og þarf að vita að námsárangur næst með ástundun en ekki útbelgdum mannalátum. Hjálpaðu honum líka að laga til í herberginu, hann er ekki eins flinkur og systir hans sem hefur hjálpað mömmunni frá frumbernsku. Með öðrum orðum, besta leiðin til að bjarga honum frá gjaldi karlmennskunnar er að hafna því sjálfur.
Margrét Pála Ólafsdóttir
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021