trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 07/05/2015

Geta þrír örflokkar höggvið á hnútinn?

GPM_9421Ríkisstjórnin ætlar augljóslega ekkert að aðhafast til að leysa þær kjaradeilur, sem á næstu vikum munu beinlínis leggja íslenskt samfélag í rúst. Sú hugdetta hefur kannski ekki á sér trúverðugt yfirbragð, að stjórnarandstaðan geti hlaupið í skarðið og höggvið á hnútinn, en við skulum samt skoða möguleikann aðeins nánar.

Tvær afar skarplegar greiningar á samfélagsástandinu hafa birst á netmiðlum allra síðustu daga. Ég mæli hiklaust með lestri beggja. Annars vegar er grein Jóns Kalman Stefánssonar um „Ögmundarsyndrómið“ í Kjarnanum. Hins vegar er fésbókarfærsla  Guðmundar Rúnars Svanssonar, sem segir m.a. þetta:

 „Því í rauninni eru þetta ekki kjarasamningar [þar] sem tekist er á um laun, heldur væri ef til vill nær að hugsa um uppgjör þar sem er tekist er á um hvert íslenskt samfélag stefnir á næstu árum.“

Sú ríkisstjórn, sem nú situr, hefur markað mjög skýra stefnu um þróun samfélagsins á næstu árum. Hún hefur létt miklum byrðum af auðstéttinni, en sýnir tekjulægri meirihluta þjóðarinnar alls engan áhuga.

Og sundrungarsaga félagshyggjuflokka síðustu 80-90 ár er auðvitað skömm, sem kominn er tími til að bæta úr. Jón Kalman vill sameina VG, Samfylkinguna og Bjarta framtíð undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Ég hef heyrt margt vitlausara.

Einmitt þessa dagana á núverandi ríkisstjórn slétt tvö ár ólifuð. En hvað tekur þá við? Bandalag þessara þriggja flokka er ekki ólíklegur kostur, ekki síst ef tiltekin meginstefnumál njóta einnig stuðnings pírata og fá að auki hljómgrunn meðal kjósenda.

Myndi þessir þrír flokkar strax með sér bandalag, lýsi því yfir að þeir hyggist mynda saman nýja ríkisstjórn eftir tvö ár og leggi jafnframt á borðið fáein afgerandi grundvallarmálefni, gæti komið upp alveg ný staða. Til að hafa áhrif á afstöðu launþegasamtakanna þurfa málefnin auðvitað að snúa beint að lífskjörum launafólks.

Hækkun skattleysismarka

Það er reyndar auðvelt að benda á slík málefni. Sé miðað við þróun launa frá því að staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1988, hefur persónuafsláttur (og þar með skattleysismörk) hríðlækkað. Til að ná raunvirði miðað við launavísitölu, þarf næstum því að tvöfalda persónuafsláttinn.

Slík breyting færir lægstu laun ásamt örorku- og ellibótum undir skattleysismörk og það jafngildir 15-18% hækkun útborgaðra launa. Úborguð mánaðarlaun hækka á bilinu 26-33 þúsund bara við þessa einu aðgerð.

Til samanburðar má nefna að hækkun lægstu launa upp í 300 þúsund skilar um 52.000 krónum hærri útborgun en nú. Hækkun persónuafsláttarins til samræmis við það sem hann var í upphafi uppfyllir sem sagt meira en helming þessarar kröfu.

Lægsta skattþrepið breikkað

Væru mörk milliþreps tekjuskattstigans færð upp í miðgildi launa, lækkar það skattbyrði langflestra launþega verulega og jafngildir töluverðri launahækkun. Staðgreiðsluhlutfallið hækkar nú um 2,4 prósentustig strax við 290.000 króna mánaðarlaun.

Miðgildi reglulegra dagvinnulauna er nálægt 400 þúsundum á mánuði (393.000 árið 2014). Helmingur launafólks hefur sem sagt um 400 þúsund á mánuði eða minna. Hinn helmingurinn hefur hærri tekjur.

Það launafólk sem er í miðju launastigans fær nú rúmlega 290.000 krónur útborgaðar, en fengi eftir slíka skattalækkun ríflega 335.000 krónur. Það er 45 þúsund króna hækkun útborgaðra launa eða 15,5%. Og það eru auðvitað hin útborguðu laun sem skipta fólk máli.

Væri núverandi ríkisstjórn reiðubúin að leggja eitthvað þessu líkt á borðið, geri ég ráð fyrir að öllum kjarasamningum mætti ljúka í næstu viku. En það er ekkert slíkt í vændum.

Nægar tekjur á móti

Auðvitað kostar það sitt að lækka skatta meira en helmings landsmanna. En það var heldur ekki ókeypis fyrir ríkissjóð þegar núverandi ríkisstjórn stórlækkaði veiðigjöld og afnam auðlegðarskatt.

Alvöru veiðigjöld, auðlegðarskattur og mögulega nýtt ofurtekjuskattþrep, t.d. á þann hluta launa sem er yfir einni og hálfri milljón duga trúlega vel til að bæta tekjutap vegna skattalækkana í neðri hluta skattstigans.

Eftir tvö ár getur ný ríkisstjórn rétt kúrsinn við á nýjan leik og tekið það sem fyllilega réttmætt er að taka af hinum ríku og fært það hinum fátækari. Um leið uppfyllast óskir bæði launþegasamtaka og vafalítið stórs meirihluta þjóðarinnar um aukinn jöfnuð og réttlátara samfélag.

Nýtt umbótabandalag

Þótt stjórnarandstaðan á þingi virðist einna helst samsafn sundurleitra örflokka, ber þeim í aðalatriðum ekki mikið á milli. Taki þessir flokkar nú frumkvæðið og leggi á borðið skýra áætlun um verulegar kjarabætur fyrir allstóran meirihluta landsmanna, er kannski ekki alveg loku fyrir það skotið að þeim tækist að ná samstöðu með samtökum launafólks.

Þannig yrði til alveg nýtt umbótabandalag, þar sem félagshyggjuflokkar og launafólk tækju höndum saman gegn auðhyggju, gróðafíklum og spillingu. Náið samstarf launþegasamtaka og stjórnmálaflokka er heldur ekkert nýtt. Það var með slíku samstarfi, sem Skandinavar byggðu upp velferðarsamfélög fyrir og um miðja síðustu öld.

Við yrðum þá einfaldlega að líta á næstu tvö ár sem biðtíma og launafólk þyrfti að sætta sig við skammtímasamninga, sem ekki gerðu öllu meira en að viðhalda núverandi kaupmætti. Um leið væri núverandi stjórnarherrum gefið langt nef og við gætum farið að telja niður dagana þangað til þeir neyðast til að skila af sér lyklavöldunum.

Það gæti kannski verið ómaksins virði.

Og ég er hjartanlega sammála Jóni Kalman Stefánssyni um að Katrín Jakobsdóttir væri einkar heppilegur forystumaður slíks umbótabandlags.

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,367