Fúll og fúl á móti
Forsætisráðherrann hélt ræðu á fundi í flokknum sínum. Af fréttum má ráða að hann hafi verið glaðbeittur og uppörvandi eins og honum einum er lagið.
Allir nema hann draga pólitíska umræðu niður á lágt plan. Skilja mátti að lágkúran hafi náð hámarki þegar fólk tók alvarlega framlag frambjóðanda flokksins hans í borgarstjórnarkosningunum. Hvernig datt fólki það eiginlega í hug ? Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en auðvitað máttum við öll vita að útspilið með moskuna, var bara vegna þess að flokkurinn hafði ekkert annað til málanna að leggja og meinti auðvitað ekkert með því sem sagt var. Sannarlega ættum við öll að skammast okkar fyrir fyrir að hafa ekki vitað betur.
Ég vona líka að engu okkar detti í hug að leggja okkur til munns amerískt nautakjöt, ef við einhvern tímann komumst í tæri við það. Ekki er annað að skilja en það sé jafnvel hættulegra lífi og limum en annar útlenskur matur. Kannski ættum við að setja upp skilti í Leifstöð þar sem segir: Varúð þið eruð að leið til útlanda ! Eruð þið með saxbauta í farangrinum ?
Forsætisráðherrann hneykslaðist einnig á hvernig við í stjórnarandsöðunni greiddum tillögum hans um leiðréttingu á verðtryggðum skuldum atkvæði. Honum fannst það botninn að stjórnarandstaðan skyldi greiða atkvæði gegn tillögunum. Vill þetta fólk (þ.e. við í stjórnarandstöðu) ekki koma til móts við íslensk heimili ? Hvunnslags eiginlega lið er þetta. Sama viðhorf kom fram hjá virtum álitsgjöfum hvort heldur í stétt blaða- eða háskólamanna.
Á síðustu fjórum árum hefur þrem rannsóknarskýrslum verið skilað til Alþingis: Rannsóknarskýrslu um hrun bankakerfisins, Rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð og Rannsóknarskýrslu um sparisjóðina.Þessar skýrslur eru síður en svo skemmtilestur. Þær eiga sér það sameiginlegt að lýsa andvaraleysi í ýmsum myndum stundum aðgerðaleysi, stundum framkvæmdagleði stjórnmálamanna, embættismanna, stjórnenda fyrirækja, banka, sparisjóða, lífeyrisjóða og verkalýðsfélaga – kannski bara okkar allra.
Í rannsóknarskýrslunni um Íbúðalánasjóð má lesa um hverng lög um nýtt húsnæðislánakerfi, þar með 90 % lánin svokölluðu, var samþykkt án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sjóðurinn gæti brugðist við þessum breytingum. – Sérfræðingar höfðu þó gert skilmerkilega grein fyrir áhættunni.
Ekki efast ég um góðan vilja stjórnmálamanna þegar lagabálkurinn var samþykktur. Hver vill ekki lækka vexti og auðvelda fólki húsnæðiskaup?. En enginn er eyland og flestar aðgerðir hafa fylgifiska og það þarf ekki síður að huga að þeim. Þess vegna er stundum betur heima setið en af stað farið.
Það voru einmitt fylgifiskarnir sem ollu því að ég greiddi atvkæði gegn skuldaniðurfellingunum. Millifærslurnar sem skuldaniðurfellingin hefur í för með sér fara í marga staði, líka til ýmissa sem ekki þurfa á þeim að halda. Peningarnir sem við höfum til ráðstöfunar eru af skornum skammti. Hvort heldur þeir eru sóttir með því að skattleggja banka eða aðra. Þess vegna skiptir máli hvernig við deilum þeim aftur.
Það er ekki vitað með neinni vissu hvaða áhrif skuldniðurfellingarnar hafa á hagstjórnina, með öðrum orðum hver efnahagsleg áhrif þeirra verða. Ljóst er að þær standast ekki kröfur nýs frumvarps um fjárreiðulög sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram í vor. Í umsögn frá Seðlabankanum kom fram að kostnaður Íbúðalánasjóðs gæti numið allt að 24 milljörðum; að verðbólguáhrif aðgerðanna á verðtryggð lán gætu orðið 22 milljarðar; verðbólguáhrif aðgerðanna gætu hækkað útgjöld heimilanna um 15 milljarða og verðtryggð lán fyrirtækja um 7 milljarða.
Mín niðurstaða var sem sagt sú að þetta væri ekki skynsamleg ráðstöfun á almannafé. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fosætisráherra, álitsgjafar og hverjir sem helst telji þetta ranga niðurstöðu. Við því get ég ekki amast, en ég amast við því að gefið sé í skyn að annarlegar ástæður liggi að baki. Hvort heldur það sé illvilji í garð ríkisstjórnarinnar, skilningsleysi á vanda fólks, hvað þá almennur skepnuskapur.
- Varist eftirlíkingar - 24/10/2016
- Land ríkra útgerðarmanna og fátækra barna - 07/09/2016
- Um lögreglufræðin og gagnrýni mína - 25/08/2016