trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 16/04/2014

Frosti fær sér kaffi

Frosti Sigurjónsson alþingismaður laumaði einum lúmskum ESB-status inn á facebook hjá sér í gærkvöldi. Hann setti hlekk á þessa frétt í Berlingske Tidende og bætti við:

(Mynd: frosti.is)

(Mynd: frosti.is)

„ESB hefur ákveðið að frá og með 1. jan 2015 megi ekki selja kaffivélar sem halda kaffinu heitu lengur en í 5 mínútur.“

Það er ekki að spyrja að ruglinu í ESB, hugsuðu lesendur, rétt eins og Frosti ætlaðist til. Við göngum sko ekki í þetta Evrópusamband til að láta svona vitleysu yfir okkur ganga! Muniði ekki eftir reglunum um banana og staðlaða stærð á smokkum?!!! (Líklega voru upphrópunarmerkin fleiri.)

Þeir sem nenntu að lesa fréttina komust hins vegar að því, að fullyrðing Frosta var röng. Eins og góðum stjórnmálamönnum sæmir sammæltust fulltrúar hinna 28 þjóða nefnilega um alls konar skynsamlegar útfærslur á þessum áformum. (Þið verðið bara að lesa þær sjálf.)

Um meginatriðið voru þeir hins vegar sammála: Sumsé að spara sosum tvær teravattstundir af orku á ári með því að hætta að láta kaffivélar gera kaffi að mauki með margra klukkutíma malli. Það samsvarar næstum hálfu álveri á Íslandi, eins og Vilhjálmur Þorsteinsson benti á í athugasemd. Gott hjá þeim.

En það er aukaatriði. Reglur ESB eru hvorki sjálfkrafa góðar né vondar. Þessar virðast vera skynsamlegar, en látum það vera. Hitt komment Frosta var meira upplýsandi (og satt), þegar hann sagði aðspurður:

„Því miður er hætt við því að þetta rugl komi hingað á endanum gegnum EES.“

(Gisp!) #&!!?%# Þetta rugl kemur sumsé hingað þótt við séum ekki í ESB? Getur meira að segja Heimssýn ekki tryggt okkur sjö tíma gamalt kaffi?

Röng viðbrögð. Ísland er nefnilega í Evrópusambandinu. Við tökum upp lungann úr lögum þess og reglum á færibandi, án þess að hafa nokkur áhrif á tilurð þeirra. Þetta veit Frosti vel – hann samþykkir ESB-lög og -reglur nánast í hverri viku í vinnunni sinni, án þess að hiksta yfir öllu „ruglinu.“

Við erum í ESB (í gegnum EES) af því að við viljum taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum og alþjóðlegri samvinnu. Evrópusambandið er samfélag fullvalda þjóða sem hafa ákveðið að mikilvægustu málefnum sé skynsamlegast að ráða í samstarfi, af því að viðfangsefnin virða ekki landamæri.

Kaffivélar virðast ekki falla undir mikilvæg eða alþjóðleg viðfangsefni, en reglur um þær endurspegla samt tvennt: Metnaðarfulla orku- og umhverfisstefnu ESB, og augljósa hagkvæmni þess að láta sömu kröfur gilda um sambærilegar vörur á sama markaði. Það væri heimskulegt að láta einar kröfur gilda um kaffivélar í Slóvakíu og aðrar í Svíþjóð. Úr því yrði bæði lítill og vondur bissniss. Þetta veit markaðsþenkjandi maður eins og Frosti. (Hin leiðin væri að hafa engar reglur, hvorki um öryggi né gæði, ekkert eftirlit o.s.frv., en ég nenni ekki þangað.)

Að því sögðu liggur beint við að spyrja:

Hvernig viltu losna við „ruglið“ frá Evrópusambandinu, Frosti? Viltu segja upp EES-samningnum? Það er hægt, og þú þekkir afleiðingarnar. En það er líka eina leiðin, sorrí.

Endilega segðu okkur frá, Frosti. Eftir að þú færð þér kaffibolla.

Þú mátt jafnvel hugsa upphátt.

1,321