trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 29/04/2014

Frjáls samkeppni – nei takk!

Í þá ríflega hálfu öld sem ég hef fylgst með íslenskri stjórnmálaumræðu hefur Sjálfstæðisflokkurinn boðað frjálsa samkeppni einkafyrirtækja á frjálsum markaði.  Þessi hugmynd hefur alltaf verið megingrundvöllur og meginstefnumál þessa flokks. En því miður aðeins í orði. Ekki á borði.

Eftir á að hyggja veltir maður því fyrir sér hvort þeir sem mestu réðu innan Sjálfstæðisflokksins hafi í rauninni nokkurn tíma haft raunverulegan áhuga á frjálsri samkeppni á frjálsum markaði. Flokkurinn hefur verið við völd allan lýðveldistímann með fáum og skammvinnum undantekningum, en samkeppni hefur aldrei verið áberandi á Íslandi.

Þessa dagana opinberast bein andúð sjálfstæðismanna á frjálsri samkeppni óvenju skýrt. Það er sem sé verið að ræða veiðigjöld á Alþingi. Í grundvallaratriðum snýst þetta mál einfaldlega um að að þeir sem fá úthlutað einkaleyfi til að veiða fisk, þurfi að greiða fyrir einkaleyfin. Jafnvel útgerðarmenn eru nú sjálfir farnir að viðurkenna að það sé kannski sanngjarnt að ríkiskassinn fái eitthvert afgjald – fyrir hönd þjóðarinnar.

Auðvitað er hægt að hugsa sér margar aðferðir til að reikna út eðlilega leigufjárhæð. Það er líka eðlilegt að sumir stjórnmálamenn vilji taka tillit til byggðasjónarmiða. En í augum þeirra sem telja frjálsa samkeppni á frjálsum markaði alltaf og alls staðar leysa allan vanda, er augljóslega aðeins til ein leið.

Hún felst í því að skapa frjálsan markað með því að selja allar aflaheimildir á uppboði. Á slíkum uppboðsmarkaði skapast sjálfkrafa frjáls samkeppni og reyndar líka jafn réttur allra. Allir geta boðið og að sjálfsögðu verða menn að gæta sín og bjóða ekki hærra en svo, að þeir sjái fram á að fá nokkurn arð af rekstrinum.

Og hvar er nú þessi flokkur sem alla tíð hefur grundvallað stefnu sína á frelsi einstaklingsins og frjálsri samkeppni á frjálsum markaði? Liggur ekki í augum uppi að Sjálfstæðisflokkurinn berjst með kjafti og klóm fyrir uppboði aflaheimilda í frjálsri samkeppni á frjálsum markaði?

Nei, þannig er það reyndar ekki. Sjálfstæðismenn á Alþingi keppast bara við að lækka veiðigjöld. Þar með taka þeir afstöðu með einokun og skjótfengnum ofsagróða tiltölulega fárra, en á móti frelsi, á móti jöfnum tækifærum einstaklinganna og á móti samkeppni.

Sjálfstæðisflokkurinn á sennilega ekki einu sinni skilið að kallast borgaralegur hægri flokkur. Þegar til kastanna kemur virðist hann eiga meira skylt við aðalsættir miðalda. Aðallinn hafði lögverndaðan einkarétt á auðæfum og sællífi löngu áður en hugtökin hægri og vinstri urðu til. Þessi forréttindastétt hrundi til grunna upp úr frönsku byltingunni 1789.

Fyrir 225 árum.

Flokkun : Pistlar
1,404