Friðargæsluliðar í fjórða bekk. Eða: Vandinn við að vera samræmt barn
Eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
,,Heldurðu að ég sé að kenna hérna?” dæsti grunnskólakennari fyrir nokkrum árum og horfði yfir smekkfulla skólastofu 4. bekkinga. ,,Nei, ég er aðallega að passa og stöku sinnum kemst ég í kennslu þá sjaldan kyrrðin næst.”
Þessi annars hæfi lærimeistari var fremur friðargæsluliði í grunnskóla en sá uppfræðari sem honum hafði verið ætlað að vera.
Og í ófáum upplestrarheimsóknum í grunnskóla landsmanna hefur eitt og annað vakið mig til umhugsunar. Tekið skal fram að þetta hafa ekki verið vísindalegar rannsóknir, einungis tilfinning og mat með hyggjuvit að vopni. Áberandi var í yfirfullum grunnskólum höfuðborgarsvæðisins að agi virðist megin viðfangsefni kennara og starfsmanna.
Leitin að innri ró, kyrrð og friði, sem leiðir svo aftur af sér einbeitingu, athygli og vellíðan, virðist einn alsherjar ratleikur grunnskólakennara og nemenda þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Þegar út á landsbyggðina var komið í skólaheimsóknir mátti þó greina talsverðan mun. Streitan býr í mannmergðinni og kyrrðin tekur sér bólfestu í fámenninu. Gesturinn greindi í sínum óformlegu og lítt faglegu rannsóknum að í rólegri samfélögum norðan heiða virtist ekki jafn krefjandi þörf fyrir leitina að kyrrðinni. Hún var skammt undan.
Þessi galdur, að vera með sjálfum sér í stundinni, njóta og eira sér var miklu heldur yfir og allt um kring. Ef til vill var því að þakka að ekki var verið að skutla hingað og þangað í ofboði langar leiðir, síður var verið að æða með krakkagrey út og suður í búðir fyrir lokun. Umferðin var hægari og samfélagið allt. Og þegar rætt er um að vera með sjálfum sér – þetta hugarástand sem margir vilja kalla sjálfsaga – þá er vert að líta heim í hús, því ekki er hægt að leggja uppeldisábyrgð á skólana með öllu.
Og þá leita á mann stórar spurningar um hlutverk heimilanna í barnauppeldi, hvernig búið er að uppalendum til að efla getu þeirra til að sinna stærsta og mikilvægasta verkefni sem hverri manneskju er falið á lífsleiðinni – að koma annarri manneskju á legg. Taki maður að sér hundspott er hann skyldugur til að fara á tilheyrandi uppeldisnámskeið svo samfélagið geti verið öruggara um að viðkomandi axli þá ábyrgð sem fylgir hundahaldi. Ellegar fæst dýrið ekki skráð.
Uppfræðsla, handleiðsla og endurmenntun foreldra er hinsvegar skemmtileg tómstund einhverra sem hafa mikinn tíma að drepa. Slík fræðsla er tilviljanakennd fremur en skipulögð. Hún er í boði fyrir þá sem eftir leita, en það er líkt og með foreldrafundi grunnskólanna – þeir einir mæta sem síst þurfa þess með.
Skilaboð úr veröld barna
Hugum að yngsta skólastiginu. Viðvera barna í leikskólum er stöðugt að lengjast, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið 1998 voru rúmlega 40 prósent barna í leikskólum skráð í 8 tíma viðveru eða lengur. Fjórum árum síðar var þetta hlutfall komið í rúmlega 60 prósent og árið 2006 voru 75 prósent allra barna í leikskólum skráð í að minnsta kost 8 tíma daglega viðveru. Eilítið hærra hlutfall drengja en stúlkna var skráð í lengri viðveru. Alls voru ríflega 17.200 börn á leikskólum á Íslandi í árslok í fyrra og hafa þau aldrei verið fleiri.
Þetta þóttu mér merkileg tíðindi í miðjum kosningaslag á vordögum. Það er sumsé þannig að vinnudagur fjögurra ára stubba er lengri og strembnari en margra fullorðinna. Umræðan í kjölfarið varð þó nánast engin og þessi stóra staðreynd drukknaði í kosningaskvaldri, grillveislum og skyndiglaðningum ráðherranna á lokadögum. Þó barst önnur fregn úr veröld íslenskra barna út í samfélagið aðeins degi síðar – ekki síður tormelt.
Fjölmiðlar fluttu þá fregnir af því að félagslega einöngruðum börnum í skólum á Íslandi færi ört fjölgandi. Þá var upplýst að skólarnir hefðu ekki bolmagn til að sinna þessum börnum nægilega vel. Þau hefðu lélega sjálfsmynd, væru óframfærin, einmana, döpur og vinalaus. Af þessu leiddi að þau hefðu mikinn tíma til umráða og Netið freistaði þeirra.
„Það eru þessir krakkar sem verða mun oftar þolendur kynferðisofbeldis er tengist Netinu en önnur börn,“ sagði ráðgjafi hjá Barnahúsi.
Og námsráðgjafi til margra ára sagði orðrétt þegar þessi frétt rann eitt síðdegi niður fjölmiðlafossinn: ,,Það er alveg óþolandi að það sé til hópur nemenda, óframfærnir kvíðnir krakkar, sem eru með hnút í maganum á hverjum einasta degi þegar þau eru að fara í vinnuna, vinnu sem þau verða að mæta í. Ég hef sagt þetta hundrað sinnum og ég fæ alltaf gæsahúð við tilhugsunina.“ Og umræðan í kjölfarið var engin.
Enn berast fréttir úr reynsluheimi barna sem fljóta hjá á nokkrum klukkustundum. Tilkynningum um börn sem beita ofbeldi fjölgaði yfir 300% í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins 2007. Tilkynningum vegna líkamlegs- og kynferðislegs ofbeldis gegn börnum hefur fjölgað um tæp 30%. Meðferðarúrræðum er ábótavant. Ofbeldisfull hegðun meðal unglinga hefur aukist. Dæmi eru um að starfsmenn meðferðarstofnana hér á landi séu beittir ofbeldi af unglingunum sem þar dvelja. Deildarstjóri meðferðarheimilisins Stuðla segir ofbeldi meðal stúlkna færast í vöxt.
Og við sláum okkur á lær, leitum þó ekki uppruna og orsaka, byltum ekki og breytum samfélagsmynd til að bæta aðbúnað þessara minnstu og varnarlausustu borgara.
Samræmdu börnin
Börn eiga sér afar fáa málsvara miðað við hve fjölmarga aðstandendur þau eiga. Þau eiga að vera samræmd, þessi börn – og til friðs. Samræmd próf notar yfirvaldið til að draga línu meðaltalsins yfir hópinn. Þau eiga að standa á línunni í grunnfögum og þeir sem lenda ofan við línu eiga framtíðina, en þeir sem lenda neðan við línuna fá skýr skilaboð og það aðeins níu ára gömul.
Skólayfirvöld í einum virtum grunnskóla báðu nokkra foreldra fyrir sjö árum að halda börnum sínum heima daginn sem samræmda prófið var lagt fyrir níu ára manneskjur. Það voru foreldrar nýfluttra barna frá fjarlægum löndum og foreldrar barna sem sýnt var að þyrftu meiri tíma. Daginn þann sat hópur barna heima úr tilteknum skóla svo halda mætti meðaltalslínunni hátt á lofti.
Annað níu ára barn fór í sama próf og fékk skýra útkomu, lá flatt langt neðan við línuna fínu. Skólayfirvöld gerðu ekkert með þá niðurstöðu, nýttu sér ekki úrslitin í þágu nemandans, en hvísluðu að foreldrum löngu síðar að það þyrfti að vera frekur og standa fast á sínu til að berja í gegn sérkennslu fyrir barn sitt. Já, það má ljóst vera að það er erfitt að vera samræmt barn.
Verk- og listgreinar hafa yfirbragð léttleikans í grunnskólanum. Þar eru á ferðinni skemmti- og tómstundafög og sú þungavigt sem tengdar atvinnugreinar hafa í samfélaginu skilar sér ekki í skólakerfið. Það samræmist ekki samræmdu kerfi.
Og börnin frá fjarlægu löndunum eru ekki samræmd fremur en önnur börn. Þeim hefur fjölgað ört í íslenskum grunnskólum. Forvitnilegt væri að vita hvort fjárveitingar til inngrips og utanumhalds þegar aðlagast á nýrri tungu og framandi samfélagi haldast í hendur við þá öru fjölgun.
Í einnota veröld skeytingaleysis og virðingarleysis fyrir verðmætum horfir barnið á það sem fyrir er haft. Ein gömul skólastefna boðaði á fyrri hluta síðustu aldar þátttöku barna í daglegri umhirðu skólanna. Þar var innleggið að barnaskólinn væri sameiginlegt heimili og að allir heimilismeðlimir tækju þátt í heimilisstörfum. Þannig lærir barnið að umhverfið skiptir máli. Verðmæti, hversu smáleg sem þau nú annars eru, eru manns eigin og ber að umgangast af virðingu. Á slíkum vettvangi mætti þó samræma börn.
Skúraleiðingar og verðmætasköpun
Nýir grunnskóla spretta upp um allt. Ný hverfi verða til. Ný börn mæta í grunnskólann og þeim fjölgar hratt, blessuðum börnunum. Sjaldnast virðist þó byggt til framtíðar þar sem skúraleiðingar teygja úr sér á nýjum skólalóðum umhverfis nýtísku byggingar sem eru, strax á teikniborðinu, orðnar of litlar til að hýsa fyrirhugaða starfssemi. Í þvi velmegunarsamfélagi sem Íslendingar státa af vinna börn og lærimeistarar þeirra víða í bráðabirgðakofum. Fjöldi skóla virðist alltaf vera á byggingarstigi.
Gott og vel. Gæðin eru sjaldnast í steinsteypu. Þau felast í fólkinu og þeirri verðmætasköpun sem verður til nánast með hugaraflinu einu saman. Að öllum starfsstéttum ólöstuðum er kennarastarfið líklega eitt það mikilvægasta í mannlegu samfélagi. Öll eigum við okkur lærimeistara sem við hugsum til með hlýhug á lífsleiðinni – fólk sem hefur tekið í hönd okkar og leitt okkur í leitinni að okkur sjálfum og lífsgildinu. Þó er það nú svo að starfið er ekki eins mikils metið og það var fyrir örfáum áratugum.
Miðaldra, jakkaklæddir og heldri karlar gegndu þá virðingarstöðu kennarans og höfðu af því bærilegt lifibrauð. Körlum hefur fækkað stórlega meðal grunnskólakennara og ef til vill má enn ekki segja það upphátt, en hvíslað er að það sé vegna lágra launa. Sumir hafa jafnvel gerst svo grófir að lýsa kennarastarfinu sem skemmtilegu hlutastarfi fyrir vel giftar húsmæður, en það skal þó ekki gert hér.
Fyrir nokkru síðan gerðist ég svo fræg að sitja fyrirlestra í Lundúnaborg um útrás Íslendinga á breskum markaði. Ég hafði litlar áhyggjur af þessari útrás þar til ég sat þessa fyrirlestra, en sneri þungt hugsi af þeim fræðslufundi. Fyrirlesarar fóru mikinn um alla þá peninga sem biðu eftir því að íslenskir víkingar tækju þá herfangi – markaðurinn svæfi aldrei og útrásarmenn ekki heldur.
Víkingarnir virtust vera við leik í risavöxnu spilavíti verðbréfanna og á vinningsflugi miklu. En eftir stóð spurningin – til hvers? Til hvers að búa til svo mikla peninga? Hvert er þessum aurum ætlað að halda þegar búið er að snara þá í spilavítinu? Hvað svo? Og hvergi fékkst almennilegt svar við þeirri spurningu. Peningarnir virtust búnir til svo búa mætti til meiri peninga, svo búa mætti til enn meiri fúlgur og svo koll af kolli.
Að vísu geta spilagestir keypt sér flóttaleið í einkaflugvélum, þyrlum, snekkjum eða sundlaugum og fyllt á sína dótakassa, en annars ræður tómleikinn einn ríkjum. Samfélagslegt framlag er lítt sýnilegt nema í formi handahófskenndra ölmusa til menningarmála sem minna um margt á lénsskipulag fortíðar.
Hin eiginlega verðmætasköpun sem á sér stað daglega í þágu íslensks samfélags fer ekki fram á verðbréfamörkuðum í Lundúnaborg heldur í grunnskólunum. Þar er fólk að vinna við afskaplega misjafnar aðstæður – oft á tíðum mikil þrekvirki, í hljóði.
Vantar fleiri háskóla?
En einhverra hluta vegna er varla talað um skólamál á Íslandi án þess að umræðan snúist um háskóla. Það þarf að fjölga háskólum og þeim hefur aldeilis verið fjölgað. Skítt með þótt þeir standist ekki allir alþjóðlegar kröfur um slíkar stofnanir. Allir þurfa að komast í háskóla, helst viðskipta- eða lögfræðiháskóla. Ungir og upprennandi horfa til spilavíta stórborganna. Þar liggja verðmætin.
Að vísu höfum við tekið nokkra þrashringi um framhaldsskólann, en ekki um hvernig eigi að efla hann, styrkja og gera enn fjölbreyttari en hann er, heldur um það hvernig við getum stytt hann svo allir geti komist sem allra fyrst í háskólana sem eiga helst að rísa eins og álver í kringum landið.
Gott og vel. Ekki skyldi maður lasta háskólastofnanir. Þær hafa skilað miklum brautryðjendum út í samfélagið. En maður ætti að setja spurningamerki við þann gjörning að byggja lúxusíbúðir upp í skýin ofan á lúinn grunn sem lítt hefur verið endurbyggður eða treystur. Hvernig væri að leggja allt í fyrstu hæðir hússins, búa þær út ríkulega og geta státað af þeim sem bestu jarðhæðum veraldar – því okkur finnst jú svo skemmtilegt að eiga það sem best í heimi er. Þá hefði maður líka minni áhyggjur af hæðunum sem byggjast ofan á og teygja sig til himins. Slík grunnbygging mætti líka hafa tengihús yfir í aðrar greinar en bóklegar. Það er löngu tímabært að handverki sé sýnd sú virðing í skólakerfinu sem það fær sem betur fer víða í samfélaginu sjálfu.
Íslenskt háskólasamfélag ætti ekki að stefna að því að bjóða upp á allar mögulegar og ómögulegar greinar mannlegrar tilvistar. Heimskt er heimaalið barn og sigldur háskólaborgari kemur færandi hendi með nýja strauma af erlendum ströndum.
Börn í útláni
En nóg um háskóla. Samfélagið er stöðugt með litlar manneskjur í láni. Lánsárin eru barnæskan þegar uppalendur bera þá yfirmáta þungu ábyrgð að gæta að uppvexti græðlinga og styrkja litla stofna til framtíðar. Þar eru uppalendur ekki aðeins heimilin heldur líka grunnskólinn, íþróttahreyfingin og síst skyldi maður vanmeta mátt fjölmiðla.
Íþróttahreyfingin hefur lagt línur og sendir þau skilaboð að boltaíþróttir séu ríkisíþrótt. Þau börn sem ekki stunda boltaleiki, en halla sér að annars konar íþróttum, útivist eða listum eru jaðarbörn ef marka má fjármokstur til mannvirkja í þágu boltaleikja á landsvísu. Múgæsing hinna fullorðnu í boltaheimi barna er ein og sér merkileg mannfræðirannsókn.
Fjölmiðlar og villtir frumskógar netheima eru með öllu ábyrgðarlausir uppalendur barna og forsvarsmenn slíkra miðla skýla sér kátir á bak við valfrelsið og málfrelsið. Þar má allt og það án ábyrgðar. Heimilin eiga að passa börnin sín og við vitum öll að þar eru aðstæður afskaplega misjafnar og mismunandi.
En hvar mætast börnin á sameiginlegum grunni? Hvar er þeirra hlutlausi vettvangur, þeirra athvarf? Grunnskólinn er þessi griðastaður – stofnun sem aðeins kemst af krafti í samfélagsumræðuna þegar um er að ræða baráttuna um brauð kennaranna, sparnað í skólakerfinu og sveltandi sveitarfélög. Flutningur grunnskóla frá ríki til sveitar á sínum tíma minnti og minnir enn á tröllskessurnar sem köstuðu fjöregginu á milli sín.
Og þá er nú kannski komið að niðurstöðu úr þessum vangaveltum. Sem leikmaður og þátttakandi í mannlegu samfélagi kalla ég nú eftir metnaðarfullri samræðu um framtíð íslenska grunnskólakerfisins. Oft hefir heyrst á góðum stundum að stefna beri að því að landsmenn geti státað af bestu háskólum veraldar. Hverfum nú frá því heygarðshorni.
Ræðum frekar hvernig við getum byggt upp besta grunnskóla heims. Í þeirri grein væri gaman að vera heimsmethafi. Búum börnum okkar fjölbreytt fræðslusetur þar sem börn eru ekki samræmd heldur metin út frá þeim undraverðu verðleikum sem hver og ein lítil manneskja býr yfir og finnur aðeins í frjósömum jarðvegi.
Kristín Helga Gunnarsdóttir
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021