trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 03/09/2014

Fréttin sem bara flögraði hjá

Fréttaefnin eru víða, en einhver þarf að grípa þau á lofti til að úr verði fréttir. Eitt slíkt flögraði hjá nú um helgina. Í rauninni talsvert safarík frétt, en vegna þess að hún var hvergi tekin föstum tökum, flögraði hún bara inn um einn glugga og svo út um næsta.

Að kaupmenn hirði sjálfir arðinn af lækkun innkaupsverðs, en bæti öllum hækkunum samstundis á verðmiðana, er ekki stórfrétt í sjálfu sér. Þetta vita nefnilega allir. En þegar í ljós kemur að til eru mælingar á fyrirbrigðinu, verður þessi einfalda staðreynd samstundis að efni í safaríka stórfrétt. Til að matreiða hana þarf hins vegar að leggjast í dálitla rannsóknarblaðamennsku og það kostar vinnu. Og þar með peninga.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur skrifað tvær greinar:  Af verðbólgu og verðbólguvæntingum og „Dæmið rangt, niðurstaðan rétt“, sem báðar má lesa á Vísi. Sigurjón M. Egilsson ritstjóri skrifaði í millitíðinni leiðara undir síðarnefndu fyrirsögninni. Ég mæli með þessum pistlum öllum þrem.

Í sem stystu máli veltir Ásmundur fyrir sér hvers vegna spáð sé aukinni verðbólgu, þegar gengi krónunnar hafi styrkst umtalsvert án þess að vöruverð hafi lækkað (og veiti þar með svigrúm fyrir töluverðri gengislækkun án verðhækkana). Hann hringdi í greiningarfyrirtæki og spurði. Gefum honum orðið:

 Svar greiningarfyrirtækisins var sláandi: Ekki er gert ráð fyrir vöruverðslækkun í spám fyrirtækisins því reynsla undanfarinna ára og jafnvel áratuga hefur kennt mönnum að gera ekki ráð fyrir lækkun vöruverðs þegar gengi krónunnar styrkist. Veiking krónunnar skilar sér hins vegar undantekningarlaust og örfljótt inn í vöruverð á Íslandi samkvæmt sömu reynslu.

Sigurjón M. Egilsson, nýr ritstjóri Fréttablaðsins, hefur um árabil spurt erfiðra spurninga í útvarpsþætti sínum „Á Sprengisandi“. Hann spurði Margréti Kristmannsdóttur um niðurstöður Ásmundar. Hún sagði „býsn af staðreyndum vanta“ í reikningsdæmi hans og við skulum vitna í ofangreindan leiðara um svör hennar:

 Margrét nefndi erlendar verðhækkanir, launabreytingar og eitt og annað.

Sjálfur heyrði ég ekki þáttinn, en tek Sigurjón trúanlegan og geri ráð fyrir að þetta séu helstu mótbárurnar. Margrét er fyrrverandi formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Við getum þess vegna einfaldlega ekki tekið neitt mark á mótbárum hennar nema þeim fylgi rök. Við getum t.d. spurt: Hve miklar erlendar verðhækkanir? Hve miklar launabreytingar?

En aftur að meginatriðinu. Það er sem sagt skjalfest að þegar krónan lækkar, skilar það sér beint út í verðlag. En þegar krónan hækkar, lækkar ekki neitt. Vegna gamallar reynslu grunar mig að Ásmundur Friðriksson telji sér ekki fært að nafngreina manninn sem fullyrti þetta við hann í síma. Maður nafngreinir ekki heimildarmenn sem segja manni eitthvað í trúnaði.

En ég dreg ekki í efa að heimildarmaðurinn hafi skýrt satt og rétt frá. Og þar með eru upplýsingar hans efni í stórfrétt. Verð innfluttrar vöru eða þjónustu lækkar ekki (nema í undantekningartilvikum) þegar gengið hækkar, en gengislækkun skilar sér alltaf beint út verðlagið.

Og heimildarmaðurinn hefði ekki sagt þetta út í loftið. Tölurnar eru sem sagt til. Við höfum bara ekki fengið að sjá þær.

Ætli menn að fylgja verðsveiflum, verður það að gilda í báðar áttir. Þetta er ekki bara rannsóknarefni fyrir blaðamenn, heldur sjálft Alþingi. Og reyndar rifjar þetta upp ævagamlar minningar.

Lög um hámarksálagningu giltu nefnilega á Íslandi langt fram á síðari hluta 20. aldar. Væri enn dæmt eftir þeim lögum, væri kannski orðin til óþægilega stór nýlenda kaupmanna á ónefndum stað fyrir austan fjall.

Flokkun : Pistlar
1,253