trusted online casino malaysia
Björgvin Valur 20/08/2014

Forleikur að gosi

stfdalur

Þessi fjöll urðu til í eldgosi. Fjárhúsin til hægri á myndinni komu síðar.

Nú vofir yfir alveg svakalega stórt eldgos, segja margir, og nokkurn veginn öll þjóðin hefur haldið til á rífresstakkanum á tölvunum sínum og fengið í sífellu nýjustu punktana á jarðskjálftavef Veðurstofunnar eða uppfærðar „efþettageristhefurþaðþessarafleiðingar“ fréttir vefmiðlanna og eftir að vefmyndavélinni var komið fyrir við Bárðarbungu hefur enginn í þjóðfélaginu unnið ærlegt handtak.

Reyndar sé ég ekkert út úr þessari vefmyndavél og mér finnst ég alltaf vera að horfa á goproupptöku úr hjálminum hans Michael Schumacher eftir að hann klessti á tréð en það getur varla verið svo, því eftir því sem ég best veit þá eru engin tré á Vatnajökli.

En við bíðum með öndina í hálsinum eftir eldgosi og öll vonum við að það verði sem mest og stærst þótt við myndum  aldrei viðurkenna það, jafnvel þótt við hefðum á því hinn venjulega fyrirvara um að „á meðan enginn deyr“ er allt í lagi, því við viljum að sjálfsögðu sjá fljótin bólgna og brýr sópast burtu, Dettifoss sverfast niður og verða að flúðum og Ásbyrgi fyllast af drullu.  Dúndurgott sjónvarpsefni og landkynningin, maður minn lifandi.  Og fokk hvað þessir þyrluflugmenn eru góðir að fljúga svona rétt yfir flaumnum.

Sumir gæla meira að segja við þann möguleika að hlaupið eða skjálftarnir rústi Kárahnjúkastíflu eða skemmi hana að minnsta kosti verulega því það væru þá landvættirnir að hefna sín og við vissum alltaf að þeir myndu gera það, yrði þá sagt.  Dýrasta I told you so Íslandssögunnar ofan á dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar.  Hrun sem tekið yrði eftir.

Áður fyrr skullu eldgos á fyrirvaralaust og fólk vissi ekki hvaðan á það stóð heimsendirinn því fyrir marga var það svo sannarlega heimsendir og þá ekki heimsendir af skemmtilegri gerðinni; ekkert „hviss bamm búmm loftsteinn og allir dauðir“ heldur myrkur, drulla og langdreginn hungurdauði eða köfnun.  Vergangur, hungur, frost og dauði og þá voru ekki uppi hugmyndir um að redda öllu með óvinveittri yfirtöku á Noregi.  Hvað myndi þetta fólk segja við okkur sem höngum við tölvur og bíðum eftir kröftugu eldgosi okkur til afþreyingar?

Hverjum er ekki sama á meðan gosið verður jafn spennandi og forleikurinn sem nú stendur yfir.

Latest posts by Björgvin Valur (see all)
Flokkun : Pistlar
2,305