trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 16/05/2014

Flokksmálgagnið ver falsarann

Gömlu flokksblöðin eru dauð. Öll nema eitt. Morgunblaðið lifir enn, þrátt fyrir gjaldþrot. Og er orðið harðara flokksmálgagn en nokkru sinni fyrr.

Í morgun var því dreift ókeypis. Kannski var dagurinn sérstaklega valinn með tilliti til forsíðufréttarinnar um leynd heimildarmanna, sem sögð er lykilatriði. Ég er reyndar hjartanlega sammála því. Fátt er frjálsri fjölmiðlun mikilvægara en heimild og skylda blaðamanna til að vernda heimildarmenn sína.

Á forsíðu Moggans er sem sagt áberandi frétt og tilvísun í einhvers konar fréttaskýringu inni í miðju blaði. Á báðum stöðum er vísað til lekamálsins í innanríkisráðuneytinu og lesandanum virðist ætlað að gleypa það hrátt, að sá sem lak heyri undir hugtakið „heimildarmaður“.

Það er einfaldlega rangt. Og það er jafnframt meginatriði málsins. Til þess að geta kallast heimildarmaður hefði viðkomandi nefnilega þurft að afhenda minnisblaðið óbreytt. Það gerði hann ekki. Hann falsaði skjalið með því að hnýta aftan við það óhróðri um hælisleitandann.

Blaðamenn eiga að vernda heimildarmenn. Blaðamaður með óbilandi siðferðisvitund fer fremur í fangelsi en að ljósta upp um heimildarmann. En blaðamaður með óbrenglaða siðferðisvitund heldur ekki hlífiskildi yfir skjalafalsara, sem hefur misnotað sér traust hans til að sparka í liggjandi mann. Slíka misnotkun á að tilkynna án tafar.

Innanríkisráðuneytið tilheyrir Sjálfstæðisflokknum og maður þarf því ekki að undrast, að Flokksmálgagnið beiti bæði klóm og kjafti til varnar sínu fólki. Hitt er meira áhyggjuefni að blaðamaður, fréttastjóri eða hreinlega ritstjóri Fréttablaðsins skuli ekki stíga fram. Líklegast eru íslenskir fjölmiðlar hreint ekki eins frjálsir og af er látið.

Og hvað á maður eiginlega að segja um Blaðamannafélag Íslands? Á heimasíðu þess er stjórnarsamþykkt sett fram í nafni félagsins í heild. Og í þeirri samþykkt er sömuleiðis gengið út frá því sem sjálfgefnu, að engu breyti þótt svokallaður heimildarmaður reynist hafa falsað gögnin sem hann lak. Það atriði er ekki einu sinni nefnt.

Ég var sjálfur í þessu félagi á blaðamennskuárum mínum og í samninganefnd þess í verkfallshaustið 1984. Þá var félagið undir járnhæl Morgunblaðins og vesældarlegra stéttarfélagi fannst mér ég ekki hafa áður kynnst. Til gamans fletti ég upp á tímarit.is lítilli frétt (hér) af því, þegar ég lagði „mútugreiðsluna“ mína í verkfallssjóð bókagerðarmanna. Eftir það tók ég ekki framar neinn þátt í starfi þessa félags.

En síðan eru liðin 30 ár og ég hélt satt að segja að sitthvað hefði breyst.

__________________________________

PS: Ég bið lesendur afsökunar á þeim mistökum að hafa vísað á 1. tölublað NT. Ég hélt mig vísa á fréttina sjálfa. En nú á þetta að virka – og ef ekki þá er staðsetningin þessi: timarit.is – NT, 1984, 3. nóv. bls. 20.

Flokkun : Pistlar
1,451