trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 31/01/2015

Fjölskyldudrama(ten) í Svíþjóð

Ingi FreyrEftir Inga Frey Vilhjálmsson

Í dag rættist langþráður draumur minn. Við hjónin ákváðum loksins – loksins, eftir umtalsverðar bollalengingar, þref og karp, ítrekaða hurðaskelli og vandræðalegar rifrildaþagnir, að festa kaup á annarri „dramaten“. 

Hvað er dramaten eiginlega gæti einhver Íslendingur skiljanlega spurt? Jú, „dramaten“ er svona handdregin kerra á tveimur hjólum sem Íslendingar kannast sjálfsagt við að hafa séð einhvern tímann á götu í heitu löndunum í Suður-Evrópu; kerra sem yfirleitt er notuð af gangandi vegfaranda til að flytja björg í bú eða færa hlut(i) frá A til B. „Dramaten“ er nokkurn veginn það fyrir Íslendingum sem brauðrétturinn er fyrir Svíum: Hlutur sem er ekki til í landinu.

„Dramaten“ er hins vegar nánast staðalbúnaður á flestum heimilum í sænsku sósíalútópíunni, eins og einkabíllinn er á Íslandi.

Einn daginn kom hún Sigrún mín heim úr búðinni með eina slíka kerru og ég spurði hana hvað hún hefði nú eiginlega verið að kaupa. Þetta er „dramaten“ útskýrði Sigrún fyrir mér og sagði kerruna henta vel til matarinnkaupa þar sem við ættum ekki bíl og að nokkur spölur væri í næstu verslun. Hún útskýrði líka fyrir mér augljósa merkingu orðsins „dramaten“ – „dra“= að draga; „maten“=matinn. 

Eftir fyrstu kynni mín af „dramaten“ hafði ég lítinn áhuga á að nota kerruræksnið. Mér fannst hún heldur kveifarleg og ég ímyndaði mér að ég yrði lítill í mér ef ég myndi nota hana. Ég vildi frekar halda á innkaupapokanum úr sænska Glæsibænum – Solna Centrum – þar sem við gerum yfirleitt matarinnkaupin okkar og sækjum alla okkur þjónustu, líkt og sönnu úthverfafólki sæmir, en að hökta um dragandi innkaupakerru á eftir mér. Þó ég sé kominn með grá hár í rytjulega skeggið mitt og ískyggilega löng eyrnahár þá er ég ekki ennþá orðinn áttræður. Dramaten er hlutur sem maður notar kannski – kannski – á hinsta degi, þegar fokið er í flest skjól og maður hefur gefist upp. Örlög mín voru grimm.

En svo gerðist eitthvað inni í mér. Eitthvað gaf sig. Ég fór að taka „dramaten“ með mér í innkaupaferðir í Glæsibæinn okkar. Fyrst hélt ég á honum í klasann og ég reyndi að láta sem minnst á honum bera, líkt og ég hefði eitthvað að fela og skýldi honum jafnvel með jakkanum mínum þegar ég mætti öðrum vegfarendum, þar til ég fyllti hann af matvöru og dró hann skömmustulega á eftir mér heim. Aðrir máttu nota „dramaten“ mín vegna en ég ætlaði ekki að gera það. 

Með tíð og tíma tók ég „dramaten“ þó á endanum í sátt því hann léttir okkur sannarlega lífið. Þegar maður býr í Solna gerir maður það sem Solnabúar gera. Fljótlega eftir að ég sá ljósið í „dramaten“ byrjaði ég hins vegar að reyna að sannfæra Sigrúnu mína að jafnvel væri sniðugt að kaupa aðra innkaupakerru. Slík voru umskipti mín í garð þessarar nýju uppfinningar. Gott væri að geta farið með tvær kerrur í búðina til að gera stórinnkaup og þar með létta sér enn frekar lífið í bílleysinu.

Um þetta höfum við hjónakornin deilt um mánaðaskeið en svo loks í dag vorum við í Solna Centrum og roguðumst um með fjölmarga innkaupapoka fyrir barnafmæli helgarinar. Þá varð það loks úr að Sigrún lét undan nauði mínu og sættist á kaupa aðra „dramaten“. 

Þar sem ég stóð í klasanum með tvær fullar „dramaten“ leið mér eins og ég væri næstum því vopnaður: Mér fannst ég hafa náð ákveðinni fulkomnun í fylgihlutum. Já, ég var stoltur. Ég lít á þessi kaup sem mikilvægan lið í aðlögun okkar hjóna í sænskt samfélag þó svo að hinn almenni Svíi sé líklega of hófsamur – lagom – til að láta sér detta í hug að vera með tvær slíkar kerrur á almannafæri. Við hjónin höfum hins vegar bestað Dramaten því ekki er hægt að draga fleiri en tvær í einu.

Í strætónum á leiðinni heima fann ég svo fyrir því hvernig nokkrir af farþegunum, aðallega konur á áttræðisaldri, horfðu á kerrurnar mínar löngunar- og öfundaraugum þar sem ég bograði og bisaði með þær inn ganginn. Ég var orðinn maður með mönnum; Ég var með tvær „dramaten“ í eftirdragi – svoleiðis hefur sennilega ekki áður sést í Sverige.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, facebook, 31. janúar, 2015

1,396