trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 21/01/2019

Fínir pappírar og ófínir

Guðspjall: Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ (Lúk 19.1-7)

illgresiNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég var unglingur komst ég yfir bók sem hafði mikil áhrif á mig og hefur fylgt mér æ síðan. Ég blaða ennþá í henni öðru hverju mér til ánægju og uppörvunar. Það er eins og hún minni mig alltaf á ákveðinn sannleikskjarna og stappi í mig stálinu, auk þess sem hún sýnir mér ljóslifandi á mátt tungunnar og endurnýjar þannig aðdáun mína á þeim sem geta beitt henni af snilld. Kannski var þetta bókin sem einna helst varð til þess að ég sjálfur tók að spreyta mig á því að reyna að yrkja.

Þetta er nefnilega ljóðabók. Hún heitir Illgresi og er eftir Örn Arnarson. Sú staðreynd að Örn er þjóðskáld Hafnfirðinga hefur lítið með aðdáun mína á þessari bók að gera, þótt það spilli auðvitað ekki fyrir.

Vissulega sé ég núna að sum viðhorfa Arnar, einkum þau sem birtast í ýmsum kersknis- og gamanvísum hans, eru löðrandi í úreltri feðraveldishugsun og jafnvel kvenfyrirlitningu. En kjarni máls hans – sem er samkennd með lítilmagnanum og megn óbeit á arðráni og afætum – lætur ekki á sjá þótt tímar líði og viðhorf breytist. Og það besta í kveðskap Arnar er þess eðlis að enn fæ ég gæsahúð þegar ég les það, ölllum þessum árum eftir mín fyrstu kynni af því.

Ljóðið sem mér er einna hugleiknast um þessar mundir heitir Legg í lófa. Þar er dregin upp átakanleg mynd af öldruðum betlara og góðborgurunum sem ganga hjá án þess að virða hann viðlits.

Ljóðið er svona:

Herðalotinn, hæruskotinn

húkir undir vegg,

starir blindum bænaraugum

blæs í úfið skegg,

terrir ellitærða hendi

töturdúðum frá:

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Ör af kæti, fim á fæti

flýtir æskan sér,

ætlar að grípa geislabrot,

sem glampa þar og hér.

Ellin hrum og yndissnauð

er aðeins sinustrá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Tízkulóa og tildurrófa

tifa um borgarstig.

Skraut-Oddi og Glæsi-Gísl

í gluggum spegla sig.

Aldrei munu örðug lífskjör

af þeim skartið má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Bumbufeitur, búlduleitur

burgeis stígur gleitt.

Hann á skip og skrautbygging

og skuldar engum neitt.

Aldrei verður hann einstæðingur,

auðnumaðurinn sá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá,

að þeir gefa manna minnst,

sem mikið berast á.

Fátækur af fátækt sinni

fórnar því sem má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Manna minnst

Einhverjum fjörutíu árum eftir að ég las þessi orð fyrst spruttu þau upp í huga minn til að lýsa minni eigin reynslu í prestsembætti af því að taka við samskotum og ýmissi aðstoð til handa bágstöddum. Hér frammi við kirkjudyr eru söfnunarbaukar þar sem hverri krónu er varið til að aðstoða þá sem hingað leita að hjálp í neyð. Í þessa bauka hef ég með eigin augum séð margan eyri ekkjunnar látinn. Börn tæma vasana af mynt og setja í baukana. Aðrir láta eitthvað smáræði sem þeir eru með á sér af hendi rakna. Í þessa bauka fara aldrei fúlgur í heilu lagi. Það eru ekki auðkýfingar, ekki þeir sem eiga „skip og skrautbygging“ sem fylla þá. Það eru ekki fínu pappírarnir í þjóðfélaginu sem það gera, ekki þeir sem hafa besta lánshæfismatið hjá bankastofnunum okkar. Og það eru ekki heldur þeir sem þurfa á því að halda sem í þá fer.

Kannski veltur samkenndin á því að hafa reynslu af eða að minnsta kosti einhvern skilning á því hvernig það er að vera í þeirri stöðu að þurfa góðvild annarra til að komast af. Kannski sviptir það mann mjög mikilvægum hluta hins mannlega hlutskiptis að fæðast með silfurskeið í munninum og þurfa aldrei að hafa hinar minnstu áhyggjur af afkomu sinni eða því hvort til sé peningur fyrir kvöldmat, að hafa aldrei verið í þeirri aðstöðu að hafa þurft að neita sér um eitthvað vegna peningaleysis. Kannski er það þannig að náungakærleikur þeirra, sem eru svo ógæfusamir að fæðast til slíkra allsnægta, fær aldrei neina næringu, aldrei tækifæri til að vaxa og þroskast og blómstra. Kannski skrapar ofgnóttin og hið fullkomna afkomuöryggi úr okkur dýrmætasta og göfugasta hluta mennsku okkar.

Alla vega hefur það ekki breyst síðan Örn Arnarson orti Legg í lófa að „þeir gefa manna minnst sem mikið berast á.“

Fínu pappírarnir

Hverjir eru fínu og pappírarnir í þjóðfélaginu?

Hverjir eru þeir „ófínu“?

Þetta hefur breyst á undanförnum áratugum. Einhvern tímann hefði það þótt fínt að vera prestur, en í seinni tíð heyri ég oft talað um presta – að minnsta kosti í sumum kreðsum – eins og orðið sé samheiti yfir „hræsnari“. Þegar ég var lítill þótti mjög fínt að vera lögfræðingur, en lögfræðingar eru samt eins og allir vita ekki yfir það hafnir að fremja hræðilega glæpi og oft heyri ég talað um lögfræðinga eins og þeir séu allir fégráðugar blóðsugur. Sem þeir eru auðvitað ekki – frekar en nokkur önnur stétt manna. Um stjórnmálamenn þarf ekki að fjölyrða, en fáir held ég að verði fyrir öðru eins hatri í athugasemdakerfum. Vegna þess að einhverjir þeirra hafa brugðist trausti okkar er talað um þá alla eins og það sé sami sitjandinn undir þeim öllum, svo það sé orðað penar en gert er á netinu. En svo fer það líka eftir því hvar í flokki þeir standa og hvaða flokk sá sem talar styður.

Þegar ég var lítill var líka stundum talað um það sem hræðileg örlög að enda í öskunni. Í dag verð ég ekki var við annað en að nokkuð almenn virðing sé borin fyrir dugnaði sorphirðufólks og að störf þeirra séu býsna mikils metin í þjóðfélaginu.

Tímarnir breytast.

Að minnsta kosti er erfitt að benda á einhverja óumdeilda stétt manna sem nýtur óskoraðrar virðingar.

Þannig var því ekki farið á dögum Jesú.

Tollheimtumenn og farísear

Fínu pappírarnir í þjóðfélaginu voru farísearnir, svona ef æðstuprestar og aðall eru undanskildir. Þetta verður að hafa í huga þegar ummæli Jesú Krists um farísea eru túlkuð. Hann var ekki að atyrða einhverja annálaða drullusokka. Allt almennilegt fólk hefur sopið hveljur yfir því að þessi ófágaði, galíleíski smiður skyldi leyfa sér að úthúða þessum blessuðu fyrirmyndarborgurum með svona ósvífnum hætti.

Og það var líka alveg kristaltært hverjir „ófínu“ pappírarnir voru, því venjulegt fólk verður jú að hafa einhvern fyrir neðan sig til að finnast það sjálft ekki vera á botni samfélagsins. Það voru tollheimtumenn. Og guðspjall dagsins segir einmitt sögu af samskiptum Jesú við einn slíkan.

Og Jesús segir að „honum beri“ að vera í húsi hans. Ekki að hann ætli að setjast upp á hann eða hvort hann megi koma í mat. Nei. Honum „ber“ að vera í húsi hins forsmáða og fyrirlitna.

Og Sakkeus gleðst við á meðan „almennilegt fólk“ fussar auðvitað og sveiar.

Þessi umturnun á virðingarstiga samfélagsins, þessi lítilsvirðing við broddborgarana, eða öllu heldur við hinn veraldlega mælikvarða á virðingu og sæmd, ásamt valdeflingu og mannlegri reisn hinna, sem minnst mega sín, er í mínum huga kjarni kristindómsins.

Reyndar er ekki alls kostar rétt að Jesús hvolfi virðingarstiganum. Nær væri að segja að hann taki hann og höggvi hann í spón.

Þessi boðskapur á sama erindi við okkur í dag og hann átti við samfélagið fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir tvöþúsund árum.

Grillurnar okkar

Það er sama hvað við viljum gera okkur miklar grillur um Ísland sem „stéttlaust samfélag“. Það gildir einu hvað það lætur okkur líða vel með okkur sjálf að ímynda okkur að svo sé í einhverri siðferðilegri sjálfsefjun. Slíkar hugmyndir standast enga skoðun ef við höfum hugrekki til að opna augun og sjá heiminn eins og hann er. Eða skyldu margir hér inni vera að spá í að kaupa sér eins og einn banka næst þegar einn slíkur verður auglýstur til sölu? Skyldu mörg ykkar vera að spá í að fórna einni lystisnekkjunni í Karíbahafinu til að eiga fyrir útborguninni? Ég efast um að svo sé. Og jafnvel þótt svo væri er ég nánast viss um að mun fleiri eru að glíma við þann vanda að lifa mannsæmandi lífi í Reykjavík jafnframt því að geta staðið straum af kostnaðinum við það að hafa þak yfir höfuðið.

Fólk er fyrir ofan okkur og fólk er fyrir neðan okkur, í tekjum og í virðingarstiga safmélagsins – sem illu heilli virðist yfirleitt fara saman.

Þessu hendir Jesús út í hafsauga.

Mælikvarði mannvirðinganna

„Sýndu mér hver þú ert,“ segir hann, „ekki hvað þú átt. Ekki segja mér hvað þú ert álitinn vera, sýndu mér hvað þú hefur til brunns að bera – milliliðalaust. Ekki tíunda orðstír þinn og afrekaskrá, ekki sýna mér orður eða lesa fyrir mig lofrullur um þig. Sýndu mér hvað þú gafst. Sýndu mér hverjum þú hjálpaðir. Því í því er mennska þín fólgin, í kærleikanum sem þú sýnir.“

Ef þetta væri mælikvarðinn á virðingu og sæmd, ekki stétt eða staða, auður, útlit, menntun eða mannvirðingar, heldur hitt … hvernig þú kemur fram við þá sem sárast þurfa á því að halda að vera auðsýndur náungakærleikur í verki … þá væri heimurinn betri staður – fyrir okkur öll.

Því hvað er hræðilegra en að fara í gegn um heila mannsævi án þess að upplifa það nokkru sinni að hafa orðið annarri manneskju, sem þurfti á því að halda, að liði með kærleiksverki? Sá sem á slíkt líf að baki deyr í andlegri örbirgð.

Frá slíku hlutskipti vill Jesús frelsa okkur öll.

Það er erindið sem hann á við okkur enn þann dag í dag.

Og það er réttnefnt „fagnaðar-erindi“.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. janúar 2019

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,273