trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 30/06/2014

Fáein spor í sandi tímans. Eftirmæli um dr. Sigurbjörn Einarsson

Eftir Sigurð A. Magnússon

(Mynd: Gunnar Salvarsson)

(Mynd: Gunnar Salvarsson)

Sigurbjörn Einarsson biskup var, ásamt séra Friðrik Friðrikssyni stofnanda KFUM&K, tvímælalaust virtasti og dáðasti trúarleiðtogi Íslendinga á liðinni öld, og má raunar jafna honum við þá andans jöfra sem hæst ber í sögu landsmanna frá öndverðu, Gissur hvíta, Ísleif Gissurarson, Ara fróða, Sæmund fróða, Þorlák helga, Guðmund góða, Guðbrand Þorláksson, Arngrím lærða, Hallgrím Pétursson, Brynjólf Sveinsson, Jón Vídalín, Jón Steingrímsson, Stefán Ólafsson, Jón Þorláksson á Bægisá, Valdimar Briem og Matthías Jochumsson. Hann var ekki einasta orðlagður völundur tungunnar og frábær prédikari, heldur átti hann verulegan þátt í að opna íslensku kirkjuna fyrir alþjóðlegum áhrifum, endurnýja messuformið, beita sér fyrir endurreisn Skálholtsstaðar og byggingu Hallgrímskirkju, koma á fót Hjálparstofnun kirkjunnar og Flughjálp, stuðla að endurskoðun Sálmabókar og Nýja testamentis, og ýmislegt fleira fréttnæmt mætti nefna.

Því fór samt fjarri að árangurinn, sem Sigurbjörn náði á löngum starfsferli, kæmi fyrirhafnarlaust. Hann var frá upphafi og frammað biskupskjöri umdeildur maður á marga lund, en síðan var einsog biskupsdómurinn færði honum bæði aukið kennivald, almenna virðingu og velþeginn frið til nytsamlegra starfa í þágu íslenskrar kristni. Í þessu greinarkorni er sjónum beint að þáttum í lífi hans sem eru almennum lesendum síður kunnir en alþekkt þjónustu- og prédikunarstörfin. Þeir fylla útí myndina af þessum fjölhæfa og margbrotna einstaklingi sem skildi eftir sig spor hvar sem hann steig niður fæti.

Sundurlyndi í guðfræðideild

Þegar ég settist í guðfræðideild haustið 1948 hafði Sigurbjörn verið þar dósent síðan 1944 (hann varð prófessor 1949). Aðrir kennarar voru þeir Ásmundur Guðmundsson, Magnús Jónsson, Björn Magnússon og Magnús Már Lárusson. Yfir deildinni hvíldi einhver skuggi, bæði vegna fámennis og togstreitu guðfræðinema, sem skipuðu sér í andstæðar fylkingar Kristilegs stúdentafélags og Bræðralags. Sigurbjörn var lítill áróðursmaður í þeim skilningi, að hverskyns undiróður var honum gersamlega framandi, en þar átti hann ofjarla meðal samkennara. Ásmundur Guðmundsson var í einlægni umhyggjusamur um nemendur sína, en honum stóð hreint ekki á sama um skoðanir þeirra og reyndi eftir mætti „að leiða þá á rétta braut“. Hafði hann fyrir venju að koma að máli við stúdenta jafnskjótt og þeir innrituðust í deildina og leiða þeim fyrir sjónir, að Bræðralag væri félagsskapur stúdenta sem sjálfsagt væri að allir ættu aðild að. Varð honum um sinn vel ágengt í þeirri viðleitni.

Bræðralag, félag frjálslyndra stúdenta og guðfræðinga, hafði verið stofnað veturinn 1944-45, og var Guðmundur Sveinsson meðal helstu forustumanna þess. Hér var um að ræða herkvaðningu: liði var fylkt til að styrkja stöðu aldamótaguðfræðinnar svonefndu. Ótvírætt var tilgangurinn sá að mynda mótvægi við Kristilegt stúdentafélag og gegn hugsanlegum áhrifum Sigurbjörns meðal stúdenta. Var unnið mjög ötullega að því að fá menn til að ganga í Bræðralag um leið og þeir komu í deildina. Þeir voru gripnir glóðvolgir og látnir finna, að eiginlega væri það sjálfsagður hlutur að ganga í félagið og sækja fundi þess – það væri í rauninni skylda. Gegn og velmetinn prestur sagði umbúðalaust á fundi í Bræðralagi, að Sigurbjörn Einarsson væri hættulegur maður. Hver var hættan? Sennilega sú að hann féll ekki alveg inní mynstrið. Það heilaga hugtak „ný guðfræði“ átti ekki við, ef um var að ræða að kynna eitthvað af þeim straumum sem runnið höfðu inní og um guðfræðina næstliðna áratugi.

Í Bræðralag gengu ýmsir stúdentar sem verið höfðu við nám undangengna vetur. Félagið lét allmikið til sín taka fyrstu árin, enda voru margir starfandi prestar þar innanborðs og hvöttu ákaft til viðnáms gegn hinum nýju erlendu straumum, sem nýskipaði dósentinn var í forsvari fyrir. Það hélt reglulega fundi á heimilum deildarkennara, annarra en Sigurbjörns, og ýmissa presta í Reykjavík og á heimili Sigurgeirs Sigurðssonar biskups í Gimli við Lækjargötu. Fyrir kom að Bræðralag og Kristilegt stúdentafélag boðuðu til sameiginlegra funda í Háskólanum eða öðrum skólum, og leiddu þá fulltrúar þeirra og aðrir námsmenn saman hesta sína. Urðu ósjaldan af því allharðar rimmur. Ekki eru nein áhöld um það, að Ásmundur Guðmundsson hafi verið lífið og sálin í Bræðralagi, andlegur leiðtogi félagsmanna og eindregnasti áróðursmaður aldamótaguðfræðinnar.

Á hinn bóginn var Sigurbirni fjarri skapi að virkja Kristilegt stúdentafélag til andófs eða ætlast til þess, að félagar þar skipuðu sér endilega kringum hann. Sjálfur var hann í því félagi, enda eini kristilegi stúdentafélagsskapurinn sem fyrir var þegar hann kom frá námi erlendis, og honum var eðlilegt að vera þar. Eiaðsíður átti hann samherja og dygga stuðningsmenn í deildinni frá fyrstu tíð, sem flestir voru reyndar í Kristilegu stúdentafélagi, en í þeim samtökum voru líka einhverjir sem litu hann hornauga, einsog síðar verður vikið að. Einn nemandi Sigurbjörns, sem gerði sig mjög handgenginn honum á tímabili, hefur sagt á prenti, að Sigurbjörn hafi verið mikill áróðursmaður í kennslu sinni, „í jákvæðri merkingu“ að vísu. Þetta var meint sem hrós, en meira en lítið vafasamt um háskólakennara. Að minnstakosti vildi Sigurbjörn ekki taka það til sín. Háskólakennari með heilum sönsum rekur ekki áróður í kennslu sinni. Hann ætlast til þess af sjálfum sér og honum er ætlað það af stofnuninni, sem hann starfar hjá, að taka viðfangsefni sín vísindalegum tökum og hjálpa nemendum til hlutlægra, fræðilegra viðhorfa og vinnubragða. Það þýðir ekki að hann eigi að vera ósnortinn sjálfur af því efni sem hann leitast við að brjóta til mergjar. Ópersónulegt hlutleysi í umfjöllun staðreynda á húmanísku fræðasviði, hvert sem það er, er hvorki æskilegt né mögulegt, ef um annað er að ræða en hirða spörð og safna þeim í sarpinn. Ef einhverjum finnst það vera áróður að leita kjarnans í kristinni tilverutúlkun á hlutlægan hátt, af þeirri virðingu fyrir viðfangsefninu sem er aðal allrar fræðilegrar umfjöllunar og skilyrði fyrir sæmilegu innsæi, þá bendir það til annars en fordómaleysis eða opinnar námfýsi.

Kristilega kærleiksblómin spretta

Segja má að Sigurbjörn hafi, alls óviljandi og án ásetnings, sundrað þrennum samtökum: Kristilegu stúdentafélagi, Bræðralagi og Samtökum játningatrúrra presta, þó hann væri einungis félagi í þeim fyrstnefndu. Hin tvö urðu að gjalda þess, að hann lagði þeim ekki lið. Á hinn bóginn stóð sundrungin í Kristilegu stúdentafélagi í sambandi við undirbúning norræns kristilegs stúdentamóts, sem afráðið hafði verið að halda hérlendis sumarið 1950 og var fyrsta mót sinnar tegundar sem Íslendingar höfðu veg og vanda af. Íslenski aðilinn að mótinu var Kristilegt stúdentafélag og hóf þegar síðsumars 1948 að undirbúa það með því að leita hófanna um fjárhagsstuðning og samstarf hjá KFUM og Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga. Þann 1sta október 1948 lýstu báðir þessir aðilar sig reiðubúna til viðræðna um málið, og þremur vikum síðar héldu félögin þrjú sameiginlegan stjórnarfund. Var þar gerð grein fyrir væntanlegum kostnaði við mótið og gengið frá óformlegu samkomulagi um undirbúning þess. Það var hinsvegar ekki fyrren á almennum fundi í Kristilegu stúdentafélagi 17da febrúar 1949, að samþykkt var að kjósa sérstaka undirbúningsnefnd og fara þess á leit við stjórnir KFUM og Kristniboðssambandsins, að þær tilnefndu fulltrúa í nefndina. Var stjórnum beggja félaga sent bréf daginn eftir og þeim skýrt frá samþykkt fundarins.

Frá Kristilegu stúdentafélagi voru kjörnir í nefndina Jónas Gíslason (formaður), Jóhann Hlíðar og Gunnar Sigurjónsson (ritari), en til vara Ástráður Sigursteindórsson og ég. Frá KFUM var kjörinn Knud Zimsen og Þórður Möller til vara, en frá Kristniboðssambandinu Bjarni Eyjólfsson formaður þess. Stúdentafélagið var því með hreinan meirihluta einsog eðlilegt mátti teljast. Á aðalfundi félagsins 29da október 1949 varð hinsvegar allmikill hvellur, þegar ég, annar varamaður í undirbúningsnefnd, lagði fram tillögu um að Sigurbjörn Einarsson yrði settur efst á lista íslenskra ræðumanna á mótinu. Af seytján félagsmönnum sem fundinn sátu greiddu níu atkvæði, sjö með tillögunni og tveir gegn henni, þeir Jónas Gíslason og Gunnar Sigurjónsson. Spunnust af þessu heitar umræður, og létu andmælendur í það skína að þeir mundu gera samþykktina um Sigurbjörn að tilefni til að segja sig úr nefndinni. Ástæður til afstöðu sinnar töldu þeir vera margar, en nefndu aðeins eina: stjórnmálaafskipti Sigurbjörns í sambandi við inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Sú röksemd var að sönnu nokkuð langsótt og raunar útí hött með hliðsjón af skýlausu ákvæði í lögum félagsins þess efnis, að það væri „algerlega ópólitískt og skiptir sér hvorki af pólitískum skoðunum meðlima sinna né annarra“. Hér var því ekki einasta um að ræða glórulaust ofstæki, heldur var beinlínis beitt ofbeldi til að ganga í berhögg við lög félagsins, einsog seinna kom á daginn.

Þegar hér var komið sögu á fundinum þótti sýnt að undirbúningsnefndin mundi klofna og mótið sennilega ekki verða haldið, ef Sigurbjörn yrði meðal boðaðra ræðumanna. Við svo búið féllst meirihluti fundarmanna á tillögu frá Þóri Kr. Þórðarsyni þess efnis, að beðið yrði með nánari ákvarðanir þartil á fundi í janúar, og mundi þá undirbúningsnefndin leggja fram sínar tillögur um málið. Var síðan kosin stjórn félagsins og Jónas Gíslason endurkjörinn formaður. Fyrirhugaður janúarfundur var haldinn fyrr en menn höfðu vænst eða þremur dögum síðar, 2an nóvember. Var þá komið bréf frá Bjarna Eyjólfssyni þarsem hann kunngerði úrsögn sína úr undirbúningsnefnd vegna samþykktar aðalfundar um Sigurbjörn. Hitnaði nú enn í kolunum þegar farið var að ræða kost og löst á Sigurbirni, og kom þar að Jónas Gíslason sagði af sér bæði formennsku og fundarstjórn, en var endurkjörinn fundarstjóri. Formennsku neitaði hann hinsvegar að takast á hendur aftur. Þegar allt virtist vera komið í óefni og klofningur óumflýjanlegur, bar Þorvarður Jón Júlíusson hagfræðingur , annar ötulasti formælandi Sigurbjörns, fram sáttatillögu þess efnis, að undirbúningsnefnd yrði að öllu leyti falið að annast undirbúning mótsins og val ræðumanna, og í annan stað yrði boðað til félagsfundar til að ræða grundvöll og stefnu félagsins. Þó sumir fundarmanna væru sáróánægðir með þessar málalyktir og hefðu við orð, að minnihluti félagsmanna hefði í reynd beitt meirihlutann ofbeldi, þá var tillaga Þorvarðar Jóns samþykkt og þarmeð tryggt að mótið yrði haldið.

Sigurbjörn var ekki beðinn um að tala á norræna kristilega stúdentamótinu, þó flestum kæmi ásamt um að hann væri glæstasti ræðuskörungur íslenskrar kristni. Sjálfur kom hann hvergi nærri þessum sviptingum. Andstæðingar hans báru við pólitískum ástæðum, sem vafalaust áttu sinn þátt í að móta afstöðu sumra, en hitt mun ekki síður hafa verið þungt á metunum, að hann var ekki talinn vera á hinni norsku heittrúarlínu Hallesbys, sem margir pólitísku ofstækismannanna aðhylltust. Er reyndar torvelt að gera sér grein fyrir hvor þungvægari var, trúarlega eða pólitíska einsýnin, þó Bjarni Eyjólfsson léti þess að vísu getið í bréfi, að andúð hans á Sigurbirni væri eldri en allir portfundir! Bjarni tók ekki sæti í undirbúningsnefndinni á nýjaleik, en tilnefndi Guðmund Óla Ólafsson í sinn stað. Íslenskir ræðumenn á mótinu voru þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Bjarni Jónsson og Ólafur Ólafsson kristniboði, og verður trauðla sagt að þeir hafi verið á Hallesby-línunni nema kannski Ólafur.

Deilurnar um Sigurbjörn höfðu margvísleg eftirköst, ekki síst í Kristilegu stúdentafélagi. Þann 25ta júlí 1950, degi áðuren norrræna mótið átti að hefjast, sendi séra Sigurður Pálsson í Hraungerði stjórn félagsins bréf og sagði meðal annars: „Eins og stjórn KSF er kunnugt gekk hún svo frá félaginu á fundi í nóv. s.l. að það er sundrað. Sá sami fundur samþykkti að halda skyldi annan fund fyrir stúdentamót til að útkljá þann ágreining sem orðið hafði til að leita lækninga á þeim meinum sem þar voru að verki. Þessa samþykkt hefur stjórnin haft að engu og ríkir á eigin spýtur i sundruðu félagi. Þannig hefir stjórn félags vors svift oss þeirri gleði og rænt oss þeim rétti að geta mætt á mótinu í hræsnislausri einingu.“ Á stjórnarfundi í Kristilegu stúdentafélagi 13da desember 1950 var bréf séra Sigurðar tekið fyrir, og taldi stjórnin ekki æskilegt að halda fundinn, sem samþykkt hafði verið að halda, úr því sem komið væri. Þorvarður Jón Júlíusson sendi stjórn Kristilegs stúdentafélags sömuleiðis bréf 2an október 1950 og kvað „knýjandi nauðsyn“ að halda umræddan fund, meðþví ýmislegt hefði komið fram á fundinum 2an nóvember um stefnuna, sem félaginu bæri að fylgja, og einn ráðamanna þess hefði lýst yfir því, að sumir fundarmanna ættu ekki heima í félaginu. Taldi Þorvarður Jón sjálfan sig vera merktan þeim hópi. Kvaðst hann ekki hafa tekið þátt í félagslífinu undanfarið þareð ekki hefði verið boðað til umrædds fundar og nefnd ummæli ekki tekin aftur. Lagði hann til að fundur um málið yrði haldinn ekki síðar en 30sta nóvember. Á aðalfundi 3ja október var bréf Þorvarðar Jóns og tillaga allmikið rædd og síðan borin undir atkvæði. Var hún felld með sex atkvæðum gegn þremur. Séra Magnús Runólfsson bar fram samhljóða tillögu þarsem gert var ráð fyrir sex mánaða fyrirvara, en hún var felld með sjö atkvæðum gegn fjórum.

Segja má að þessi aðalfundur væri undanfari hnignunar Kristilegs stúdentafélags sem stóð frammundir 1970. Nokkir félaganna, sem staðið höfðu í eldlínunni vegna Sigurbjörns, áttu ekki afturkvæmt í félagsskapinn. Með svipuðum hætti og lærisveinar Stalíns vöktu áhangendur Hallesbys yfir því, að árunni væri haldið hreinni!

Þjóðmálaskörungur

Afskipti Sigurbjörns af þjóðmálum voru bundin við tiltölulega stutt skeið á æviferli hans, en skildu eftir svo djúp spor í þjóðarsögunni, að ærin ástæða er til að gera þeim nokkur skil. Þegar öll kurl koma til grafar hafði kannski enginn einstaklingur jafnvíðtæk áhrif, bæði bein og óbein, á meðferð viðkvæmra og afdrifaríkra mála. Í viðtali fyrir tveimur áratugum hafði Jónas H. Haralz þetta við mig að segja um Sigurbjörn:

„Ég er viss um að hreyfingin sem hann hratt af stað hafði sín áhrif til góðs. Menn urðu varkárari en þeir hefðu annars verið. Kannski má segja að þróunin hafi verið allt önnur en hann og samherjar hans sáu fyrir, og því hafi allt þeirra umstang verið útí bláinn, en það var það náttúrlega alls ekki. Það var full ástæða til að hafa áhyggjur af þróuninni, og það sem sagt var og gert í þessum efnum hafði þau áhrif, að þeir sem réðu ferðinni höguðu sér öðruvísi en þeir hefðu ella gert.“

Sigurbjörn hafði fjölmargt rætt og ritað um þjóðmál þegar herstöðvamálið kom á dagskrá á árunum 1945-46, þannig að einörð framganga hans í því máli átti sér aðdraganda. Allt fráþví hann samdi grein sína „Við orf og altari“ sumarið 1939, og vísast miklu lengur, höfðu örlög lands og þjóðar verið honum hugarhaldin og urðu honum vitaskuld enn áleitnara umhugsunarefni eftir hernám landsins vorið 1940. Er ekki fjarri sanni, að uggur um framtíðarheill Íslendinga hljómi einsog djúpur undirtónn við ræður hans og ritgerðir um veraldleg efni allan fimmta áratug og raunar lengur. Hann vék að þessu efni í ræðu á íþrróttavellinum í Reykjavík 17da júní 1941, í grein í Samtíðinni í desember sama ár, í ræðu á kvöldvöku Stúdentafélags Reykjavíkur og Stúdentaráðs Háskólans í útvarpinu 8da apríl 1942, sem hann nefndi „Íslensk framtíð“, og tveimur greinum í Straumhvörfum í apríl og júni 1943. Straumhvörf var tímarit um þjóðfélags- og menningarmál sem kom út í níu heftum á árunum 1943-44. Að því stóð níu manna hópur sem Klemens Tryggvason hagfræðingur hafði hóað saman í því skyni að efna til marktækrar umræðu um mikilvæg málefni samtímans. Birti Sigurbjörn fimm greinar í ritinu.

Þegar frá er talin aðild hans að Félagi ungra jafnaðarmanna á menntaskólaárunum, má segja að seta hans í ritnefnd Straumhvarfa hafi verið fyrsta formlega þátttaka hans í þjóðmálahreyfingu, sem að vísu var mjög laus í reipunum. Stopul en eftirminnileg afskipti hans af þjóðmálum hljóta að hafa verið orsök þess, að hann var beðinn að vera ræðumaður á almennum borgarafundi, sem Stúdentaráð Háskólans og Stúdentafélag Reykjavíkur boðuðu til í Miðbæjarskólaportinu um herstöðvamálið 31sta mars 1946. Tildrög þess að fundurinn var haldinn í barnaskólaportinu voru þau, að fundarboðendur fengu hvergi inni, þó Jónas frá Hriflu hefði nokkrum dögum fyrr tryggt sér Gamla bíó til að reka áróður fyrir herstöðvum Bandaríkjamanna. Gamla bíó var í eigu Garðars Þorsteinssonar sem var einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Foringjar Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks höfðu reynt að fá stjórnir stúdentafélaganna, sem voru á þeirra snærum, til að hætta við fundinn, en þær aftekið það og ekki látið sitja við það eitt að að halda fundinn, sem á þriðja þúsund manns sóttu, heldur líka gefið út myndarlegt blað með ræðum fundarins undir heitinu Vér mótmælum allir! Fundinum stýrði Guðmundur Ásmundsson formaður Stúdentaráðs, en ræðumenn voru auk Sigurbjörns þeir dr. Jakob Sigurðsson formaður Stúdentafélags Reykjavíkur, dr. Sigurður Þórarinsson og fjórir fulltrúar pólitísku félaganna í Háskólanum, Jóhannes Elíasson, Jón P. Emils, Kristján Eiríksson og Runólfur Þórarinsson. Um það þarf ekki að fara í neinar grafgötur, að ræða Sigurbjörns, sem hann nefndi „Á krossgötum“, vakti langmesta athygli alls sem fram kom á fundinum, fór einsog sinueldur um samfélagið og varð undanfari mikilla tíðinda sem lesa má um í skopfærðri mynd í Atómstöðinni eftir Halldór Kiljan Laxness.

Sigurbjörn talaði af meira viti og sögulegri yfirsýn en heyrst hafði í þjóðmálaumræðu um langan aldur. Málflutningurinn var knúinn fram af sannfæringarþunga sem átti sér upptök í náinni og innlífri þekkingu á kjörum og hugarheimi þjóðarinnar á liðnum öldum. Orðfæri, líkingar og skilvísar skírskotanir til reynslu landsmanna gegnum aldirnar vour sóttar í auðugt djúpið þarsem þjóðsögur og þjóðarvitund höfðu kviknað og mótast og lifað sínu karga og margbrotna lífi í trássi við náttúrulögmál og ógnvæn ytri kjör. Skáldleg andagiftin léði þessum brýna boðskap vængi sem báru hann innfyrir vébönd allra flokka, og ekki örgrannt um að ýmsir foringjar hafi orðið uggandi um hag sinn og áhrifamátt meðal flokkshollra tilheyrenda og stuðningsmanna hins nýja spámanns.

Í kjölfar portfundarins, sem vakti athygli alþjóðar og heldur ólundarleg viðbrögð Vísis og Morgunblaðsins, komu ályktanir frá fjölmörgum samtökum námsmanna og launafólks þarsem herstöðvakröfum Bandaríkjastjórnar var eindregið mótmælt og skorað á hana að kveðja herafla sinn heim hið bráðasta. Á Alþingi var fjallað um málið 26tta apríl í umræðum sem útvarpað var. Þá flutti Ólafur Thors forsætisráðherra loks skýrslu um málið, sem þótti í meira lagi loðin. Á baráttudegi verkalýðsins 1sta maí flutti Sigurbjörn útvarpsræðu á vegum Alþýðusambandsins sem hann nefndi „Gerum Ísland ekki viljandi að víghreiðri“. Réðst hann þar harkalega gegn því sjónarmiði að hafa svonefndar varnir landsins að féþúfu.

Kosningar fóru í hönd og öllum flokkum var umhugað um að láta í það skína, að þeir væru andvígir herstöðvum á Íslandi. Á tveggja ára afmæli lýðveldisins lýsti forsætisráðherra yfir því, að það væri skýlaus vilji Íslendinga að hafa ekki herbækistöðvar í landi sínu á friðartímum. Við þessar aðstæður fengu róttækari öfl í Alþýðuflokknum byr í seglin, en í þeim armi voru þeir Jón Blöndal, Finnbogi Rútur Valdimarsson, Hannibal Valdimarssson og Gylfi Þ. Gíslason. Tekist var á um framboðið í Reykjavík og kosið milli þeirra Gylfa og Sigurjóns Á. Ólafssonar formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, og hafði sá síðarnefndi með naumindum betur. Þessu undu fylgismenn Gylfa illa og heimtuðu hann í öruggt sæti, en sjálfur var hann erlendis við fræðistörf.

Var nú tekið að leita hófanna hjá Sigurbirni um að fá hann í framboð, fyrst með hógværð, en síðan vaxandi þunga, ekki síst vegna þess að Framsóknarflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn báru líka í hann víurnar. Sjálfur hafði hann engan áhuga á beinum pólitískum afskiptum og neitaði lengivel að fara í framboð, en svo jókst þunginn og áhrifamenn í flokknum lögðu fast að honum, ekki síst Haraldur Guðmundsson sem sat yfir honum heila nótt. Átti það nokkurn þátt í lokaákvörðun Sigurbjörns um að taka sæti á framboðslista Alþýðuflokksins, að honum þótti eftir atvikum skárra að losna við látlausan þrýsting úr öðrum áttum, að því tilskildu að hann væri ekki þarmeð ánetjaður pólitíkinni. Átökunum um framboð hans lauk semsé með því, að vinir hans í Alþýðuflokknum komu til hans eftir stormasaman fund og tjáðu honum, að hann væri eini maðurinn sem sætt gæti stríðandi fylkingar í flokknum með því að taka sæti á listanum. Hann þverneitaði að setjast í öruggt sæti, einsog honum var boðið, en lét undan vinum sínum með tveimur skilyrðum: í fyrsta lagi, að hann yrði í vonlausu sæti; í öðru lagi, að Gylfi skipaði öruggt sæti. Með þessi skilaboð fóru þeir, og útá þau náðist listinn saman. Haraldur Guðmundsson bauðst til að fara í þriðja sæti listans, sem var baráttusætið, en Gylfi var í fyrsta og Sigurjón í öðru sæti. Sigurbjörn var í fjórða sæti og gerði það ennfremur að skilyrði, að hann þyrfti ekki að hafa sig í frammi í kosningabaráttunni, en samt endaði það með því, að hann varð að tala í útvarpið „í orðastað Alþýðuflokksins“ við almennar stjórnmálaumræður og hélt harðskeytta tölu gegn undanslætti í herstöðvamálinu.

Þegar Sigurbjörn hafði tekið sæti á lista Alþýðuflokksins, sendu sósíalistar Sölva Blöndal vin hans til að telja honum hughvarf. Sat hann lengi yfir honum, en hafði ekki erindi sem erfiði. Síðan kom hann aftur og kvaðst vera með skilaboð frá Brynjólfi Bjarnasyni, sem þá var menntamálaráðherra í nýsköpunarstjórninni, um að hann langaði til að hafa tal af honum. Örkuðu þeir vestrí bæ til fundar við Brynjólf sem las lengi yfir Sigurbirni og reyndi að leiða honum fyrir sjónir, að það væri hið versta verk að fara á lista fyrir Alþýðuflokkinn. Sigurbjörn fékk ekki með góðu móti skilið, að hvaða leyti það væri hermdarverk, og þá klykkti Brynjólfur út með þessum minnisverðu og margræðu orðum: „Það er bara verst fyrir þig sjálfan. Þú átt eftir að reka þig á það.“

Í kosningunum 30sta júní 1946 vann Alþýðuflokkurinn tvö þingsæti af Framsóknarflokknum, en samstarfsflokkar hans í nýsköpunarstjórninni héldu sínu fylgi nokkurnveginn óskertu. Munaði ekki nema 70 atkvæðum að Haraldur Guðmundsson kæmist að sem þriðji þingmaður flokksins í Reykjavík. Gylfi var aldrei í vafa um, að kosningasigurinn 1946 væri framar öðrum Sigurbirni og hans stefnumálum að þakka, enda glutraði flokkurinn niður báðum nýju þingsætunum í kosningunum 1949.

Eftir kosningarnar 1946 urðu þær raddir æ háværari sem heimtuðu tafarlausa brottför bandaríska hersins, en Bretar höfðu farið burt um vorið og afhent Íslendingum Reykjavíkurflugvöll. Þann 22an júlí var kvatt saman aukaþing til að ræða fyrirhugaða aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, og flutti þá Hannibal Valdimarsson tillögu um fyrirvaralausa brottför hersins sem felld var með 26 atkvæðum gegn 22. Síðan settist ríkisstjórnin að samningum við Bandaríkjastjórn sem lauk með hinum umdeilda Keflavíkursamningi, sem Alþingi samþykkti 5ta október, sama dag og Sigurjón Pétursson á Álafossi flutti stolin bein Jónasar Hallgrímssonar með leynd norðrí Öxnadal til að fá þau grafin þar.

Samningurinn var samþykktur með 32 atkvæðum gegn 19. Andvígir voru 10 þingmenn Sósíalistaflokks, 7 þingmenn Framsóknarflokks og 2 þingmenn Alþýðuflokks. Einn þingmaður Alþýðuflokks, Barði Guðmundssson, sat hjá, en hinir sex samþykktu. Með Kelfavíkusamningnum voru Bandaríkjamönnum heimiluð tímabundin afnot af vellinum til að sinna skyldum sínum vegna hernáms Þýskalands, einog það var orðað, en í reynd var einungis um að ræða fataskipti bandaríska heraflans, sem nú klæddist flíkum óbreyttra borgara!

Stofnað Þjóðvarnarfélag Íslendinga

Þeir menn í ýmsum flokkum, sem fremst höfðu farið í fylkingunni gegn afsali landsréttinda og erlendum herstöðvum, sáu sitt óvænna þegar kom frammá haust 1946 og Keflavíkursamningurinn var í sjónmáli. Stefndu þeir saman liði sínu og stofnuðu Þjóðvarnarfélag Íslendinga 30sta september og 1sta október. Í fyrstu stjórn þess voru kjörin Sigurbjörn Einarsson formaður, Aðalbjörg Sigurðardóttir, Bergur Jónsson sakadómari, Bolli Thoroddsen bæjarverkfræðingur, Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, dr. Jón Jóhannesson dósent og Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarkona. Daginn eftir félagsstofnunina kom fyrsta tölublað Þjóðvarnar fyrir almenningssjónir. Í ritnefnd voru Friðrik Á. Brekkan rithöfundur, Hákon Bjarnason, Magnús Finnbogason menntaskólakennari og Pálmi Hannesson rektor. Meðal þeirra sem skrifuðu í blaðið í öndverðu voru ýmsir úr ritsjtórn og félagsstjórn ásamt prófessorunum Ágústi H. Bjarnsyni og Einari Ól. Sveinssyni, dr. Matthíasi Jónassyni, Benedikt Tómassyni skólastjóra, dr. Jakob Sigurðssyni og Sigurði Magnússyni löggæslumanni. Blaðið kom út þrisvar í október 1946 og einusinni á nóvember 1947, en útgáfa þess lá niðri frammí ársbyrjun 1949, þegar það tók langan og snarpan fjörkipp. Þjóðvarnarfélagið starfaði ekki að ráði fyrsta veturinn, enda engin aðkallandi verkefni, og sama var reyndar að segja um veturinn 1947-48, en þá dvaldist Sigurbjörn langdvölum í Basel. En félagið var til, átti sín lög og sína stjórn og beið átekta.

Á lýðveldishátíð Hafnfirðinga 17da júní 1948 hélt Sigurbjörn, nýkominn heim frá Basel, máttuga brýningarræðu sem hann nefndi „Móti tæling og lygð“. Þar sagði hann meðal annars: „Það er vissulega margt uggvænlegt í samtíðinni. En eitt er ég hræddastur við, og það er – hræðslan. Hræðslan hefur valdið meiri óhöppum en vísvitandi hatur eða grimmd. Því féll þýska þjóðin í fang Hitlers, að hún hafði látið tryllast af ofboðshræðslu við bolsévika og Gyðinga. Hræðslan olli hermdarverkum galdraaldar.“

Einsog vænta mátti vakti ræðan talsverða athygli, enda kjarnyrt og auðug að sláandi samlíkingum og markvissum tilvitnunum í forna texta. En það var þjóðfrelsisræða Sigurbjörns í hátíðasal Háskólans á þrítugsafmæli fullveldisins 1sta desember 1948 sem verkaði einsog olía á falinn eld. Varð hún upphaf meiri hræringa í þjóðlífinu og tilefni fleiri mannfunda en dæmi voru til um langan aldur. Þegar hér var komið lá í loftinu, að gamla herstöðvamálið væri aftur á dagskrá, að vísu í breyttri mynd, en jafnviðsjárverðu formi og áður. Hinsvegar lágu ákaflega litlar upplýsingar fyrir um, hvað væri að gerast í raun. Vera má að undirtektir hefðu orðið með öðrum og stillilegri hætti, ef stjórnmálamennirnir hefðu haft vit á að kynna málið á opinskárri og málefnalegri hátt en gert var. Hefði það vísast orðið öllum til ávinnings. En þeir kusu fremur dylgjur og ofstopa. Var mikill æsingur í Ólafi Thors og Morgunblaðinu, sem sennilega var til vitnis um vonda samvisku.

Áhrif þjóðvarnarmanna náðu vitanlega töluvert inní raðir Sjálfstæðisflokksins. Forkólfum hans fannst þeir verða að berja þau áhrif niður með nógu miklum ofsa og látum. Brigsl um „landráðastarfsemi“ og „rússneskan áróður“ komu að vísu dálítið ankannalega út hjá mönnum sem rétt nýlega höfðu verið í stjórnarsamstarfi við sósíalista og vildu fyrir hvern mun halda því áfram, ef þeir síðarnefndu hefðu verið fáanlegir til þess. Lék varla á tveim tungum að Ólalfur Thors hafði hleypt „Moskvukommúnistum“ öllu lengra til áhrifa á þjóðlífið en Sigurbjörn hafði nokkurntíma gert. Í ræðunni 1sta desember, sem Sigurbjörn nefndi „Haldi hver vöku sinni“, brýndi hann Íslendinga til að hafa á sér andvara og hyggja að því, sem væri í uppsiglingu jafnt utan lands sem innan, bað þá minnast liðinna glappaskota og draga af þeim lærdóma. Ræðan vakti mikið fjaðrafok í málgögnum hermangsflokkanna þriggja, og mátti vart á milli sjá hvort herskárra var, Alþýðublaðið undir ritstjórn Stefáns Péturssonar eða Morgunblaðið undir ritstjórn þeirra Valtýs Stefánssonar og Sigurðar Bjarnasonar frá Vigur. Valtýr birti langan greinaflokk um þetta mikla hitamál og komst meðal annars svo að orði viku eftir fullveldisdaginn: „Lítt mun þeim [Þjóðviljamönnum] duga tíst hins smurða Moskvuagents, séra Sigurbjarnar Einarssonar, eftir að Guðsmaður sá hefir tilkynnt alþjóð manna þá skoðun sína, að vel mætti myrða annanhvorn [sic] Íslending, ef fyrir þær blóðsúthellingar fengist það hnoss, að íslenska þjóðin yrði Moskuvaldinu auðsveip. … Líklegt er, að hann telji sér það skylt úr því, sem komið er, að dunda við það fram eftir ævi, að leysa þá þraut, hvernig samræma megi kenningar, stefnu og starf Josefs Stalins við anda og kjarna kristindómsins.“

Í þessum dúr og á svipuðu plani var obbinn af þeim andmælum sem fram voru borin gegn boðskap Sigurbjörns á næstu vikum og mánuðum. Þar voru framarlega í flokki ritstjórar Alþýðublaðs, Morgunblaðs og Vísis ásamt Bjarna Benedkitssyni og ýmsum forkólfum Sjálfstæðisflokksins. Dagblaðið Tíminn fór meir með löndum. Þess gætti mjög í hinum ofstækisfulla og einstrengingslega málflutningi, hversu lakur var málstaðurinn og gagnsæjar hvatirnar sem gert höfðu hávaðann af hérlendum stjórnmálamönnum opinbera meinsærismenn. Allt sem Sigurbjörn hafði varað við átti eftir að magnast og margfaldast í glórulausu moldviðrinu sem upp var þyrlað kringum hógvær og heilráð varnaðarorð hans. Til að bera blak af honum í samstilltum árásum hermangsblaðanna auglýsti Stúdentafélag jafnaðarmanna fund með honum í Austurbæjarbíói 12ta desember, þarsem umræðuefni skyldi vera „Vopnavernd og öryggi“, en á síðustu stund var komið í veg fyrir að félagið fengi afnot af kvikmyndahúsinu. Fékk það þá inni í nýlegum fundarsal Mjólkurstöðvarinnar við Laugaveg. Þar talaði Sigurbjörn yfir rösklega 800 tilheyrendum af mælsku og baráttuglóð sem lengi var í minnum höfð.

Löng og rökföst ræða Sigurbjörns í Mjólkurstöðinni, þarsem hann sneiddi með nístandi kaldhæðni að flokksforingjum og flokksmálgögnum, varð undanfari rösklega þriggja mánaða látlausra fundarhalda um land allt, sem hófust þremur dögum síðar með því að meirihluti stúdenta við Háskóla Íslands lýsti yfir eindregnum stuðningi við sjónarmið hans. Strax uppúr áramótum efndi Stúdentafélag Reykjavíkur undir forsæti Kristjáns Eldjárns til umræðufundar um málið. Ræðumenn voru þeir Pálmi Hannesson, Gylfi Þ. Gíslason, Sigurbjörn Einarsson, Jónas H. Haralz og Guðmundur Thoroddsen prófessor. Báru þeir Pálmi, Gylfi og Kristján fram tillögu gegn fyrirhugaðri aðild Íslands að hernaðarbandalagi, sem var einróma samþykkt.

Á þessu skeiði tók Þjóðvarnarfélagið undir stjórn Sigurbjörns verulegan fjörkipp og efndi til funda bæði í Reykjavík og víða um land. Meðal ræðumanna voru Einar Ólafur Sveinsson, Lúðvík Kristjánsson, Aðalbjörg Sigurðardóttir, Sigríður Eiríksdóttir, Hákon Guðmundsson, Klemens Tryggvason, Sigurður Þórarinsson, Friðfinnur Ólafsson, Matthías Jónasson og Hallgrímur Jónasson. Meirihluti útvarpsráðs, Stefán Pétursson ritstjóri og alþingismennirnir Jóhann Hafstein og Sigurður Bjarnason frá Vigur, bannaði fréttastofu Ríkisútvarpsins að birta fregnir af fundum Þjóðvarnarfélagsins, þó fréttir af fundum Sjálfstæðisflokksins um sömu efni ættu þar greiðan aðgang. Var bannið rakið til stjórnvalda, sem var mjög í mun að þagga niður alla umræðu og víluðu ekki fyrir sér að beita sovéskum úrræðum þegar í harðbakka sló. Æskulýðsfélögin í Reykjavík efndu til fundar í Austurbæjarbíói í lok febrúar, og komust færri að en vildu. Hugðust fundarborðendur þá setja hátalara utaná húsið, en Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra bannaði það og bar við umferðartruflunum.

Samhliða fundarhöldunum var aftur farið að gefa út Þjóðvörn, og kom fyrsta blað út í lok janúar. Var ritnefnd nú orðin miklu fjölmennari en í öndverðu. Hana skipuðu Friðrik Á. Brekkan, Hallgrímur Jónasson, Klemens Tryggvason, Kristján Eldjárn, Jón Hjaltason, Jón Jóhannesson, Matthías Jónasson, Pálmi Hannesson, Sigríður Eiríksdóttir og Sigurbjörn Einarsson. Komu í þessari lotu út 39 tölublöð á 10 mánaða skeiði frammí lok nóvember. Klemens Tryggvason var nokkurskonar skrifstofustjori Þjóðvarnarfélagsins og dreifingarstjóri Þjóðvarnar. Félagsmenn voru úr öllum flokkum, en af taktískum ástæðum þótti ekki heppilegt að hafa sósíalista á oddinum, meðþví málgögn hernámsflokkanna hömruðu á því að þjóðvarnarmenn væru „nytsamir sakleysingjar“ og „verkfæri kommúnista“. Það var línan hjá öllum dagblöðunum nema Þjóðviljanum. Jónas Haralz var ekki í stjórn Þjóðvarnarfélagsins fyrren í maí 1949, þegar hann var kjörinn varaformaður. Afturámóti var hann sérlega hjálplegur við að skipuleggja fundi vítt og breitt um landið, hagnýtti sér til hins ýtrasta sambönd við flokksbræður á landsbyggðinni.

Á hinu mikla athafnaskeiði félagsins framanaf ári 1949 komu stjórn og fulltrúaráð saman reglulega, stundum daglega, í gömlu Íþöku sem Pálmi rektor léði félaginu til afnota. Meðal þeirra sem rituðu stefnumarkandi greinar í Þjóðvörn, mestmegnis nafnlaust, voru Finnbogi Rútur Valdimarsson og Valdimar Jóhannsson, síðar bókaútgefandi. Á aðalfundi Þjóðvarnarfélagsins 3ja maí 1949 var því breytt í landsmálafélag og kjörin ný stjórn. Hana skipuðu Sigurbjörn Einarsson formaður, Jónas H. Haralz varaformaður, Bergur Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur, Eiríkur Pálsson bæjarstjóri, Hallgrímur Jónasson, Klemens Tryggvason og Sigríður Eiríksdóttir, en í 20 manna fulltrúráð voru meðal annarra kjörnir Friðfinnur Ólafsson, dr. Jón Jóhannesson, dr. Kristján Eldjárn, Sigurvin Einarsson alþingismaður og Stefán Jónsson fréttamaður. Á þessu skeiði voru félagar 350-400 talsins og greiddu flestir árgjald. Þeir voru úr öllum þjóðfélagshópum, en menntamenn settu sterkan svip á starfsemina. Þjóðvörn kom út í 3-4.000 eintökum og dreifing aðallega byggð á lausasölu. Ríflega 500 manns fengu blaðið sent heim. Útbreiðsla þess var langmest í Reykjavík, en það var einnig sent útá land í talsverðum mæli.

Þegar umsvifin voru hvað mest kom Þjóðvarnarfélagið sér upp kerfisbundinni fjársöfnum með föstum mánaðargreiðslum. Einnig bárust því gjafir. Til dæmis færði Gunnlaugur Scheving listmálari þremur forustumönnum félagsins 500 krónur eftir fund sem þeir héldu í Hveragerði, og var mikið fé í þá daga. Þráttfyrir margvíslegan kostnað við útgáfustarfsemi og fundahöld átti félagið fé í sjóði þegar baráttunni lauk, og var það með samþykki Sigurbjörns látið ganga til Þjóðvarnarflokksins þegar hann var stofnaður 1953, en hann átti engan þátt í þeirri flokksstofnun.

Um miðjan mars var liðsoddum þríflokkanna stefnt utan að fornum sið Sturlungaaldar til að gera útum örlög Íslands bakvið luktar dyr. Þeir sem utanstefnunni hlíttu voru Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson og Eysteinn Jónsson. Viku eftir komu þeirra til Washington var sáttmáli Atlantshafsbandalagsins birtur, og þremur dögum síðar komu þeir aftur til Keflavíkur. Brá nú svo við að þeir fengu öflugan lögregluvörð sér til verndar á leiðinni til Reykjavíkur og vakti talsverða athygli, sem og það að næstu tvær vikur naut dómsmála- og utanríkisráðherra verndar tveggja lögregluþjóna dag og nótt.

Vestanhafs hafði Bjarni Benediktsson látið þess getið opinberlega, að engir nema kommúnistar væru andvígir aðild Íslands að fyrirhuguðu bandalagi, og höfðu þó um 70 félagssamtök af ýmsu tagi gert skýlausar samþykktir um málið, mótmælt málsmeðferð og yfirlýstri ætlun þríflokkanna og borið fram samhljóma kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Taugatitringur þríflokkanna fór dagvaxandi og náði hámarki miðvikudaginn 30sta mars, þegar flokksforingjarnir skoruðu á almenna borgara að fjölmenna á Austurvöll og tryggja Alþingi starfsfrið, en sú áskorun átti eftir að draga á eftir sér langan og örlagaríkan slóða, sem öllum er kunnur.

Framtil 30sta mars eyddu málgögn stjórnarflokkanna, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, tiltölulega litlu rúmi í umfjöllun um Þjóðvarnarfélagið og baráttu þess. Klemens Tryggvason taldi að flokksforingjarnir hefðu álitið heppilegast að láta málflutning þjóðvarnarmanna sem mest afskiptalausan þartil málið væri komið í höfn. Þeim hafi ekki verið um það gefið að flokksfólk, sem þeir vildu halda utanum, fengi þar nýjan óflokksbundinn baráttuvettvang. Af þeim sökum hafi stjórnarblöðin beint skeytum sínum að Sósíalistaflokknum og reynt að láta sem Þjóðvarnarfélagið væri ekki til. En eftirað innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið hafði verið samþykkt 30sta mars varð annað uppá teningnum. Þá bókstaflega sprungu flokksforingjarnir og málgögn þeirra og báru Þjóðvarnarfélagið og forkólfa þess öllum hugsanlegum vömmum og skömmum. Sýnir það kannski best hve bölvanlega þeim hafði verið við baráttu félagsins meðan verið var að þoka Íslandi til þátttöku í NATO. Ólafur Thors réðst til dæmis með offorsi í þingræðu að þeim Gylfa Þ. Gíslasyni, Einari Ólafi Sveinssyni, Klemens Tryggvasyni, Pálma Hannessyni og Sigurbirni Einarssyni og sakaði þá um að hafa espað til „ódæða“ í sambandi við afgreiðslu Alþingis á aðild Íslands að Atlantshafssáttmálanum og kvað heigulsskap einan hafa ráðið því, að þeir gerðust ekki enn berari að „fólslegu athæfi“. Þessum og öðrum aðdróttunum flokksforingjans vildu þeir félagar fá hnekkt með dómi, en Ólafur Thors naut þinghelgi og komst upp með svívirðilegan stráksskapinn.

Sigurbjörn var algerlega fráhverfur því að fara útí pólitík. Hann var sannfærður um, að gæti hann yfirleitt gert þjóð sinni eitthvert gagn, þá lægi það á öðru sviði en því pólitíska. Hann var ekki í nokkrum vafa um, að pólitísk afskipti mundu eyðileggja það sem hann hefði til brunns að bera, því honum var orðið ljóst um hvað pólitíkin snýst og hvað hún skilur eftir þegar upp er staðið. Formlegum afskiptum hans af þjóðmálum lauk með tveimur tölublöðum Þjóðvarnar, sem hann ritstýrði einn um út komu 4ða apríl 1950, á ársafmæli NATO, og 10nda maí 1951, á 11 ára afmæli breska hernámsins. Í seinna blaðinu birti hann greinina „Blekking afhjúpuð“ þarsem rakinn er aðdragandi hinnar nýju bandarísku hersetu.

Á hinum róstusömu árum 1946-50 urðu börn þeirra Sigurbjörns og Magneu Þorkelsdóttur vör við, að faðir þeirra hafði verið stimplaður kommúnisti. Það fengu þau stundum að heyra á götum úti og í skólanum. Það voru miklar glóðir í samfélaginu og ungviði bergmálaði foreldra sína og aðra fullorðna. Börnin þurftu að fá skýringar á þessu heima hjá sér, áttu erfitt með að trúa því, að þau ættu hættulegan og vondan föður. Samt var fjölskyldan seinnameir sammála um, að þessi óvitaframkoma hefði verið léttvæg í raun á móti allri þeirri vináttu og hlýhug frá vandalausum, sem heimilið naut fyrr og síðar.

———-

Höfundur er rithöfundur og hefur ritað ævisögu dr. Sigurbjörns Einarssonar

Dr. Sigurbjörn fæddist 30. júní 1911.

 

1,567