trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 17/05/2015

Eygló bítur frá sér

EyglóÞað eru markverð tíðindi, þegar tveir ráðherrar eru farnir að skiptast á illvígum skeytum í fjölmiðlum. Þótt Eygló Harðardóttir, talaði afar gætilega í viðtali við RÚV í gær, leyndi sér ekki að það er nokkuð þungt í henni.

Og það er ekki nema von. Yfirlýsing fjármálaráðuneytisins á föstudag, sem m.a. birtist í Kjarnanum, þess efnis að Eygló hefði dregið frumvarp um stofnstyrki til baka í lok apríl kemst mjög nálægt því, sem í raun og sannleika mætti kalla „ljótan pólitískan leik“ og með ólíkindum ef Bjarni Benediktsson hefur ímyndað sér að Eygló tæki slíkri niðurlæginu þegjandi.

Það hefur legið ljóst fyrir alveg frá því að þessi ríkisstjórn tók til starfa, hvað Eygló Harðardóttir ætlaði sér að gera í sínum hluta Velferðarráðuneytisins. Hún hefur kallað sig ráðherra húsnæðismála og tók strax stefnuna á frambúðarlausnir á húsnæðismarkaði. Leigufélög í almannaþágu eru meðal veigamestu úrbóta, sem hún vill beita sér fyrir.

Það hefur ekki farið mikið fyrir húsnæðismálaráðherranum opinberlega, en ástæðan virðist einfaldlega sú að Eygló hafi verið að vinna hlutina rétt. Hún skipaði starfshóp, sem vann vel og skilaði af sér í byrjun maí í fyrra. Sem sagt á svo sem 10 mánuðum. Það er bara nokkuð gott.

Miklir peningar í spilinu

En síðan virðist alveg ljóst að hún hafi mætt margvíslegu mótlæti. Sjálfstæðismenn eru nefnilega ekki hrifnir. Umfram allt vilja þeir bregða fæti fyrir þá hugmynd, að byggt verði leiguhúsnæði í almannaþágu að norrænni fyrirmynd.

Og þarna er talsvert lagt undir. Það er komin upp ný staða. Sjálfseignarstefnan beið skipbrot í hruninu og gróðafyrirtæki eru þegar búin að kaupa talsvert af íbúðum til að leigja út á okurverði. Eigendurnir sjá fyrir sér útþenslu og ljómandi góðan hagnað.

Nái leigufyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga, lífeyrissjóða eða húsnæðissamvinnufélög leigjenda sjálfra að festa rætur, verða íbúðirnar leigðar út á eðlilegu verði, sem sé kostnaðarverði að viðbættu lítils háttar viðhalds- og öryggisálagi. Þannig myndast alvöru samkeppni á leigumarkaði og slíka samkeppni kæra gróðafíklarnir sig ekkert um.

Þess vegna beitir Sjálfstæðisflokkurinn sér af hörku gegn húsnæðisfrumvörpum Eyglóar Harðardóttur og auðvitað einkum og sér í lagi frumvarpinu um stofnstyrki, sem einmitt á að auðvelda stofnun og rekstur leigufélaga í almannaþágu.

Hvers vegna telur Bjarni sig hafa svo sterka stöðu?

Þetta þarf ekki að koma á óvart. Hitt er áhugaverð spurning hvers vegna Bjarni Benediktsson telur sér óhætt að sýna svo augljósan valdhroka. Getur verið að hann meti stöðuna svo, að Eygló hafi ekki stuðning innan síns eigin flokks?

Og getur það hugsanlega verið rétt mat? Svarið er nefnilega ekki augljóst. Það hefur ekki farið mikið fyrir almennum þingmönnum Framsóknar og pólitískar grundvallarskoðanir margra þeirra, liggja alls ekki fyrir.

En það sem við höfum séð síðustu daga er augljóslega bara toppurinn á ísjakanum. Af grein Benedikts Sigurðarsonar í Kvennablaðinu má ráða að Eygló hafi þegar gert miklar tilslakanir gagnvart Sjálfstæðisflokknum, a.m.k. í þeim frumvörpum sem komin eru fram. Benedikt segir:

 Með vísan til þeirra fyrirheita sem fólust í samstarfi um mótun húsnæðisstefnu eru það mikil vonbrigði að sjá að sáralítið tillit virðist vera tekið til fyrirliggjandi tillagna „verkefnisstjórnar ráðherrans“

Vafalítið hefur Eygló staðið í stappi við sjálfstæðismenn alveg síðan í haust. Nú síðast hefur tveimur af alls fjórum húsnæðisfrumvörpum hennar verið haldið í gíslingu í fjármálaráðuneytinu í tvo mánuði undir yfirskini kostnaðarmats. Þau frumvörp sem hún fékk að leggja fram, telja sjálfstæðismenn sennilega fremur „meinlaus“. Orkubitarnir, sem Eygló sendi starfsfólki fjármálaráðuneytisins, voru auðvitað táknrænir, en virðast eftir á að hyggja hafa verið mun harðskeyttari yfirlýsing en maður áttaði sig á.

Ótti við kosningar

Þau bolabrögð að skila stofnstyrkjafrumvarpinu til Velferðarráðuneytisins og senda svo í kjölfarið bréf þess efnis að ef Eygló vilji fá það metið til kostnaðar, þurfi hún að byrja frá grunni, benda til þess að Bjarni Benediktsson telji sig hafa sterka yfirburðastöðu.

Líklega byggist sú skoðun ekki síst á því að almennir framsóknarþingmenn óttist fátt meira en nýjar kosningar. Þá blasir við að Framsóknarflokkurinn fái svipaða útreið og Samfylkingin síðast og missi meira en helminginn af þingliðinu.

Það er ekki nema mannlegt að einstakir þingmenn óttist um þingsæti sín og laun. Kannski gætu framsóknarmenn gripið þann kost að slíta þessu samstarfi og mynda nýja mið-vinstri-stjórn, án þess að boða til kosninga.

Það virðist þó ekki líklegt eins og sakir standa.

Eygló verður ekki svæfð í nefnd

En hvernig sem allt veltur, hef ég enga trú á því að Eygló Harðardóttir sætti sig við það hlutskipti að verða puntudúkka og sitja á ráðherrastóli til þess eins að flikka upp á kynjahlutföllin í ríkisstjórninni. Hún er í hópi tiltölulega fárra þingmanna, sem eru í þessu starfi af hugsjón, fremur en af persónulegri framagirni.

Verði hún endanlega sett út í horn án nokkurra möguleika til að þoka meginstefnumálum sínum áleiðis, liggur beint við að álykta að hún muni hreinlega segja af sér. Það yrði mikið kjaftshögg fyrir ríkisstjórnina því Eygló er að líkindum sá ráðherra sem nýtur mests trausts almennings.

Það getur orðið fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls, þótt héðan af sé líklegast að sú framvinda bíði að mestu til haustsins.

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,657