Ertu hrægammur?
Það er örugglega mjög erfitt að vera forsætisráðherra eða einhver annar ráðherra þessarar þjóðar. Eiginlega svo erfitt að það er næstum óskiljanlegt að nokkur manneskja með fullu viti sækist eftir því.
Sjáið t.d. eins og núna. Það skilur enginn hvað forsætisráðherrann segir. Hann segir að Íslandi gefist mikil tækifæri með hlýnandi loftslagi þegar ísinn í ystu höfum norðursins minnkar – hér getur orðið mjög lífvænlegt þó ýmis lönd sökkvi í sjó. Er það svo sem ekki rétt, hef ég ekki alltaf sagt það? spyr forsætisráðherrann í forundran.
Jú, hann, og líka guðfaðirinn, forsetinn, hafa mjög haldið því á lofti að staða okkar í heiminum gæti breyst og núna ekki bara af því að við erum hernaðarlega mikilvæg heldur líka vegna þess að við verðum lífvænlega mikilvæg. – Það er aldeilis ekki ónýtt.
Það þarf að setja orð forsætisráðherrans í samhengi. Auðvitað er það ekki honum að kenna að við, hin heimska þjóð, höfum ekki gert það fyrr.
Svo sagði forsætisráðherrann einu sinni að hægt væri að losa öll heimili landsins við fjárhagsáhyggjur. Hrægammarnir borga, sagði hann. Við, vitleysingarnir, áttuðum okkur ekkert á því að við sjálf erum hrægammarnir.
Við eigum að borga. Í einn stað með skattpeningum sem hefði mátt nota til að byggja nýjan Landspítala, hækka laun umönnunarstétta eða bara eitthvað sem hefði komið okkur öllum að notum og ekki síst þeim sem minnst hafa. Og svo í annan stað með séreignasparnaðinum sem okkur var einu sinni talin trú um að ætti að vera aukabónus á efri árum.
Við, hrægammarnir, sem skildum ekki að með því að ýta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum frá völdum værum við afneita öllu sem gott er í þessu þjóðfélagi. Við afneituðum kvótahöfum, þessu góða fólki sem færir okkur fiskinn. Við vildum vera hluti samfélagsins í kringum okkur, sjá von til þess að geta einhvern tímann aflétt gjaldeyrishöftum.
Við erum svo skyni skroppin að við skiljum ekki tækifærin í séreignasparnaðinum. Við skiljum ekki að 500 þúsund króna hámark (6% af launum) til að borga inn á lán er skerðing fyrir þá sem hafa yfir 700 þúsund í kaup á hverjum mánuði – eða skilur þú það? Þú hrægammur, getur þú ekki skilið að 500 þúsund af 1,5 milljónum er 3,3% af launum en ekki 6% eins og þú átt kost á – þess vegna, kæri hrægammur, er hér gengið á hlut hinna ríku, segir fjármálaráðherrann.
Svo spyr ég líka, kæri hrægammur, er það ekki alveg ljóst að að ef bónusar hjá bankastarfsmönnum mega ekki fara yfir 100% af launum þeirra þá eru þeir í höftum. Það eru nefnilega engar slíkar reglur í annarri atvinnustarfsemi.
Ekki hugsa um hvernig bankastarfsemi setti þessa þjóð á hausinn fyrir sex árum síðan. Ekki hugsa um að bónusgreiðslur í bönkum verða til þess að bankinn er í fyrirrúmi en ekki viðskiptavinurinn. Ekki hugsa til þess að bónusgreiðslur urðu til þess að bankastarfsmenn fengu dollaramerki í augun.
Hugsaðu til þess, kæri hrægammur, að ef þetta verður ekki leyft þá getur bara vel verið að fólkið sem vinnur í bönkunum leiti sér að vinnu í öðrum löndum, vegna þess að það er svo eftirsótt. Rétt eins og laun seðlabankastjóranna voru hækkuð hér um árið. Guð gæfi að þau hefðu ekki verið hækkuð og þeir hefðu farið eitthvað annað.
- Varist eftirlíkingar - 24/10/2016
- Land ríkra útgerðarmanna og fátækra barna - 07/09/2016
- Um lögreglufræðin og gagnrýni mína - 25/08/2016