trusted online casino malaysia
Indriði Þorláksson 29/10/2014

Er tónlistarfræðsla óþörf?

2010_0320_144042AAFyrir hálfri öld áttum við því láni að fagna að hafa að menntamálaráðherra, frjálslyndan hagfræðing, menningarlega sinnaðan. Hann lagði ásamt skoðanabræðrum sínum grundvöll að frjálslyndri efnahagsstefnu sem leysti þjóðina úr viðjum hafta áratuganna á undan. Framsýni hans var ekki bundin efnahagsmálum í þröngum skilningi því hann vissi að dafnandi þjóðlíf er ekki eingöngu það að eiga málungi matar.

Hann gekkst m.a. fyrir því að sett voru í landinu lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þau lög lögðu grunn að blómlegri tónlistarfræðslu um land allt og hafa verið rót tónlistarstarfs sem dafnað hefur hér á síðustu áratugum og birtist dag hvern í ótal myndum hvort sem er í popptónlist eða sígildri tónlist, fjölsóttum hljómlistarhátiðum unga fólksins, sinfóníuhljómsveit á heimsmælikvarða, óperuflutningi, samningu tónverka og framgöngu íslenskra söngvara og hljómsveita á erlendri grund svo eitthvað sé nefnt. Þetta auðgar mannlíf og menningu en hefur einnig mikið efnahagslegt gildi eins og sýnt hefur verið fram á.

Tónlistarfræðsla er ekki skylduverkefni ríkis eða sveitarfélag en hefur verið borin uppi af áhuga og eldmóði þeirra sem kunna að meta uppeldislegt, félagslegt og menningarlegt gildi tónlistar. Ráðamenn hjá ríki og sveitarfélögum voru oftlega sama sinnis og stuðluðu að vexti og viðgangi tónlistarfræðslunnar. Fyrir um hálfum öðrum áratug var illa undirbúin breyting gerð á tónlistarfræðslu þegar hún var að fullu flutt til sveitarfélaga. Þeim var fengið fjármagn til fræðslunnar en án þess að um leið væri kveðið á um skyldu þeirra og ábyrgð í þeim efnum. Síðan hefur hallað undan fæti og tónlistarfræðslan orðið hálf umkomulaus.

Mörg sveitarfélög hafa að vísu staðið sig vel og reka eigin tónlistarskóla með ágætum. Hið sama verður ekki sagt um atlæti við þá tónlistarskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum en þurfa að treysta á framlög úr sveitarsjóðum til að geta boðið tónlistarnemum sómasamlega þjónustu. Eins og verða vill þegar sýtingsamir ráðamenn láta stjórnast af skammtímahagsmunum hafa viðkomandi sveitarfélög og Samband ísl. sveitarfélaga nýtt sér veika stöðu skólanna og forsvarsleysi þeirra og þrengt hefur verið að þeim. Þessari atlögu að tónlistarfræðslu er nú fylgt eftir í kjarasamningum við tónlistarkennara.

Þeim sem fara með almannavald við gerð kjarasamninga við opinbera starfsmenn ber skylda til að gæta eftir megni innbyrðis samræmis milli starfsmanna en láta ekki þá sem af einhverjum ástæðum kunna að hafa veika samningsstöðu gjalda þess. Sveitarfélög landsins og ríkið hafa nýlega samið við kennara við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þessir samningar hafa árum saman verið viðmiðun fyrir tónlistarkennara enda viðfangsefni sambærileg og menntunarkröfur svipaðar.

Samninganefnd sveitarfélaganna hefur í yfirstandandi 11 mánuða samningalotu ekki verið til viðræðu um breytingar til að samræma launakjör tónlistarkennara og annarra kennnara og virðist ætla að beita þá afarkostum. Samninganefndin starfar í umboði sveitarstjórna, sem eiga að bera ábyrgð á tónlistarfræðslu. Þar ætti Reykjavíkurborg að vera fremst í flokki enda nýtur hún öðrum sveitarfélögum fremur blómlegs tónlistarlífs. Borgarstjórn Reykjavíkur þarf að hafa frumkvæði að því að sveitarfélögin sýni að þau séu þess megnug að halda á lofti þeim kyndli sem kveiktur var fyrir hálfri öld og á svo stóran þátt í því að gera Reykjavík að þeirri menningarborg sem hún er.

 

Pistilhöfundur er formaður skólaráðs Tónskóla Sigursveins

Latest posts by Indriði Þorláksson (see all)
Flokkun : Menning, Pistlar
1,342