trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 14/08/2014

Er þetta alveg svona einfalt?

UkraineNativeLanguagesCensus2001detailed-enVið Íslendingar hyggjum yfirleitt ekki á landvinninga, enda landamæri okkar nokkuð augljós og ganga almennt undir heitinu fjara. Að vísu minnist ég þess, að hafa heyrt þá kenningu að við ættum að gera kröfu um yfirráð á Grænlandi, þar eð Íslendingar hefðu lagt það undir sig fyrir þúsund árum. En það var fyrir meira en hálfri öld og hugarheimur þess tíma er löngu horfinn.

Það eru ekki allir svo heppnir að geta einfaldlega notað fjöruna sem landamæri. Fjölmörg þjóðríki eru umlukt öðrum ríkjum og víða hafa landamæri verið dregin dálítið skakkt og hluti tiltekinnar þjóðar orðið að minnihluta í í ríki annarrar þjóðar. Á löngum tíma getur vel gróið um heilt. Svo dæmi sé tekið, eru íbúarnir á Skáni löngu farnir að tala nokkurs konar sænsku og telja sig hiklaust vera Svía en ekki Dani og þar hefur uppreisnarmönnum ekki verið slátrað að ráði í tvær aldir.

Kemur það andskotann ekkert við

En það var afar misráðið af ráðamönnum stórvelda á 20. öld að skipta stórum heimshlutum niður í nýlendur og síðan ríki upp á eigin spýtur án nokkurs tillits til þess hvorum megin landamæra þjóðflokkar, ættbálkar, trúarhópar eða þjóðarbrot lentu. Enn í dag er Afríka alsett förum eftir reglustikur þessara erkihálfvita, sem töldu sig öllum öðrum æðri. Beinar línur voru líka dregnar sums staðar í Mið-Austurlöndum.

Sú meginregla virðist í fullu gildi enn í dag að íbúum landssvæða komi það andskotann ekkert við hvar landamæri eru dregin. Úkraína er ágætt dæmi um þetta. Þveröfugt við Ísland markast landamæri Úkraínu ekki af fjöru nema að litlum hluta, þar sem landið liggur að Svartahafi vestan Krímskaga og að Asovshafi austan við Krím.

Úkraínar eru vissulega þjóð. Þeir eiga sér tungumál, sem er heldur skyldara ýmsum öðrum slafneskum málum en rússnesku og þeir búa (flestir) á tilteknu landssvæði. Þetta svæði er þó ekki mjög vel afmarkað og í jaðarhéruðum búa Úkraínar innan um fólk af ýmsum öðrum þjóðernum. Innan núverandi landamæra eru Rússar fjölmennasti minnihlutinn, en þeir eru ekki einu „útlendingarnir“ í Úkraínu. Við landamærin í suðvestri er talsvert af Ungverjum, nokkru austar falla fjölmennar byggðir Rúmena og Moldóva innan landamæranna og Úkraína „á“ stórt landsvæði suður með vestanverðu Svartahafi, þar sem Búlgarar eru mikill meirihluti íbúanna.

Það svæði, sem við köllum nú Úkraínu og sú þjóð sem þar býr, á sér langa og flókna sögu, en í sem stystu máli má segja að Úkraína hafi ekki verið til í núverandi mynd fyrr en á dögum Sovétríkjanna. Áður höfðu Rússar og Pólverjar um langt skeið skipt þessu landi á milli sín.

Landamæri á sífelldu iði

Stjórnarherrarnir í Kreml löguðu Úkraínu talsvert í höndum sér. Þær breytingar stóðu yfir í rúm 30 ár. Úkraínar voru látnir gefa Rússum tvö austustu héruðin 1922. Þegar Rússar og Þjóðverjar höfðu skipt Póllandi á milli sín 1939, voru Pólverjar svo rausnarlegir að lengja Úkraínu til vesturs með stóru landssvæði. Höfðingleg gjöf, jafnvel þótt íbúarnir töluðu flestir úkraínsku. Sovétherrarnir skáru líka stórar sneiðar af Slóvakíu og Rúmeníu og færðu landamæri Úkraínu þannig til vesturs og suðurs. Að miklu leyti virðast þessar breytingar reyndar hafa verið eðlilegar að því leyti, að landamærin voru færð til samræmis við þjóðerni íbúa, en það var ekki algilt.

Furðulegasti gjörningurinn var sá síðasti. Árið 1954 gáfu Rússar Úkraínum Krímskaga. Enn í dag eru Rússar líklega meira en 80% íbúa á Krím, en Nikita Krustchev datt ekki í hug að spyrja þá. Hann gaf þá bara með landinu. Punktur og basta.

Nú ríkir borgarastyrjöld austast í Úkraínu. Í Donetsk-héraði skilst mér að 75% íbúanna líti á rússnesku sem móðurmál sitt, þótt talsvert færri teljist af rússneskum ættum. Í grannhéraðinu Luhansk er þetta hlutfall tæp 70%. Annars staðar í Úkraínu er rússneskumælandi fólk í minnihluta, en að vísu yfir 40% í þremur héruðum til viðbótar.

Af einhverjum ástæðum dettur engum ráðamönnum í hug að spyrja þetta fólk hvað það vilji sjálft. Úkraínuher sækir fram gegn uppreisnarmönnum, sem vafalaust hafa fengið einhver af vopnum sínum frá Rússum. Rússneski herinn bíður þó átekta austan landamæranna, en aðhefst ekkert, allavega ekki enn.

Samkvæmt almennum, vestrænum fréttaflutningi er þetta allt afskaplega einfalt. Rússar eru aftur orðnir vondu kallarnir, rétt eins og í kalda stríðinu. Pútín er einvaldur og auðvitað verstur allra. Því hefur meira að segja verið slegið fram að hann gangi með svipaða stórmennskudrauma og Hitler á sínum tíma.

Gallinn er sá að málið er ekki svona einfalt. Það er þvert á móti afar flókið. Þótt fólk hafi átt friðsamlega sambúð áratugum eða öldum saman og aldrei borið neinn skugga á samskiptin, getur jafnvel lítið bæjarsamfélag skyndilega breyst í púðurtunnu þar sem fólk tekur upp á því að skjóta gamla vini sína og kunningja fyrir þá sök eina, að trúa á skakkt guð, vera af öðru þjóðerni, eða eiga sér annað móðurmál. Þetta gerðist á Balkanskaga upp úr 1990. Og nú er komið að Úkraínu.

Ein mjóróma smáþjóð

Í fréttum íslenska sjónvarpsins lýsir framkvæmdastjóri NATÓ því yfir að Rússar hafi (væntanlega af illmennsku sinni) lagt undir sig hluta af öðru ríki og er þá sennilega fremur að tala um Krímskaga en Krímverja. En er þetta virkilega svona einfalt?

Nei. Þetta er ekki svona einfalt. Þetta er þvert á móti afar flókið.

Lausnir á flóknum viðfangsefnum finnast ekki nema eftir talsverða yfirlegu. Og í deilum af þessu tagi þarf viðræður og samninga. Öskur, refsiaðgerðir og stríðsæsingar gera bara illt verra.

Lítil, vopnlaus og mjóróma smáþjóð, gæti mögulega lagt örlítið lóð á rétta vogarskál með því að biðjast þess náðarsamlegast að réttindi minnihlutahópa verði virt. Í samræðum við Rússa mættu íslenskir ráðamenn forvitnast um stöðu Tatara á Krím. Og bandaríska og vestur-evrópska ráðamenn mætti spyrja hvort lýðræðisást þeirra nái virkilega ekki til íbúanna í austustu héruðum Úkraínu. Hvort ekki gæti verið ráð, að spyrja þetta fólk sjálft hvað það vilji.

Og svo má kannski spyrja: Eru landamæri til fyrir fólk, eða er fólk til fyrir landamæri?

– – –

Myndina má stækka með því að smella á hana. Hún er byggð á manntali 2001 og tekin af ensku Wikipediu. Hún sýnir þjóðernismeirihluta á einstökum svæðum innan „viðurkenndra“ landamæra Úkraínu. Liturinn sjálfur táknar meirihluta, en dekkra litbrigðið merkir að meirihlutinn sé 80% eða meiri. Skiptingu Úkraínu í héruð má líka finna á Wikipediu (hér) og þá mynd er ágætt að skoða líka til samanburðar. 

Flokkun : Pistlar
1,233