Er hagnaður til hægri ?
Hér á eftir fer lengri útgáfa af grein eftir hana mig, sem birtist í Fréttablaðinu í dag 12. mars.
—————-
Álitsgjafar, sumir að minnsta kosti, hafa átt gjöfula daga undanfarið. Skoðanakannanir sem sýna stjórnmálflokkana, alla nema Pírata, hjakka meira og minna í sama farinu, hafa orðið þeim tilefni til alls konar hugleiðinga. Stjórnmálaflokkar hjakka í farinu sem sýnir Framsóknarflokkinn hruninn frá kosningum, Sjálfstæðisflokkinn fastan í kannski rúmlega fjórðungsfylgi (sem einhvern tímann hefði verið þeim martröð). Samfylkingin er klárlega undir tuttugu prósentum og svo hinir á tíu til fimmtán prósent rólinu.
Þetta vekur stjórnmálamenn að sjálfsögðu til umhugsunar – gott ef ég get ekki sagt að þetta valdi okkur nokkru hugarangri. En ég deili ekki skoðunum með helstu álitsgjöfum. Mér hefur í mörg ár fundist orðanotkunin um hægri og vinstri lítt skýra pólitískt umhverfi, hugtökin enda fyrst notuð til að lýsa afstöðu til stjórnmála eftir frönsku stjórnarbyltinguna fyrir bráðum kvart árþúsundi eða 250 árum.
Á flokksþingi þýskra jafnaðarmanna í Bad Godesberg 1959 varð sú mikla stefnubreyting að miðstýring alls efnahagslífsíns ætti ekki lengur við. Markaðurinn hefði sitthvað til síns máls og blandað hagkerfi væri það sem sækjast ætti eftir. Willy Brandt var þar í forystu. Og það er rúm hálf öld síðan.
Mín skilgreining á jafnaðarmennsku er að nota eigi skattkerfið til að jafna lífskjör fólksins í landinu. Allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu og menntun óháð efnahag. Sameiginlegar auðlindir séu í alvörunni sameiginlegar. Að við njótum öll arðs af þeim og getum þannig sameiginlega byggt upp mannvænlegt þjóðfélag. Forsjárhyggja og ráðstjórn eru mér alls ekki að skapi, enda held ég að það séu hugtök sem koma jafnaðarmennsku ekkert við. – Hvað svo sem álitsgjöfum finnst um þessa skilgreiningu.
Heimurinn stendur ekki í stað, hann breytist, sem betur fer. Skoðanir okkar eru ólíkar um margt sem varla er hægt að flokka til hægri eða vinstri. Eru mannréttindi til vinstri ? Er umhverfisvernd til vinstri ? Er vilji til að hafa opið og gagnsætt þjóðfélag til vinstri ? Er hagnaður til hægri ? Er spilling til hægri ? Eru svikin kosningaloforð til hægri ?
Stjórnmálaflokkur sem vill að allir séu eins, stjórnmálaflokkur sem ekki þolir blæbrigði skoðana, svoleiðis stjórnmálaflokkur verður aldrei stór. Þess vegna verða stjórnmálaflokkar nú fleiri og minni, vegna þess að fólk vill ekki láta binda sig á klafa, hvorki þau sem taka virkan og daglegan þátt í stjórnmálum, né hinn almenni kjósandi. Fátt finnst mér ömurlegra en þegar stjórnmálaskýrendur og álitsgjafar tala um „lausafylgi“ á kosninganótt.
Þrjú stór mál
Stjórnmálaflokkar taka afleiðingum gerða sinna og ákvarðana. Því fundum við jafnaðarmenn sannarlega fyrir í síðustu kosningum. Við höfðum forystu í ríkisstjórn sem vann kraftaverk, en það voru erfið verk og í eðli sínu vanþakklát. Svo voru önnur verk sem til stóð að vinna en ekki tókst að klára. Ég ætla að nefna þrjú: Aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, fiskveiðistjórnina og stjórnarskármálið.
Samningaviðræður við Evrópusambandið voru langt komnar en þar vantaði vissulega lokahnykkinn. Þær eru nú á ís en hægt er að hefja þær aftur með litlum fyrirvara, ef andstæðingum þeirra tekst ekki að eyðileggja þá fjögurra ára vinnu sem í þær voru lagðar. Þess vegna er mikilsvert að koma með öllum ráðum í veg fyrir að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Evrópusambandið er ekki að fara neitt, þannig að það eru ekki hundrað í hættunni þó það dragist í tvö ár eða svo að halda þeim áfram landi og þjóð til hagsbóta.
Á móti samningaleið
Í fiskveiðistjórnarmálum náðum við áfangasigri með því að koma á veiðigjöldum sem munaði um og útgerðin gat vel staðið undir. Ný stjórnvöld hafa vissulega lækkað þau, í anda stefnu sinnar um að hygla þeim sem nóg hafa, á kostnað hinna sem minna hafa.
Ég var og er andsnúin þeirri leið í fiskveiðistjórnarmálum sem kölluð var samningaleiðin og var uppi á borðum á síðasta kjörtímabili. Sú leið hefði tryggt handhöfum kvótans hann til minnst fimmtán ára og auk þess yrðu til ýmsir pottar, sem gætu heitið: ívilnunarpottur, byggðapottur eða leigupottur. Pottasull er ávísun á pólitíska íhlutun, flóknara er það ekki.
Úthlutun kvótans á að vera á markaðsforsendum. Útgerðin á að bjóða í kvótann og ákveða á þann veg veiðigjaldið sjálf. Nota á klassískar leiðir jafnaðarstefnunnar til að standa vörð um byggðirnar í landinu, annaðhvort með því að færa þangað beinlínis peninga til að byggja upp störf eða binda ákveðinn hluta kvótans við byggðarlög. Mikið verk er óunnið til að finna hvernig slíku verður best fyrir komið. Verkið er óunnið vegna þess að ekki hefur verið pólitískur vilji til að fara upp út úr því gamla hjólfari sem við erum í með ráðstöfun þessarar mikilvægustu auðlindar þjóðarinnar.
Stórmerkileg pólitísk tilraun
Stjórnarskrármálið verður einhvern tímann talið ein merkilegasta pólitíska tilraun sem hér hefur verið gerð, það er ég viss um. Áhuga- og kunnáttumenn í útlöndum telja vissulega að svo hafi verið. Tilraunin tókst ekki, en við eigum mikinn sjóð til að vinna úr.
Enn ein stjórnarskrárnefndin situr nú að störfum og freistar þess að ná samkomulagi um fjórar breytingar á stjórnarskrá, sem leggja megi fyrir þing næsta haust. Ákvæðin sem eru til umfjöllunar eru: bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur, þjóðareign á auðlindum, umhverfisvernd og framsal valdheimilda. Kannski tekst þessari nefnd það sem engri slíkri hefur tekist áður, að ná samkomulagi. Ég þori engu að spá um það, en vinn að heilindum að verkefninu.
Viðhorf fólks til nefndarinnar og vinnu hennar er mjög misjafnt. Eindregnustu stuðningsmenn heildarendurskoðunar á stjórnarskránni láta sér fátt um finnast og telja verr af stað farið en heima setið með svo afmarkaðar breytingar.
Ég er sannarlega þeirrar skoðunar að endurskrifa eigi stjórnarskrána alla. Úr því sem komið er tel ég þó að við eigum að freista þess að ná samkomulagi um þau fjögur atriði sem stjórnarskrárnefndin hefur til umfjöllunar. Í kjölfarið þarf að knýja á um frekari endurskoðun. Þetta er sú leið sem málefnanefnd Samfylkingarinnar leggur fyrir Landsfundinn þann 20. mars. Rétt er að hvetja allt samfylkingarfólk sem áhuga hefur á málinu að mæta og láta til sín taka.
Í stjórnarskrármálinu var tekist á um völdin í landinu. Gamli tíminn í stjórnmálum, gamli tíminn á fjölmiðlunum og gamli tíminn í fræðasamfélaginu lagðist gegn nýjum tímum og nýjum vinnubrögðum. Á lokasprettinum kom i ljós að í minum flokki hafði gamli timinn lika sigur á hinum nyja. Við skuldum fólki að ljúka þeirri vinnu sem hafin var og fara að vilja þjóðarinnar sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012.
Það tekur lengri tíma en við vonuðum. Í pólitík skiptir tvennt miklu máli: þrautseigja og að fara ekki á taugum. – Og hvað ætli það sé: til hægri eða vinstri ?
- Varist eftirlíkingar - 24/10/2016
- Land ríkra útgerðarmanna og fátækra barna - 07/09/2016
- Um lögreglufræðin og gagnrýni mína - 25/08/2016