trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 20/08/2014

En gaman

Ég veit ekki. Eitt sinn var Kaffistofan á Pressunni hans Binga notaleg. Eins og kunningjaskraf yfir bolla að morgni dags.Björn Ingi Hrafnsson

Auðvitað var það aldrei þannig, en það má alltaf ímynda sér. Að fólk sé bara að spjalla saman. Um okkur og lífið okkar hér.

En neinei.

Þetta birtist síðla gærkvölds (þið verðið bara að þola lesturinn, styttan þó, og ég harðneita að setja hlekk á þetta):

„Á kaffistofuna bárust í dag fregnir þess efnis að breska fjármálatímaritið World Finance hafi valið MP banka fremstan í flokki á sviði eignastýringar á Íslandi 2014.

World Finance útnefnir árlega fyrirtæki fyrir framúrskarandi árangur og í ár hlaut MP banki viðurkenningu sem „Best Investment Management Company“ á Íslandi. […] Meðal þeirra sem hljóta sömu viðurkenningu eru DNB Asset Management í Noregi, Swedbank Robur í Svíþjóð, ATP Private Equity Partners í Danmörku og T. Rowe Price í Bandaríkjunum.

[…] Eignir í stýringu spanna helstu eignaflokka bæði hérlendis sem og á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Óhætt er að segja að þetta sé rós í hnappagat MP banka og dr. Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra eignastýringar bankans.“

Þið afsakið ofbeldið, elskurnar, en svona er þetta af kúnni. Og er þó lofgjörðin mun lengri.

Gamall hundur les þarna óbreyttan texta frá markaðsdeild bankans, birtan sem spjall milli fólks.

„Spanna helstu eignaflokka“ – jebbs.

Ef ég væri illa innréttaður rifjaðist upp, að það var dr. Sigurður, sem þarna er rómaður ásamt öllum hinum verðlaunahöfunum, sem reiknaði út fyrir forsætisráðherra Framsóknarflokksins hvernig skattgreiðendur og sparifjáreigendur gætu borgað niðurgreiðslu á eigin húsnæðislánum, en ekki útlendu hrægammarnir.

En ég geri það nú ekki. Það væri ókurteisi.

Engin kurteisi kemur þó í veg fyrir að mér verði hugsað til sirka 2007, borgarstjórnar Reykjavíkur, REI, útdeilingu kaupréttarsamninga til kosningastjóra Framsóknarflokksins og alls konar.

Með fylgja aðrar óviðurkvæmilegar hugsanir.

Í þeim velti ég fyrir mér hvort Bingi hafi strax gleymt köflunum í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis sem eru um hann sjálfan. Um gagnrýnislausa umfjöllun og þjónkun fjölmiðla við fjármálastofnanir, svo að ég nefni ekki allt hitt um pólitík og peninga.

Þessi dans er sumsé byrjaður aftur.

En gaman.

1,393