Eldhúsdagsræðan
Forseti, ágætu landsmenn.
Fyrsta þingvetri á nýju kjörtímabili er að ljúka.
Í kosningunum á síðasta ári hlutu ríkisstjórnarflokkarnir um 51 % atkvæða sem færði þeim mikinn þingstyrk – 38 sæti eða 60 % þingsæta.
Það heyrist oft – bæði í þingsal og utan hans – að nú sé ný stjórn við völd og hún ætli að fara sínu fram. Á þessu var sérstaklega klifað í fjárlagaumræðunni í haust. Það er rétt – skilin í stjórnmálunum eru skörp, jafnvel skarpari en oftast áður. Við völd er ríkisstjórn sem gengur erinda þeirra sem meira mega sín en ekki hinna sem minna mega sín. Þetta á við um framkomu þeirra við fólkið í landinu og við fyrirtækin í landinu.
Ríkisstjórnin gekk vasklega til verka. Hún lækkaði veiðigjöld á útgerðina og afsalaði þar með sameiginlegum sjóðum okkar allra mörgum milljörðum –– sjóðum sem standa undir velferðinni: Heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu og öllu hinu sem við borgum öll í sameiningu, bara á þessu ári eru milljarðarnir að minnsta kosti sex og hálfur. Og ríkisstjórnin skar niður fjárveitingar sem ætlað var að efla nýsköpun, kvikmyndagerð og alls konar hluti sem alls konar fólk fæst við og gætu orðið undirstaða öflugra fyrirtækja. Enn frekari lækkun veiðigjalda er á dagskrán nú skal lækkað um tvo til viðbótr – og áttum okkur á því að ef atvinnuvegir – sem ganga vel – taka ekki þátt í að greiða til samfélagsins þá erum það bara við, fólkið, sem stöndum undir samfélagsþjónustunni með okkar skattgreiðslum. Veiðigjöld eru ekki og eiga ekki að vera skattur heldur greiðsla fyrir að fá að nýta sameiginlega auðlind okkar allra. – Virðulegi forseti, á þeim stutta tíma sem ég hef er ekki tími til að víkja að vitleysunni um að lækka virðisaukaskatt á gistingu og öllu ruglinu um náttúrupassa sem hefur fylgt í kjölfarið.
Helstu stefnumál ríkisstjórnarflokkanna hafa ekki enn verið afgreidd héðan úr þinginu, það er að segja skuldaafskriftirnar sem hæstvirtur forsætisráðherra lýsti sem heimsmeti. Það er þó ekki vegna þess að stjórnarandstaðan hafi þvælst fyrir, heldur hafa mál komið allt of seint fram. Enda flóknari og erfiðari en ríkisstjórnarflokkarnir létu í veðri vaka í kosningabaráttunni. – Það er oft erfiðara í að komast en um að tala – það er ekki nýr sannleikur.
Efndirnar eru auðvitað allt aðrar og minni en loforðin og efnahagslegar afleiðingar þeirra eru enn óljósar. Sannarlega bendir flest til að skynsamlegra væri að nota þá tæpu áttatíu milljarða sem eiga að fara til að greiða niður húsnæðisskuldir – líka þeirra sem geta sjálfir staðið undir skuldbindingum sínum – til annarra hluta. En stjórnarmeirihlutinn ræður för og stjórnarandstaðan getur einungis bent á gallana sem blasa við.
En það eru ekki bara loforð um skuldafskriftir sem hafa verið svikin. Framganga ríksstjórnarinnar í Evrópumálum hefur vakið furðu. Allri umræðu um Evrópumál var ýtt út af borðinu í kosningabaráttunni vorið 2013, þegar frambjóðendur sem nú eru orðnir ráðherrar lýstu því yfir hver í kapp við annan að framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið yrði í höndum þjóðarinnar, hún fengi að greiða um það atkvæði. – Vegna þessara svika reis fjöldi fólks upp og mómælti þegar ríkisstjórnin, í febrúar, lagði skyndilega fram tillögu þess efnis að slíta viðræðunum.– Samfélagshrunið hefur nefnilega haft þær jákvæðu afleiðingar að fólkið í landinu gerir meiri kröfur til stjórnmálamanna en áður var – kröfur, meðal annars, um að við stöndum við orð okkar.
Bramboltið varðandi þetta mikilvæga mál hefur verið með endemum. Fyrst setti ríkisstjórnin samningaviðræðurnar á ís en vildi gjarna fá þá styrki sem Evrópusambandið veitir ríkjum sem eiga í aðildarviðræðum. Næst sagðist ríkisstjórnin ætla að láta gera skýrslu um framgang viðræðnanna, og ákveða næstu skref í kjölfarið. Umræða um skýrsluna var varla hafin hér á Alþingi þegar hæstvirtur utanríkisráðherra lagði fram sína alræmdu tillögu um að slíta viðræðunum.
Þá var ekki bara stjórnarandstöðu hér á þingi misboðið heldur fjölda fólks, kjósendum, sem höfðu heyrt stjórnmálamenn segja fyrir kosningar að framhald aðildarviðræðna yrði borið undir þjóðina. Hér á Austurvelli mótmælti fólk dag eftir dag og síðan viku eftir viku. Fólk mótmælti því að stjórnmálamenn gengju á bak orða sinna. – Tillagan alræmda verður ekki afgreidd. Þrýstingur frá mótmælendum á Austurvelli og þeim 53.555 einstaklingum sem skrifuðu undir kröfu um að hún yrði lögð til hliðar og að boðað yrði til þjóðartkvæðagreiðslu réðu örlögum hennar.
Virðulegi forseti. Allt tal stjórnvalda um ómöguleika og ráðgefandi eða bindandi þjóðaratvæðagreiðslur er einfaldlega til þess að drepa málinu á dreif. Ríkisstjórnin getur efnt til atkvæðgræðslu og farið eftir henni. – Eina sem gerir það að verkum að ekki sé farið eftir ráðgefandi þjóðaatkvæðagreiðslu er að þeir sem ráða þverskallast við því. – Það gerði þingið því miður fyrir rúmu ári síðan, en vonandi mun ekkert þing endurtaka þau mistök.
- Varist eftirlíkingar - 24/10/2016
- Land ríkra útgerðarmanna og fátækra barna - 07/09/2016
- Um lögreglufræðin og gagnrýni mína - 25/08/2016