trusted online casino malaysia
Bragi Kristjónsson 24/08/2014

Ekkja Steins Steinarrs segir frá (II)

– Hvort Steinn orkti mikið þarna?Bragi Kristjónsson

Eg veit ekki, hann safnaði aðallega gömlum bókum. Hann tók skyndilega uppá þessu, var við þetta vakinn og sofinn og varð geysiklókur á skömmum tíma. Mér fannst afskaplega einkennilegt, að á meðan á þessu stóð, komu oft til okkar í kampinn menn, sem eg hef hvorki fyrr eða síðar augum litið. Tal þeirra snerist eingöngu um gamlar bækur. Þegar Steinn seldi safnið (til Valdimars Jóhannssonar bókaútgefanda í Iðunni) hurfu þeir allir á einni nóttu.

– Jú, við máttum til. Það er kostnaðarsamt að eiga gamlar bækur. Það þarf að binda þær og hirða vel. Fyrir söluverðið fórum við til Spánar. Það var árið 1938. Fyrsta spölinn fórum við með Gullfossi til Hafnar og beint frá borði upp í Skinnbuxurnar (hina þekktu Íslendingabúllu, þarsem uppi hangir myndasafn Íslendinga, m.a. Árni Pálsson, Sverrir Kristjánsson, Jóhann Sigurjónsson og Alfreð Flóki) eða einhverja aðra bjórkrá. Danska ljóðskáldið (Jens August) Schade birtist brátt, en hann var mikill vinur Steins. Svo lá leiðin um París til Palma á Mallorca. Þar leigðum við okkur dálítið hús, og í nokkra mánuði leið líf okkar sem hér segir:

Að morgninum markaðsferð til þess að kaupa kubba í eldinn og eitthvað í matinn. Hvernig sem á því stóð endu allar slíkar ferðir á því að við komum heim með efni í kjötsúpu. Súpan var allan seinni hluta dagsins að sjóða, því eg varð að nota leirpott á hlóðum. Meðan fengum við okkur dálítið rauðvín. Eftir kvöldmat litum við í blöðin með aðstoð orðabókar og svo var dagurinn búinn…!!!

– Nei, það hafa gengið miklar ýkjusögur um drykkjuskap Steins. Sannleikurinn er nú sá, að lengi framanaf drakk hann alls ekkert, og hann varð aldrei háður víni, þurfti hvorki að rétta sig af að morgni né heldur drakk hann nokkurn tíma einn. Drykkja var honum fyrst og fremst félagslegs eðlis, aðferð til að komast í betra samband við aðra og ýta undir samræður. Í kvæðum hans held eg, að sé erfitt að finna lofsöngva til hinna gullnu þrúgna, en slíkra kvæða er venjulega skammt að leita hjá þeim skáldum, sem haft hafa djúpa nautn af áfengi.

(Við fórum nú að blaða í safni Steins, en finnum að bragði ekki nema þetta:

Öl birtir ört til sanns

innræti sérhvers manns,

einn fór við engi grið

alfari í tukthúsið.)

Honum leiddist að ræða við fólk, sem var ofstækisfullt í stjórnmálum og ófært um að taka gamni, eins og til dæmis sannfærðir Stalínistar. En honum þókti vænt um ungu skáldin, sérstaklega þá Hannes Sigfússon og Sigfús Daðason. Taldi sig þó alls ekki til þeirra.

– Jæja, eftir nokkra mánuði komum við heim. En Stein langaði alltaf til þess að fara aftur og það varð úr tveim árum seinna. Allt varð eins og áður: Viðareldurinn, kjötsúpan og raunvínið.

Eftir Spánarferðina fluttumst við í dálítið hús í Fossvogi. Því fylgdi tún og hænsnakofi og bakhýsi með tveimur rólegum leigjendum (annar þeirra var Stefán Hörður Grímsson skáld.) Sömuleiðis fengum við með í kaupunum tvær læður, sem gutu þindarlaust.

Það leið ekki á löngu, áður en við vorum komin með ellefu ketti, og að auki hafði tíkin okkar eignazt fimm hvolpa, svo að það var um nóg að hugsa. Eg rogaðist heim með ósköp af kjöti og fiski og mjólk handa þessu á hverjum degi.

Þegar hvolparnir voru nýfæddir, kom Jóhannes, vinur okkar, úr Kötlum að heimsækja okkur og gisti um nóttina. Um morguninn spurði hann, hvaða ýlfur hefði gengið alla nóttina, en það voru hvolpagreyin. „Heyrðirðu ekki,“ sagði Steinn, „að þetta er alveg eins og hljóðið í sumum ljóðabókum?“

En hunda- og kattahaldið var orðið allumfangsmikið. Skömmu seinna átti Steinn afmæli, og sagðist eg þá skyldi gefa honum ellefu ketti í afmælisgjöf, ef hann vildi annast þá. En þá var hann nýbúinn að biðja Lárus Salómonsson (lögreglumann) að koma okkur til liðs, og einmitt sama kvöldið hafði Lárus flokkinn á brott með sér, að undantekinni tíkinni og einum kettlingi. Þau áttu hálfbágt, en tíkin gekk kattarskinninu í móðurstað. Hún dauðskammaðist sín fyrir þessa ónáttúru og gætti þess vandlega að skipta sér ekki af honum, ef hún hélt, að einhver sæi til.

———-

– Já, við áttum líka hænsni, allt upp í fjögur hundruð pútur og seldum mikið af eggjum. Á hverju kvöldi bókuðum við ágóðann. Það var óskaplegt bókhald. Við þekktum auðvitað ekki þennan fjölda allan með nafni, bara hana Stínu sem alltaf hoppaði upp á öxlina á mér og Blínu, sem var eineygð og Fríðu af því að hún var svo blíðlynd. Það var nú líkast til að ýmsar framkvæmdir væru nauðsynlegar við þennan búskap. Leiða rafmagn til hænsnanna, búa til hreiður, gera girðingar og moka út. Svo þurfti að slá túnið. Eg var alltaf að nöldra um þetta, þangað til Steinn tók sig til eitt kvöldið og hljóp uppi mann, sem sat á dráttarvél í blíðunni lengst fyrir ofan. Sá hét Guðbrandur, bráðskemmtilegur, enda úr Suðursveit, og hjálpaði okkur geysimikið upp frá því.

Steinn SteinarrEitt sumarkvöld kom Magnús Ásgeirsson til okkar í kvöldmat. Steinn fylgdi honum síðan góða spöl heim á leið. En eg stóð við gluggann og horfði lengi á eftir þeim, þar sem þeir gengu í vesturátt móti gullskýjuðu sólarlaginu og síðan eftir glampandi Hafnarfjarðarveginum, sem bugðaðist upp á Digraneshálsinn. Það var mjög fagurt kvöld.

Eg sá Magnús ekki framar. Hann lézt stuttu síðar. Steinn tók sér dauða hans mjög nærri. „Mér finnst eg ekkert erindi eiga niður í bæ, síðan Magnús dó,“ sagði hann stundum.

– Við okkur sjálfum virtust blasa margir fagrir ævidagar. Hvergi höfðum við búið betur en þarna í Fossvoginum. Steinn vildi alltaf vera að láta betrumbæta og standsetja húsið okkar. Ekki nóg með það, við gerðum ráðstafanir til þess að fá okkur bíl. Stein langaði fjarska mikið til þess að fara í skemmtiferð vestur í Dali, helzt að vorlagi, á bernskustöðvar sínar. Á hverju ári ræddum við fram og aftur um þessa ferð. En hún var aldrei farin. Fengjum við bíl, ætluðum við sannarlega að gera alvöru úr þessum gamla draumi.

– Enn eitt var það, sem Steinn hlakkaði afskaplega mikið til. Það var fimmtugsafmælið hans. Þótt heilt ár væri til stefnu, var hann oft að bollaleggja, hvernig við gætum þá gert okkur dagamun á sem allra eftirminnilegastan hátt.

– Eg varð ekki sérlega áhyggjufull haustið 1957, þegar Steinn veiktist og var fluttur á sjúkrahús til uppskurðar. Eg hélt, að um hættulítinn blóðrásarsjúkdóm væri að ræða og fullur bati myndi nást.

Það kom yfir mig eins og reiðarslag, þegar læknirinn sagði mér eftir uppskurðinn, að hér væri ólæknandi krabbamein á ferð, dauðinn vís innan fárra mánuða.

Það er kannski ekki fallegt af mér, en eg hef aldrei getað fyrirgefið lækninum hreinskilni hans. Það er ekki rétt, held eg, að taka alveg frá manni vonina. En Steinn vissi ekkert. Hann hafði óskaplega lífslöngun og vonaði alltaf að sér myndi batna.!! Eg er viss um, að honum fannst hann eiga margt ógert. Hann langaði svo til að lifa.

– Jú, við fengum bílinn, sem við ætluðum á vestur í Dali. Eg lærði á hann með miklum harmkvælum og notaði hann aðallega í sjúkravitjanir til Steins. Steinn kom aðeins tvisvar upp í hann. Í fyrra skiptið sótti eg hann í sjúkrahúsið um vorið. Eftir sex vikur ók eg honum þangað aftur. Þá vissi jafnvel hann, að allt væri búið.

Hann dó að kvöldi hvítasunnudags, það var fallegt dánardægur, en hann dó ekki glaður.

– Mig langaði mest til að fara ekki framar á fætur. Sjáðu, – hann var mér allt. Það var freistandi að gefast upp.

– Hvort eg iðrist eftir að hafa aldrei hugsað um neitt nema hann? Já, en um hvað annað hefði eg átt að hugsa? Það var óskaplega erfitt að finna eitthvað nýtt. En eg varð að finna eitthvað – reyna að halda áfram – fara ekki úr sambandi. Eg mátti ekki gefa sjálfri mér eftir, og eg rak mig í vinnuna eins og áður, streittist við að halda mínu gamla striki. Maður verður að setja sér að láta eins og ekkert sé, bera harm sinn í hljóði. Það er enginn að flýja til.

– Já, það er óskaplegt basl að standa svona einn. Eg undi ekki lengur í Fossvoginum. Við veginn okkar voru fá hús, götulýsing engin, og mikið myrkur að koma heim á kvöldin. Eg seldi allt og fluttist í litla íbúð í sambýlishúsi við Sólvallagötuna. Þar settist einstæðingsskapurinn að mér fyrir alvöru. Áður hafði eg þó alltaf hænsnin að hugsa um kvölds og morgna.

En þarna var bókstaflega ekkert hægt að gera því að ekki var eg lengi að elda ofan í sjálfa mig. Mér fannst eg komin í fangaklefa. Þetta var óskaplega dapurlegt.

– Þá fluttist eg hingað. Þetta litla hús hef eg alveg út af fyrir mig, og nú líður mér miklu betur. Eg hef útsýni hérna suður yfir Skerjafjörðinn, eg hef stóran garð og er í snertingu við náttúruna. Heilt hús þarf ýmissar umhirðu við, og hér er allt frjálslegra. Margir eru hissa á mér, en eg er svona frumstæð í mér.

Jú, eg hef oft á tilfinningunni, að hann sé ekki langt í burtu. Hvort hann var trúaður?? Nei, það álít eg ekki. En hann velti því mikið fyrir sér, hvort til væri annað líf. Og hann vildi alls ekki afneita því. Fullyrti ekki, að dauðinn væri endir alls. Hvernig væri líka hægt að vita það? Spurningin er aðeins, hvort við mennirnir höfum ekki sjálfir búið til trúna á annað líf, af því að það er svo óbærilegt að sjá enga von framundan. Og mikið var það fallegt, sem biskupinn sagði um hann: „Eg fel þig á hendur Jesú Kristi, sem engum bregzt.“

– Nei, eg er ennþá á hagstofunni og er nú búin að vera þar í 25 ár. En það er ekki umtalsvert, skrifstofustörf eru nú lítilfjörlegasta iðja sem hægt er að hugsa sér. Hver einasti maður getur leyst þau af hendi og það er svosem alveg sama, hvort þau eru unnin eða látin ógerð. Eg get ekki einu sinni sagt mér þyki þau leiðinleg!! Þau eru svo fullkomlega ekki neitt-neitt. Enda vinna þau allir eins og dauðir séu, og það er einasta lífsmarkið, sem seytlar inn á skrifstofuna til mín, þegar okkar gamli vinur, Bergur Pálsson í ríkisbókhaldinu, sem er á sömu hæð, fer að hlæja. Það heyrist gegnum þrjár stofur. Og mér þykir vænt um alla, sem þótti vænt um Stein.

———-

– Ásthildur þagnar.

Mér verður litið á klukkuna. Hún hefur alls ekki stanzað eins og ég hélt, heldur tifar frísklega og nálgast nú óðfluga fótaferðartíma góðra manna, að minnsta kosti þeirra, sem lifa eftir boðorðinu: „Morgunstund gefur gull í mund.“

Mál að hypja sig heim!

– Eg get ekki fundið þessari sögu hæfilegri eftirmála en kvæðið „SIESTA“, ort af Steini til Ásthildar:

Í dagsins önnum dreymdi mig

þinn djúpa frið, og svo varð nótt.

Eg sagði í hljóði: Sofðu rótt,

þeim svefni enginn rænir þig.

 

En samt var nafn þitt nálægt mér,

og nóttin full af söngvaklið,

svo oft, og þetta auða svið

bar ætíð svip af þér.

 

Og þungur gnýr sem hrynji höf,

mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:

Mín hljóða sorg og hlátur þinn,

sem hlutu sömu gröf.

Inga Huld Hákonardóttir

———-

Og eg segi eins og fyrr: Hún Inga Huld var einstök í sinni röð. Og það liggur svo margt fallegt eftir hana: T.d. „Fjarri hlýju hjónasængur“ þarsem hún segir sögu íslenzkra kvenna frá þeirra hól.

Og góðu vinir, þakka þolinmæðina.

(Seinni hluti – fyrri hluti er hér)

Flokkun : Pistlar
1,335