trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 03/10/2014

Ekkifréttir dagsins – og svo bein lygi

ValhöllÞað líður sosum varla sá dagur að maður sjá ekki a.m.k. eina ekki-frétt. Sem sagt frétt um eitthvað sem í rauninni er alls ekki fréttnæmt. Einfaldlega ekki í frásögur færandi. Ég leiði þetta yfirleitt hjá mér, en stöku sinnum ofbýður manni.

Stóra ekki-frétt dagsins var sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tapað 126 milljónum á síðasta ári. Þetta varð að stríðsletursfrétt á dv.is og ég sá í kjölfarið einhver hneykslunarorð á Facebook. DV lét þess líka getið að flokkurinn skuldaði 386 milljónir „á móti 417 milljóna eigin fé.“

Pínulitla ekki-frétt beggja sjónvarpsstöðvanna var sú að formaður fjárveitingarnefndar Alþingis hefði borið vatnsfötu á höfðinu heila 10 metra. Ég nenni varla að nefna hversu gaman hefði verið að sjá afrískar stúlkur kenna formanninum höfuðburðinn og réttar stellingar hálsliðanna.

Við skulum frekar líta aðeins á tap Sjálfstæðisflokkins. Það er út af fyrir sig rétt að flokkurinn var rekinn með 126 milljóna tapi árið 2013. En það gleymdist að geta þess að árið 2013 var kosningaár. Kosningabarátta fyrir Alþingiskosningar kostar heilmikla peninga og allir stjórnmálaflokkar eru reknir með tapi á kosningaári. Þeir hafa svo þrjú ár til að borga skuldirnar eða safna fyrir næstu kosningar – eftir atvikum.

Þetta pínulitla smáatriði gleymdist alveg hjá DV – og kannski fleiri netmiðlum.

Hitt var þó verra að í DV-fréttinni var farið með svo staðlausa stafi að það stappar nærri beinni lygi.

Skuldir Sjálfstæðisflokksins nema 386,4 milljónum króna á móti eigin fé upp á 417 milljónir.

Hér er mjög staðfastlega gefið í skyn að Sjálfstæðiflokkurinn eigi ekki nema um 30 milljónir umfram eignir og sé þar með mjög nálægt gjaldþroti.

Þetta er bein lygi. (Nema það verði bundið í lög að einungis löggiltum endurskoðendum sé heimilt að lesa netútáfu DV.)

Sjálfstæðisflokkurinn átti um síðustu áramót kr. 803.663.876,- (þar af kr. 664.107.495,- í fasteignum og öðru ámóta). Eigið fé er mismunur eigna og skulda og hrein eign Sjálfstæðisflokksins er kr. 417.238.979,-. Sem sagt nærri hálfur milljarður.

Hér með berst leikurinn frá nauðaómerkilegum ekki-fréttum yfir í alvöruna. Sú spurning vaknar auðvitað, hvort þetta sé með vilja gert. Ég get út af fyrir sig sætt mig við þá skýringu að blaðamaðurinn hafi haft knappan tíma og sé að auki ekki tiltakanlega vel læs á tölur. En ég get líka skilið þá fjölmörgu sem skilja þessa ótrúlega gölnu ekki-frétt allt öðru vísi og telja hana sanna að DV sé að reyna að níða niður Sjálfstæðisflokkinn (og auðvitað Hönnu Birnu).

Það er svo kannski allt annað mál, að í þessari sömu frétt er ein setning efni í alvöru stórfrétt. Það er engu líkara en blaðamaðurinn hafi rennt augunum svo hratt yfir PDF-skjalið, að innihaldið hafi alveg farið fram hjá honum. Þetta fréttaefni er svohljóðandi:

Aðeins einn einstaklingur styrkti flokkinn umfram 200 þúsund krónur …

Af hverju er það fréttaefni? Það skulum við kalla getraun októbermánaðar. Skynsamleg og vel hugsuð svör sendist á netfangið mitt. Berist einhver slík svör, lofa ég hátíðlega að skrifa pistil um þetta tiltekna efni og birta a.m.k. úrval úr þeim allra bestu.

– – –

PS – Leiðrétting: Mér hefur verið bent á, að það sé rangt sem segir hér að ofan um að gleymst hafi að geta þessi í frétt DV, að 2013 hafi verið kosningaár. Það er vissulega nefnt í fréttinni. Mér þykir sjálfsagt að biðja blaðamann DV afsökunar á þessu. Eftir sem áður þykir mér það lítt fréttnæmt að stjórnmálaflokkar séu reknir með tapi á kosningaári. Og alvarlegustu mistökin í fréttinni standa óhögguð. Það er eiginlega óskiljanlegt hvernig hægt er að setja fram tölur um eigið fé á þann hátt sem DV gerir.

Flokkun : Pistlar
1,366