Ég skammast mín
Ghasem Mohammadi stendur á tvítugu. Hann flúði frá heimalandi sínu, Afganistan, fyrir fjórum árum til að bjarga lífinu. Síðustu tvö árin hefur hann verið í eins konar stofufangelsi á Íslandi. Hann fór í hungurverkfall fyrir nokkru og sálarástand hans er þannig, að hann langar helst til að deyja.
Yngsti sonur minn er jafngamall þessum pilti.
Um það leyti sem Ghasem flúði frá Afganistan, var sonur minn að útskrifast úr grunnskóla. Hann hélt áfram að spila fótbolta, fór í fjölbrautaskóla og eignaðist nýja vini. Sumarið eftir tók hann bílpróf eins og flestir íslenskir jafnaldrar hans.
Þessi síðustu fjögur ár hefur hann notið æskuáranna, notið þess að þroskast og verða fullorðinn. Undanfarnar helgar hafa margar hverjar farið í stúdentsveislur.
Lífið brosir við honum, rétt eins og lífið á að gera þegar maður stendur á tvítugu. Framtíðin er enn óskrifuð og möguleikarnir ótæmandi. Það er eins og það á að vera. Í okkar góða samfélagi.
En suður með sjó hímir Ghasem Mohammadi á fletinu sínu, innilokaður í litlu herbergi. Evrópa hefur nú þegar rænt hann fjórum af skemmtilegustu árum ævinnar.
Við Íslendingar erum ábyrgir fyrir helmingnum.
Ghasem og sonur minn eru jafnaldrar. Þeir eru líka báðir íbúar á plánetunni Jörð. Fleira eiga þeir ekki sameiginlegt.
Sonur minn á enga sér hatursmenn. En það er til fólk sem fyrirlítur Ghasem vegna þess að húðlitur hans er dekkri en okkar flestra og vegna þess að hann er uppalinn við önnur trúarbrögð, en hér eru algengust.
Og nú telja hatursmenn Ghasems sig eiga tvo kjörna fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur.
Ghasem langar helst til að deyja.
Ég skammast mín.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019