trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 03/01/2015

Dúkkuheimili Borgarleikhússins

Jólafrumsýning Borgarleikhússins í ár var eitt af höfuðverkum norrænna leikbókmennta, Dúkkuheimili Ibsens. Þráðurinn í verkinu er spunninn um ung og efnileg hjón, Nóru og eiginmann hennar lögfræðinginn Þorvald Helmer. Framtíðin brosir við þeim þar sem hann er að taka við bankastjórastarfi með góðum tekjum, falleg og hraust börn og hjónin myndarleg. Nóra leggur allt í þjóna manni sínum og samband þeirra snýst um velgengni hans. Fljótlega kemur fram að hún hafi gengið mjög langt til þess að viðhalda í sýndarleiknum og Þorvaldur er grunlaus um leyndarmál konu sinnar.Henrik_Ibsen

 

Ibsen fjallar um þá miklu innri baráttu sem Nóru á við sjálfa sig. Þegar líður á verkið þróast mál þannig að hún getur ekki vikið sér undan einhverskonar uppgjöri við sjálfa sig. Vali á milli þess að viðhalda þeim veruleika sem Þorvaldur hefur smíðað eða endurheimta frelsi sitt. Sannleikur milli þeirra hjóna er virtur að vettugi í samskiptum þeirra.

 

Nóra undirgengst kröfu manns síns um að taka að sér hlutverk hinnar þægilegu og barnslegu eiginkonu, dúkkuna hans Þorvaldar og lokar þannig af sitt innra sjálf. En viljinn til þess að vera hún sjálf er til staðar og vex. Brjótast út og sýna og sanna að hún geti endurheimt sjálfstæði sitt.

 

Ibsen dregur upp þá mynd að frelsi sé reist á ákvörðun einstaklingsins sjálfs og sé á hans eigin ábyrgð. Það blasir við áhorfandanum að ef Nóra gæfist upp myndi hún glata sjálfri sér. Valið var fullkomin uppgjöf eða hún verði að yfirgefa fjölskyldu sína og takast á við sitt eigið sjálf. Lokasenan er þannig vel undirbúin og er mögnuð.

 

Verkið er feikilega vel skrifað og hefur notið stöðugra vinsælda frá því það var fyrst frumsýnd í Kaupmannahöfn árið 1879. Þessi uppfærsla er stytt og færð til samtímans, Leikstjóri er Harpa Arnardóttir og þýðandi: Hrafnhildur Hagalín. Í byrjun áttar maður sig ekki á barnalegum ærslaleik Nóru, það virkar á mann eins og ofleikur en smá saman við förum að átta okkur á því hvert stefni.

 

Hilmi Snæ bregst ekki bogalistinn frekar en fyrri daginn, hann er einfaldlega stórkostlegur. Unnur Ösp á flottan leik, sama á við um Val Frey. Mér fannst þáttur Arndísar Hrannar Egilsdóttur í hlutverki Kristínar Linde, vinkonu Nóru og Þorsteins Bachmann í hlutverki Níels Krogstad í verkinu vera alltof mikið einfölduð og hlutur þeirra gekk ekki nægilega vel upp.

 

Sýningin er mjög góð og vel þess virði að fara í Borgarleikhúsið. Þó verkið sé að verða 140 ára gamalt þá á það fullt erindi til okkar í dag. Leikmyndin var gerð af Ilm Stefánsdóttur og var vel úthugsuð, lýsing Björn Bergsteins var fín og tónlist Margrétar Kristínar Blöndal var hörkufín og hristi vel upp í flutningnum.

Flokkun : Menning, Pistlar
1,950