trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 17/09/2018

Draugarnir

Ég get varla ímyndað mér að nokkur sé hissa. Barasta alls ekki.

Já, ég er að tala um fullveldishátíðarfloppið á Þingvöllum. Og nei, ég er ekki að tala um að kostnaður við einn fund hafi verið næstum tvöfalt meiri en áætlað var.

Á því er vonandi enginn undrandi. Það er regla, en ekki undantekning.

Ég ætla heldur ekki að segja neinn brandara um rúmlega tuttugu milljóna króna lýsingarkostnað utan dyra um hábjartan dag í miðjum júlí. Nema til að velta einu fyrir mér.

Svona sterk lýsing er allajafna notuð í sjónvarpi og kvikmyndum, og væntanlega var fundurinn tekinn upp mjög nákvæmlega. En slíkri lýsingu fylgir að nauðsynlegt er að farða, sminka, leikendur vandlega. Annars verða þeir allir nábleikir í mynd. Eins og draugar.

Nú hef ég ekki skoðað kostnaðaliðina í hörgul, en vona bara að enginn kostnaður hafi farið í að mála Steingrím Joð Sigfússon og hina fortíðardraugana sem skipulögðu þessa uppákomu. Það verður nefnilega eina ánægjan við það að horfa á upptökuna að sjá, að þar verða þeir sýndir í réttu ljósi.

Bókstaflega.

Þessir uppvakningar lifa nefnilega ekki í sömu tilvistarvídd og annað fólk.

Af mörgu er að taka, en látum nægja að þau gerðu ráð fyrir mörg þúsund gestum – gott ef ekki tugum þúsunda – á sjálfshátíðina þeirra.

Það mættu þrjú hundruð, þar af flestir líklega túristar sem héldu sennilega að þarna væri að vænta tónleika, miðað við umbúnaðinn. Þeir lentu óvart á nútímalegri skyggnilýsingu, með alvörunazista og tilbehör.

Hvers vegna? Hvað í ósköpunum við þennan fund og raunar langflesta aðra viðburði til að „fagna“ afmæli fullveldisins hefði átt að vekja athygli fólks? Og það svo mjög, að það gerði sér ferð á Þingvelli af spenningi? Getur Steingrímur eða formaður hátíðarnefndarinnar, Einar K. Guðfinnsson (jebbs), nefnt okkur svo sem hálfa ástæðu?

Ég bíð ekki í spreng eftir svari, en það er eitthvað við það að sitja í áratugi á alþingi sem sendir fólk í aðra tilvist en við hin lifum í svona hversdags.

Framundan er hinn eiginlegi fullveldisdagur, 1. desember. Ég hef ekki þorað að skoða dagskrána hjá þeim sem voru fengnir til að „fagna“ tímamótunum, með svona líka gleðinni.

Legg samt til að við komum okkur upp lager af hvítlauk, krossum eða hvað það var nú sem fólk notaði hér áður til að verjast svona sendingum.

Hugsanlega þarf róðukross úr silfri. Þetta er það sterk ásókn og það gömul óværa. Sem þarf að senda til síns heima svo að hún hætti að eyða peningum skattgreiðenda í vitleysu og sjálfa sig. Sem í þessu tilviki er eitt og hið sama.

1,585