trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 05/05/2014

Dómarinn þurfti að giska

Hið svokallaða lekamál innanríkisráðuneytisins er auðvitað óhugnanlegt. Það virðist ekki aðeins augljóst að „minnisblaðinu“ sem í dag heitir „samantekt“ á vef ráðuneytisins hafi verið lekið til fjölmiðla beinlínis til að skaða málstað hælisleitanda, heldur má líka spyrja hvort þessar upplýsingar hafi kannski verið teknar saman í þeim eina tilgangi að leka þeim.

Hvort heldur er, þá er málið óhugnanlegt.

En handarbakavinnubrögð lögreglu og saksóknara eru öllu fremur fáránleg. Ég las margumræddan Hæstaréttardóm í dag og að sjálfsögðu líka þann úrskurð Héraðsdóms, sem til umfjöllunar var. Þar rak ég augun í þetta:

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 og a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 er varnaraðila óheimilt að upplýsa hver sé höfundur og heimildarmaður að framangreindri frétt hafi þeir óskað nafnleyndar. Miðað við málatilbúnað varnaraðila verður að ganga út frá því að það hafi þeir gert.

hafi þeir óskað nafnleyndar !!!

Varnaraðili er í þessu tilviki fréttastjóri á mbl.is og hefur bæði mætt til yfirheyrslu hjá lögreglu og síðar sem vitni í héraðsdómi. En það liggur ekki fyrir hvort blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina og heimildarmaðurinn hafi óskað nafnleyndar.

Það virðist sem sé alveg að hafa gleymst að spyrja þessarar einföldu lykilspurningar. Lögreglan gleymdi að spyrja, þegar fréttastjórinn mætti til yfirheyrslu. Saksóknarinn gleymdi líka að spyrja, þegar fréttastjórinn bar vitni.

Þegar svo kom að því að skrifa dóminn, þurfti dómarinn að giska. Og hann giskaði á að sennilega hefðu báðir óskað nafnleyndar.

Og þetta er ekki allt og sumt. Aðalástæða þess að héraðsdómarinn neitaði  saksóknara um að krefja fréttastjórann svara um blaðamann og heimildarmann, var sú að ekki hefði verið leitað allra leiða til að upplýsa málið með öðrum hætti. Saksóknarinn brást við þessu með því að yfirheyra sex manns til viðbótar og fór svo með málið til Hæstaréttar.

Hæstiréttur benti honum kurteislega á að snúa sér aftur til héraðsdómara, því hlutverk Hæstaréttar sé ekki „að leysa úr máli á fyrsta dómstigi.“

Vissulega varðar hvorugt þessara atriða meginefni lekamálsins. En þau eru þó alls ekki léttvæg. Við hljótum að gera þá lágmarkskröfu til reyndra saksóknara að þeir búi yfir örlítið meiri dómgreind og heilbrigðri skynsemi en þessi frammistaða sýnir. Þegar málatilbúnaður er með þessum hætti hljóta öll mál að ónýtast vegna formgalla.

Og ekki vil ég trúa að það sé með vilja gert.

Flokkun : Pistlar
1,582