Casino, já
Ég er ánægður að heyra af frumvarpi Willums Þórs Þórssonar um að lögleiða fleiri tegundir fjárhættuspila, þeas. að leyfa rekstur á því sem kallast „Casino“ í útlandinu, en hefur fengið það fjandsamlega heiti „Spilavíti“ á íslensku.
Ég kíki gjarnan í Casino á ferðalögum, þeas. þar sem það er hægt, tek frá litla upphæð og ýmist hætti þegar ég hef tapað, eða sem betur fer (og oftar) þegar ég er orðinn þreyttur og í góðum plús. Ég lít á þessa upphæð sem smágjald fyrir góða skemmtun. Þannig held ég að flestir nálgist það að mæta í Casino.
Þetta er ekkert hættulegt og þarna gildir enn gamli frasinn um hverjir koma óorði á „áfengið“. Auðvitað er spilafíkn þekkt vandamál og skelfilegt, en fyrir það fyrsta þá er það ekki næg ástæða til að setja bann á alla.. ekki frekar en með áfengi. Þeir sem eru í vandræðum með spilafíkn, þeir finna sér leiðir. Það eru hinir sem bannið bitnar á.
Þá erum við að tapa talsverðum skatttekjum, eins og á bannárunum, þegar allir brugguðu og drukku „bölvað sull“.
Ferðamenn sækjast gjarnan eftir því að komast í Casino og ég sé nú ekki almennilega hvers vegna við afþökkum tekjur frá þeim.
En aðallega hefur verið ákveðinn tvískinnungur varðandi „fjárhættuspil“. Það eru ýmsar tegundir í góðu lagi, happdrætti, bingó, getraunir, lottó, skafmiðar, spilakassar á börum… allt er þetta löglegt og leyfilegt. En Casion er bannað.
Það má kannski líkja þessu við að leyfa skyndibitastaði en banna úrvals veitingahús.
Þetta er eiginlega tómt rugl.
Ég á svo sem ekki von á að Willum verði mikið ágengt í þessari atrennu, hann þarf að yfirvinna útbreidda fordóma og vanþekkingu. En kannski kemst hreyfing á málið, mögulega verður umræða, hugsanlega skilar hún breyttu hugarfari.
- Vín í matvöruverslanir? Auðvitað - 12/07/2014
- Er þetta ekki mótsögn hjá forsætisráðherra? - 28/06/2014
- Heimskun stjórnmálanna, verri en fordómarnir? - 10/06/2014