trusted online casino malaysia
Valgerður Bjarnadóttir 10/08/2016

Breytum rétt

Varðhundar kerfisins og valdsins vilja helst engu breyta. Sumir þeirra átta sig á að því að krafan um breytingar er svo sterk að eitthvað verður undan að láta. Þegar þeir átta sig upphefst talið um hina víðtæku sátt. Aðrir eiga að nálgast þeirra sjónarmið og fallast á sem minnstar breytingar – það er víðtæk sátt.Alþingi

Við eigum að halda ótrauð áfram við að berjast fyrir því að þjóðinni verði sett ný stjórnarskrá. Þrjú eða fjögur ný ákvæði í stjórnarskrá eru ekki svar við vilja fólksins um að fá nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum stjórnlagaráðsins.

Ég á mér uppáhalds kafla í tillögum Stjórnlagaráðsins. Það er kaflinn um mannréttindi. Í honum eru félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi færð inn í stjórnarskrána. Það er sannarlega kominn tími til kveða upp úr með að fátækt samræmist ekki grunngildum þjóðarinnar. Það er sannarlega kominn tími til að skylda ríkisvaldið til að útrýma fátækt. Það er sannarlega kominn tími til að tryggja í stjórnarskrá réttinn til almannatrygginga, heilbrigðisþjónustu og menntunar.

Það er ekki hægt, segja einhverjir, það er of kostnaðarsamt. Auðvitað er hægt að útrýma hér fátækt og tryggja allt hitt, segi ég. Það er hægt með því að auðlindarentan renni til þjóðarinnar en ekki í vasa þeirra sem nýta þær. Það er hægt með því að þeir sem hafa hæstar tekjurnar borgi hlutfallslega mun hærri skatta en hinir. Það er hægt með því að stokka spilin og gefa upp á nýtt.

Það er stærsta og brýnasta verkefni næsta kjörtímabils að svara kröfum um nýja stjórnarskrá og um leið tryggja öllum þau réttindi sem manntréttindakafli frumvarps Stjórnlagaráðsins kveður á um. Við erum rík þjóð, við höfum efni á þessu. Nýtum auðlindarentuna í þágu fólksins í stað þess að hún renni í vasa útgerðarmanna og álfyrirtækja. – Fyrir því vil ég berjast.

 

 

 

 

 

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,330