trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 15/06/2014

Björn Ingi hlýtur að kófsvitna

Ritstjóri og útgefanda tveggja víðlesinna vefmiðla ætti að vera vandari að virðingu sinni en svo, að fara með fleipur. En  Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Pressunnar og Eyjunnar hamast svo við að bulla að maður ímyndar sér að hann hljóti að vera orðinn alveg kófsveittur.

Að sjálfsögðu er ég tala um meint „svik“ nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Á „Kaffistofu“ Pressunnar, pistli sem ætla verður að Björn Ingi skrifi, segir að þingmenn Samfylkingar og VG hafi gert harða hríð að ríkisstjórnarflokkunum fyrir að standa seint og illa við gefin loforð, eða svíkja þau og spyr því næst hvort fulltrúar þessara sömu flokka standi við sín loforð í Reykjavík:

Nei, það gera þeir sannarlega ekki. Tökum bara tvö dæmi. Samfylkingin lofaði að hækka Frístundakortið upp í 50 þús kr., en niðurstaðan í málefnasamningi nýs meirihluta er mun lægra Frístundakort. Og Vinstri græn lofuðu gjaldfrjálsum leikskóla. Niðurstaðan er útþynnt útfærsla á lækkun leikskólagjalda í nokkrum áföngum og systkinaafsláttur.

Ætlast þessi maður virkilega til að vera tekinn alvarlega?

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að gera sér ljóst, að ekki er hægt að setja samasemmerki milli orðanna „stefnumál“ og „loforð“. Þetta eru ekki samheiti. Stefnumál, sett fram fyrir kosningar, má þó stundum túlka sem kosningaloforð, en því miður aðeins í örfáum undantekningartilvikum. Til þess þarf annað af eftirtöldum skilyrðum að vera uppfyllt:

a) Flokkur sem setur fram ákveðið stefnumál, fær hreinan meirihluta.

b) Tveir eða fleiri flokkar, sem hafa báðir eða allir sett fram sama stefnumálið, ná meirihluta í kosningum og mynda stjórn.

Af þessu leiðir til dæmis að við getum ekki ásakað Framsóknarflokkinn um að hafa svikið það „kosningaloforð“ að veita 300 milljörðum í skuldaniðurfellingar. Flokkurinn fékk ekki hreinan meirihluta og þurfti við stjórnarmyndun að veita afslátt af þessu stefnumáli. Sjálfstæðisflokkurinn var nefnilega á móti. Þetta „stefnumál“ var því aldrei hægt að túlka sem „loforð“.

Og nákvæmlega hið sama gildir um fjögurra flokka meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Bæði Samfylkingin og VG þurftu að slá af stefnumálum sínum.

Björn Ingi Hrafnsson hefur sjálfur talsverða reynslu úr stjórnmálum, m.a. af myndun meirihluta í borgarstjórn. Einmitt þess vegna ætti að mega gera þá kröfu til hans, að hann fjalli um slík mál af einhverju skynsamlegu viti.

Enn það gerir hann ekki. Hann situr kófsveittur við að bulla.

Flokkun : Pistlar
1,277