trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 07/05/2014

Birgitte Nyborg og Frank Underwood

Þegar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur varð ljóst að trúnaðarskjal hafði lekið úr ráðuneyti hennar (ég kýs að gera ráð fyrir að hún hafi ekki vitað af því fyrirfram) átti hún tveggja kosta völ:Birgitte Nyborg

Hún gat hugsað eins og Birgitte Nyborg í Höllinni, komizt að hinu sanna í málinu, upplýst það og gripið til ráðstafana. Hún hefði næstum örugglega þurft að reka annan aðstoðarmann sinn eða báða. Það hefði verið sársaukafullt en nauðsynlegt, fyrir hana og heilbrigða stjórnarhætti. Aðstoðarmenn sem koma ráðherra í þá stöðu sem Hanna Birna er nú er ekki á vetur setjandi hvort eð er.

En Hanna Birna tók hinn kostinn: Hún hugsaði strax eins og Frank Underwood í Spilaborg, byrjaði að hylma yfir, fara undan í flæmingi, snúa út úr og beinlínis segja ósatt. Hún ætlaði – og ætlar greinilega enn, miðað við forherðingu síðustu daga – að taka þetta á hnefanum, í von um að eitthvað gerðist, málið gleymdist, allir yrðu leiðir á því. Setja undir sig hausinn og þrauka.

Í því hefur hún staðið í hálft ár. Í hvert sinn sem hún tjáir sig spinnur hún nýjan þráð og flækist fastar í eigin vef.

Hanna Birna er nefnilega enginn Frank Underwood og lífið er ekki sjónvarpshandrit.

———-

Vegna þess að þetta er þriðji pistill minn í röð um þetta mál finnst mér nauðsynlegt að bæta við: Sú skoðun, að Hanna Birna eigi að víkja snýst ekki um hana persónulega. Hún gildir um hvaða ráðherra sem er, sem hefur komið sér í þessa stöðu.

Og nei: Hún snýst heldur ekki um að Hanna Birna sé í Sjálfstæðisflokknum. Það er sálardrepandi að hugsa svo smátt. Ég tók sjálfur þátt í því að koma flokksbróður mínum úr embætti fyrir allmörgum árum. Hann kunni mér engar þakkir fyrir, en kom út úr því máli sterkari en áður.

Sömuleiðis ráðlagði ég persónulegum vini mínum, Björgvin G. Sigurðssyni, að víkja þegar aðstæður voru þannig. Fyrst sem ráðherra, síðar sem þingflokksformaður, loks sem þingmaður. Ekki af því að hann væri sekur um eitthvað, heldur af því að pólitískar aðstæður voru þannig.

Hann var sammála í öll skiptin. Hann var sannfærður um að það væri nauðsynlegt fyrir heilbrigð stjórnmál að fólk viki til hliðar þegar aðstæður krefðust, óháð persónulegum hagsmunum þess sjálfs. Hann gat ekki látið aðrar reglur gilda um hann sjálfan en hann vildi að giltu almennt.

Öfugt við til dæmis Davíð Oddsson – naglaförin sjást enn á útidyraþröskuldi Seðlabankans eftir að hann var dreginn þaðan út.

Og því hef ég nú skrifað þrjá pistla í röð um afsögn Hönnu Birnu. Ekki af því að mér sé í nöp við hana persónulega – þvert á móti raunar – heldur vegna þess að við þurfum á heilbrigðum stjórnarháttum að halda og íslenzk stjórnmál verða að lúta eðlilegum lögmálum, ekki geðþótta og persónumati.

Og við þurfum fleiri stjórnmálamenn sem hugsa eins og Birgitte Nyborg, ekki eins og Frank Underwood.

2,520