Bellibrögð
Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra hefur verið að pukrast við það síðan í febrúar að færa einkafyrirtækinu, Tækniskólanum – Skóla atvinnulífsins – Fjölbrautarskólann við Ármúla (FÁ) að gjöf. FÁ er vel rekinn og rómaður skóli.
Ráðherrann var í útlöndum þegar upp komst um brallið. Þá dreif hann sig heim, byrjaði að tala, var óðamála og sagði að sér þætti „miður“ að umræða væri hafin um málið; hún væri „ótímabær.“ Morgunblaðið, mbl.is, hefur það eftir honum „að það væri ekkert lögmál að reyna að sameina skóla sem væru smærri. Sóknarfærin gætu legið í að taka öflugar stofnanir og sameina þær. Hann lagði áherslu á að eftir því sem nemendurnir séu færri í skólum því meiri séu erfiðleikarnir. Námsframboðið fyrir nemendurna verði fyrir vikið ekki eins gott.“
Samkvæmt þessari djúpvisku er ekki gott, og reyndar, ástæðulaust að sameina það sem smátt er í sniðum og laga til þar sem allt er haugfullt af erfiðleikum. Það á ekki að gera og alls ekki þegar „að sameina“ merkir að gefa, færa að gjöf. Maður með reisn gefur vinum sínum ekkert slor; hann gefur besta bitann (og hiklaust þegar hann á hann ekki einn og sjálfur).
Og hann sagði ýmislegt annað, ráðherra menntamála, nýlentur. Til dæmis lét hann allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vita af yfirburðar þekkingu sinni á „sameiningar“málinu og afleiðingum þess, og greindi henni frá því að kennarar og annað starfsfólk FÁ myndu ekki vera opinberir starfsmenn af sameiningu yrði þar sem Tækniskólinn er einkarekinn.
Það hefur verið líkt og að horfa á farsa að fylgjast með framgöngu ráðherrans í þessu máli, en jafnframt sorglegt að hugsa til þess að höfundur texta og aðalleikari í skrípaleiknum fær laun úr ríkissjóði fyrir að vera sverð og skjöldur íslenskrar menningar.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020