trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 12/05/2014

Bara vinstri flokkar í framboði

Það var nokkuð skemmtilegt að sjá kynningu RÚV á framboðum til borgarstjórnar í Reykjavík í sjónvarpsfréttunum. Ef ég vissi ekki betur, hefði mér í fljótu bragði sýnst (og heyrst) að allir forystumennirnir væru vinstra megin við miðju og enginn valkostur fyrir hægri sinnaða kjósendur.

Þannig ætla sjálfstæðismenn að setja „nemandann í fyrsta sæti“ (sem kostar peninga), „koma á þjónustutryggingu til að leysa biðlistavandamál barnafjölskyldna“ (sem kostar peninga) og „bæta þjónustu við eldri borgara“ (sem kostar líka peninga).

Hjá Halldóri Halldórssyni fylgir svo sá gamalkunni frasi að „lækka skatta“. Við fáum ekki að vita fyrr en eftir kosningar hvaða skatta á að lækka. En miðað við frammistöðu Sjálfstæðisflokkisins í landsmálum og afnám veiðigjalda auðmanna, má kannski gera ráð fyrir að fasteignagjöld verði felld niður af einbýlishúsum sem eru stærri en svo sem 400 fermetrar. Það væri vissulega skattalækkun.

Framsóknarmenn „vilja meira aðgengi að leigumarkaði“ (hvað sem það nú merkir) og þeir vilja líka „styðja við þjónustu í úthverfum“ (sem kostar peninga) og svo á „að forgangsraða í þágu skóla og menntamála“ og „gera sameiginlegt átak í lestrarkennslu“ (sem hvorugt er ókeypis).

Erfiðast er að staðsetja Pírata hinni klassísku vinstri-hægri línu. Þeir tala lítið um tekjur eða útgjöld, en virðast hafa mikinn áhuga á ýmsu, sem flestir ættu að geta tekið undir að beri að telja til grundvallarmannréttinda. Björt framtíð fylgir reyndar fordæmi Besta flokksins og Björn Blöndal nefndi „birtu en ekki myrkur“ og „framþróun en ekki afturhald“.

Þótt hinir hefðbundnu vinstri flokkar séu vinstri sinnaðir í málflutningi, ætti það ekki endilega að koma á óvart.

En það er óneitanlega alltaf jafn sérkennilegt, að sjá Sjálfstæðisflokkinn sýna vinstri lófann, þéttskrifaðan útgjaldaloforðum fyrir kosningar. Á því er þó einföld skýring. Vinstri málin eru nefnilega mun fallegri. Það hljómar ljómandi vel í kosningabaráttu að „bæta þjónustu við eldri borgara“.

Hægri lófi Halldórs er lokaður og verður ekki sýndur fyrr en eftir kosningar.

Flokkun : Pistlar
1,327