trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 01/03/2016

Ási skiptir um skoðun

Það er alltaf þroskamerki þegar fólk skiptir um skoðun að athuguðu máli.Ásmundur Friðriksson

Ásmundur Friðriksson alþingismaður hefur áður lýst þeirri skoðun, að múslimistar séu líklegri en aðrir til að vera glæpamenn, gott ef ekki morðingjar. Þess vegna ættum við helzt ekki að hleypa slíku liði til landsins.

Fyrir skömmu gerðist það svo, að einhver útlendingur sem hefur beðið í óratíma eftir niðurstöðu í mál sitt hjá Útlendingastofnun, hótaði að kveikja í sér.

Þá brá Ása. Hann ítrekaði þá skoðun sína á alþingi í dag, að líklega væri réttast að loka landamærunum svo að við værum laus við svona óþægilegt fólk.

Ókei – hann hefur strangt til tekið ekki skipt um skoðun, en hann hefur skipt um röksemdafærslu. Í bæði ræðunni og útvarpsviðtali í dag tók hann sérstaklega fram að það væri illa farið með fólk, að láta það bíða svona lengi á milli vonar og ótta. Slíkt sé ekki mannúðleg meðferð og þess vegna sé líklega rétt að loka landamærunum.

Í stað fáfræði og ótta við hið ókunna, sem áður stýrði hugsun hans, ræðst skoðun Ásmundar nú af manngæzku og samúð með blessuðum útlendingunum.

Því ber að fagna, eins og öllu góðu í mannlífinu.

Sérstaklega ef Ási stígur nú skrefinu lengra og dregur rétta ályktun af eigin mannelsku: Væri kannske affarasælla að hætta að níðast þannig á þeim, sem leita aðstoðar okkar, að þeim þyki dauðinn jafnvel illskárri kostur en meðferðin sem þeir sæta?

Ég efa ekki eitt andartak að Ásmundur Friðriksson kemst að þeirri niðurstöðu, þegar hann hefur hugsað málið.

Er það ekki annars?

2,198