trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 17/01/2016

Arkitektarnir ljúga

Dragið nú djúpt andann. Nokkrum sinnum. Notið þindina.

Ég er sammála forsætisráðherra. Hana. Ég er búinn að segja það. Mér líður betur. Lofa samt hátíðlega að segja ekkert viðlíka aftur á þessu kjörtímabili.

En ég er sumsé sammála Sigmundi Davíð og fleirum um hryllinginn sem á að byggja við hliðina á tollhúsinu í miðbænum. Þessi óskapnaður er það næstljótasta sem til verður í borginni. Aðeins svörtu skrímslaturnarnir við Skúlagötu eru verri. Meiraðsegja Moggahöllin verður þolanleg í samanburði.

Þetta er vitaskuld smekksatriði, en ég hef engan heyrt segja að þetta hús sé fallegt. Ekki nokkra sálu, þvert á móti. Samt verður það byggt, af þeirri kerfisnauðhyggju sem virðist innbyggð í ákvarðanir í skipulagsmálum.

Í þessu máli eins og flestum svipuðum afhjúpast þó ein staðreynd, sem aldrei kemur til umræðu: Arkitektar eru ósannindafólk með eindæmum.

Virðið fyrir ykkur myndina af húsinu. Henni er væntanlega ætlað að gefa raunsanna mynd af byggingunni og hvernig við munum upplifa hana. Það er hins vegar tómt fals og þvæla.Hafnartorg

Skoðum myndina betur. Þar er auðvitað sólskin. Það er alltaf sólskin á myndum arkitekta. Við vitum samt að stemmningin, sem þeir lýsa, myndast í borginni sirka tíu sinnum á ári.

Þetta sólskin er þó óvenjulegt að því leyti, að sólin skín úr norðvestri. Myndin er semsagt „tekin“ um hánótt að sumri til, líklega milli klukkan fjögur og fimm, mjög nálægt sumarsólstöðum.

Samt er fullt af fólki þarna, gott ef ekki barn líka. Hvað er þetta fólk að gera í miðbænum um hánótt? Er það allt að koma af barnum?

Til hægri á myndinni er léttklædd kona að taka mynd, líklega af þessu húsi sem er svona líka fallegt. Flestir aðrir eru léttklæddir í sólinni. Nema fólkið lengst til vinstri. Það er í skugga og er kappklætt eins og á rigningarhaustdegi. Hvaðan kemur þessi skuggi og kuldinn? Gleymdist að klæða fólkið úr úlpunum?

Næsta fals: Það virðast vera kveikt ljós í öllum húsum, sérstaklega nýja fína húsinu, en líka gamla ljóta strætóskýlinu og Útvegsbankabyggingunni, nú héraðsdómi. Hvorir tveggju eru í reynd drungalegir kumbaldar, en á myndinni eru þessi hús beinlínis lífleg og bjart yfir þeim.

Spurning: Hvers vegna er ljós í öllum gluggum í sólskini um hásumarnótt? Er einhver að vinna þar á þessum tíma? Hefur héraðsdómi verið breytt í næturklúbb?

Ef þetta eru ekki rafmagnsljós er vitaskuld hugsanlegt að sólin speglist svona fallega í gluggunum. U – nei. Hún skín nefnilega úr hinni áttinni. Gluggarnir ættu að vera gráir og í skugga.

Nema náttúrlega að nýja, glæsilega byggingin varpi slíkri birtu og ljóma yfir umhverfi sitt að dimmir steinkassar verði sjálfkrafa svipljósir og fallegir. Það er eina mögulega skýringin og enda sú eina sem meikar einhvern sens.

Svona hundakúnstir arkitekta í söluskyni fyrir ljótar tillögur (og önnur dæmi eru legíó) eru einmitt það sem fær mann með öðru til að gera það sem annars væri óhugsandi. Í þessu tilviki að vera sammála forsætisráðherra.

Þið megið fara í slökunarjóga núna.

1,563