trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 07/03/2016

Af því að Jón Baldvin sagði það

Það er langt síðan hægri menn hafa hrósað Jóni Baldvin svona mikið og innilega.Jón Baldvin

Ástæðan er þau ummæli hans á morgunvakt Óðins Jónssonar, að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópusambandið sem stendur. Fyrst þurfi að slökkva eldana í því brennandi húsi.

Athyglisvert. Skoðum þetta aðeins.

Fyrst þó þetta: Andstæðingar aðildar hafa í dag notað ummæli Jóns Baldvins sem einhvers konar lokaröksemd í málinu, að nú sé ekkert frekar um að tala og við getum hætt þessu þrasi um aðild að Evrópusambandinu.

Af því að Jón Baldvin sagði það.

Merkilegt. Ég minnist þess ekki þegar Jón var sem ákafastur talsmaður ESB-aðildar, að þessir hinir sömu hafi verið það líka. Af því að Jón Baldvin sagði það. Þvert á móti. Þeir voru sömu skoðunar þá og nú. Meint ást þeirra á Jóni nú er hrein hentugleikaskyndikynni.

„Af því að Jón Baldvin sagði það“ er nefnilega ekki nothæf röksemd um þetta mál eða önnur. Skoðun hans er forvitnileg og athyglisverð, en ekki ígildi heilagrar ritningar.

[Hér er fróðleiksmoli utan dagskrár: Jón Baldvin er ekki fyrstur til að líkja ESB við brennandi hús. Í forsetakosningum fyrir fjórum árum taldi Þóra Arnórsdóttir (réttilega) að forsetinn ætti ekki að gefa opinberlega upp afstöðu sína til stórmála á borð við aðild að ESB. Þjóðin ætti að fá að taka afstöðu í friði. Ólafur Ragnar hélt hins vegar áfram að pönkast á henni þangað til hún gafst upp og sagði: „Maður leigir ekki íbúð í brennandi húsi“ og átti við aðild Íslands að ESB. Frasinn er kominn frá Bjarna Benediktssyni. Þið megið draga af því hvaða lærdóm sem þið viljið. Eða engan.]

Ummæli Jóns eru forvitnileg en ófullnægjandi, vegna þess hve þau voru illa rökstudd. Ég efa ekki að Jón gæti fært gleggri rök fyrir máli sínu, en það gerði hann ekki í morgun.

Gefum okkur samt að Evrópusambandið sé brennandi hús og hugleiðum svo þetta:

Jón Baldvin var óþreytandi fyrr á árum að benda á þá staðreynd, að fyrrum austantjaldsríki voru eldfljót að sækja um aðild að Evrópusambandinu eftir að Sovétríkin féllu.

Fyrir því voru ekki aðeins efnahagslegar ástæður, heldur einnig og ekki síður pólitískar. Þessi ríki vildu tryggja pólitískt sjálfstæði sitt og fullveldi með aðild að mesta lýðræðis- og friðarbandalagi sögunnar. Og það gerðu þau í löngum röðum, frelsinu og sjálfstæðinu fegin.

Eru þess einhver merki núna að þessi nýfrjálsu ríki vilji ganga úr Evrópusambandinu? Ef ekki, hvernig má svo vera, úr því að sambandið er sem brennandi hús?

Líður þeim bara dægilega í miðju reykjarkófinu? Eða vita þau sem er, að þau væru verr stödd efnahagslega og pólitískt utan dyra? Ég hygg að flestir forystumenn þeirra myndu svara játandi.

Svo er nú hitt: Við erum nú þegar að mestu leyti í Evrópusambandinu, höfum reyndar hvorki rödd né atkvæðisrétt. Fróðlegt væri að heyra Jón Baldvin lýsa því, hvernig staða okkar breyttist, hvernig við fyndum eldinn brenna heitar á okkur, með fullri aðild? Er nokkuð ósennilegt að breytingin yrði minni en lýsingar hans benda til?

Að lokum er rétt að halda því til haga, hægri mönnum til hugarangurs, að Jón Baldvin útilokaði í morgun ekki aðild Íslands að ESB. Hann sagði hana ekki skynsamlega „núna.“ – „Slökkvið fyrst eldana,“ bætti hann við.

Ég er samt ekki viss um að vinir mínir á hægri vængnum haldi því atriði mjög á loft, né heldur að þeir bæti við af mikilli innlifun:

„Af því að Jón Baldvin sagði það.“

1,858