trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 14/08/2014

Af heiðingjum og bænunum þeirra

Fyrir allmörgum árum átti ég gyðingastúlku að kærustu. Það olli móður minni nokkrum heilabrotum, ég segi ekki hugarangri. Þó bara um stund.Menorah

Hún kom með mér hingað heim í jólafríi úr háskólanum og við gistum auðvitað heima hjá mömmu. Og sumsé – á svipuðum tíma og við höldum jólin (og höfum gert síðan löngu áður en kristnin kom til sögunnar) halda gyðingar sitt Hanukkah, ljósahátíðina. Þeirri serimóníu fylgir allajafna níu arma kertastjaki, þar sem kveikt er á einu kerti hvert kvöld sem hátíðin varir.

Þegar kveikt er á kertunum er farið með þar til ortar bænir eða blessanir, eftir ákveðnum reglum. Og þar kom vitanlega í jólafríinu á Íslandi, að Miriam dró úr pússi sínu forláta menorah-kertastjaka, setti hann upp inni í herbergi, kveikti á fyrsta kertinu og fór með fallega bæn á hebresku.

Mamma var hins vegar alin upp í Breiðdalnum á fyrri hluta síðustu aldar í kristnum og þjóðlegum sið. Hún hafði aldrei heyrt hebresku og ekki vissi hún margt um siði gyðinga, þrátt fyrir farkennsluna í dalnum.

Viðbrögð hennar voru því ósköp eðlileg, þegar hún heyrði þessa dökkbráu ungu konu fara með óskiljanlega kokhljóðaþulu yfir kerti í undarlegum stjaka og það á sjálfri aðventunni. Hún spurði einfaldlega:

„Kalli minn – er hún heiðingi?“

Svarið gat bara verið eitt: „Já, mamma mín. Hún er heiðingi.“

Mamma tók þessum tíðindum vel. Það var eins og hún skildi konuna betur, þegar hún hafði fengið samhengið.

Enn betur náðu þær saman tungumálalaust þegar Miriam heimtaði að fara í messu í Hallgrímskirkju á aðfangadag. Hún hafði aldrei verið við kristna messu og vildi endilega upplifa það, en ekki síður líka skilja þessa þjóð soldið betur í leiðinni.

Ég bölvaði, en lét vitaskuld undan og þurfti að sitja undir útleggingum prestsins á því að gamlar þjóðsögur úr suðurlöndum um eingetið barn, engla og mann sem gekk á vatni – að þær fantasíur væru ástæða þess að við héldum jólin.

En stúlkan var frá sér numin yfir Hallgrímskirkju og söngnum. Svo fórum við heim og snæddum hamborgarhrygg.

———-

Þessi minningabrot rifjuðust upp fyrir mér þegar ég frétti að taka ætti Orð kvöldsins og morgunbænina af dagskrá Rásar eitt. Þetta hefur verið á dagskrá lengur en ég man eftir mér og verið hluti af menningarheimi okkar. Ég er algerlega trúlaus, en mér hefur þótt notalegt að hafa Orð kvöldsins suðandi eftir tíufréttir. Það hefur verið hluti af því að vera til.

Fyrir því má færa rök, að við búum í veraldlegu samfélagi og að ríkisfjölmiðill eigi ekki að mismuna trúarbrögðum með þessum hætti (og enn síður með útvarpsmessunum). Það eru gild rök, en þau eru án menningar- og sögulegs samhengis. Kristnin hefur verið með okkur í þúsund ár og ræður enn fjölmörgu í daglegu lífi okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr, og Ríkisútvarp sem endurspeglar það ekki almennilega stendur ekki undir nafni.

Dagskrárstjórinn notaði að vísu ekki veraldlegu rökin þegar hann útskýrði ákvörðun sína. Hann sagði þessa dagskrárliði trufla taktinn í dagskránni og að hlustun hefði verið lítil. Það eru ekki góð rök.

Í huga marga hafa morgunbænin og Orð kvöldsins einmitt verið fasti takturinn í dagskránni, rétt eins og morgunleikfimin og hádegisfréttirnar (sem eru raunar á furðulegum tíma, 12:20, en vonandi reynir enginn rúðustrikari að breyta því).

Og það eru einmitt ein rökin fyrir tilvist Ríkisútvarpsins, að það sendi út efni ekki af því að endilega sé mikið hlustað á það, heldur af því að efnið hafi gildi í sjálfu sér. Það er vitanlega smagsag hvort dagskrárliðirnir tveir, sem hér eru nefndir, hafa slíkt gildi, en trúlega svara flestir þeirri spurningu játandi. (Það vekur óneitanlega athygli mína að formaður Félags múslima á Íslandi undrast þessa breytingu á dagskránni.)

Þess vegna er þetta vond breyting.

———-

Við mamma skildum ekki orð af bænaþulunum sem Miriam fór með þarna á aðventunni. Það gerði hún sjálf ekki heldur nema stöku orð. Hún er bandarísk, komin af rússneskum gyðingum, skilur ekkert í hebresku og borðaði hamborgarhrygginn með beztu lyst.

En henni höfðu verið kenndar þessar bænir, rétt eins og okkur var kennt Faðirvorið. Kunni þær utanbókar án þess að skilja þær. Hún kveikti á kertunum og fór með þulurnar af því að hún bar virðingu fyrir menningu og arfleifð forfeðra sinna, þótt hún praktíseraði ekki trúarbrögð þeirra. Það þótti okkur mömmu fallegt, notalegt og hlýlegt.

Rétt eins og okkur mörgum þykir morgunbænin og Orð kvöldsins hlýlegt og notalegt efni og nánast órjúfanlegur hluti af menningararfinum, þótt við séum ekki endilega kristin.

Alveg er ég sannfærður um að heiðinginn hún Miriam væri okkur sammála.

1,331