trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 11/03/2016

Aðdragandi stofnunar ASÍ

Hið rígbundna skipulag íslenska bændasamfélagsins allt frá landnámi til loka nítjándu aldarinnar varð til þess að hér á landi var nánast engin fólksfjölgun og stöðnun í samfélagslegri þróun. Þessi harða afstaða kom í veg fyrir að hér á landi mynduðust þéttbýliskjarnar með sama hætti og annarsstaðar í Evrópu. Á þessum tímum einkenndist saga Íslands ekki af baráttu milli góðra Íslendinga og vondra erlendra manna, eins og gjarnan hefur verið haldið fram og áberandi í kennslubókum Jónasar frá Hriflu, sem kenndar voru í öllum skólum landsins fram eftir síðustu öld. kröfuganga

Þar er kúgun Dana á íslensku þjóðinni mjög orðum aukin, svo ekki sé meira sagt. Almenningur á Íslandi var síður en svo verr leikinn af yfirvöldum stjórnvaldsins í Kaupmannahöfn en alþýðufólk í Danmörku. Við vorum reyndar heppin að við glímdum við Dani í sjálfstæðisbaráttunni en ekki Breta. Danir beittu t.d. aldrei sömu grimmd í stjórnarháttum sínum og aðrar nýlenduþjóðir. Hér var enginn hengdur vegum Dana, svo dæmi sé nefnt. Bretar fóru t.d. ákaflega illa með Íra og tóku marga þeirra af lífi til þess að halda uppi aga. Hér tíðkuðust hins vegar bréfaskriftir við stjórnvaldið í Danmörk, sem jafnvel stóðu áratugum saman.

Það var íslensk yfirstétt sem kúgaði íslenska alþýðu. Bændur sem voru nánast einu vinnuveitendurnir á Íslandi í aldaraðir. Einungis innan við 2% landsmanna unnu við annað en bústörf, en það fer fyrst að breytast eitthvað undir lok 19. aldarinnar. Bændur sem bjuggu fjarri sjó sendu vinnumenn sína á vertíð til róðra hjá sjávarbændum. Kaup vinnumannsins var oftast ekki annað en hálfur hlutur. Það var það eina sem hann fékk fyrir þrældóm sinn allt árið, þ.e.a.s. helminginn af því sem hann aflaði yfir tveggja mánaða vertíð. Allur annar ágóði af vinnu hans, fyrir utan fæði og húsnæði, rann óskiptur í vasa húsbóndans. Vinnumenn voru sendir á vetrarvertíð og voru þar oftast fram að Jónsmessu eða fram að slætti. Þetta fyrirkomulag gerði vinnumenn að þrælum og var aðalorsök þess að þeir flýðu úr sveitinni strax og einhver tækifæri buðust, eins og fara til vesturheims. Einnig þegar  þilskipum tók að fjölga. Vinnuveitendur í þorpunum við sjávarsíðuna voru oftast verslunarfyrirtæki sem ráku eigin útgerð eða útvegsbændur.

Dönsk stjórnsýsla sendi til Íslands á 19. öld konunglegar tilskipanir og fyrirmæli í lagaformi um ýmislegt sem snerti lagfæringar á aðbúnaði verkafólks, en íslenskir bændur börðust gegn þessum umbótum af fullri hörku. Fyrsta skrefið var konungleg tilskipun um hjúalög árið 1866. Í þeim voru lögfest ýmis ákvæði til öryggis og verndar vinnuhjúum. Þessi lög voru loks samþykkt 23. maí 1886 eftir 12 ára andstöðu bænda á Alþingi sem töldu að hér væri vegið harkalega að þeirra tilvist.

Bændur héldu því fram að aukið sjálfræði alþýðufólks myndi hafa í för með sér vaxandi lausung. Leikreglurnar í íslensku samfélagi báru allar þess glögg merki að staða bóndans gegn hjúaliðinu er þar fyrst og síðast varin undir þeim formerkjum að kenna þyrfti alþýðunni reglusemi, iðni og hrekja í burtu leti. Lausamennska og þurrabúð þar sem verkamaðurinn væri sjálf sín herra myndi einungis leiða til þess að hann temdi sér svall, eyðslusemi og leti og lenti síðan á sveitinni með auknum álögum á bændur. Á þessum vettvangi var einnig barist gegn því að fátækt fólk gæti gift sig án afskipta bænda og valið sér starf og búsetu að eigin geðþótta.

Danskir ráðamenn voru boðberar nýrra hugmynda og frjálslyndari viðhorfa til frelsis einstaklingsins. Þeir voru í því hlutverki að þröngva lýðfrelsi upp á Íslendinga, oft við hávær mótmæli ráðandi afla hér á landi. Prentfrelsi, trúfrelsi og ýmisleg önnur frelsun kom óumbeðin frá Dönum. Reyndar var þetta svona alla síðustu öld, íslensk stjórnvöld voru ætíð langt á eftir með að innleiða lög og reglugerðir sem tryggðu og bættu stöðu verkafólks. Má þar t.d. benda á stöðuna í dag þar sem Ísland eru ávalt í skammarkróknum með innleiðingu reglna frá EES.

Uppsagnir í stað vistarbandsins

Hugmyndir um frelsi einstaklingsins og frjálslyndi ruddu sér til rúms í lok 19. aldarinnar. Sr. Arnljótur Ólafsson var einn helsti boðberi þessara hugmynda hér á landi og flutti um það margar ræður árið 1861, þá nýkominn heim úr hagfræðinámi við háskólann í Kaupmannahöfn og sá þann mikla mun sem var á danskir samfélagsþróun og hinni íslensku. Hann sagði að samkvæmt „þjóðmegunarfræðinni“, eins og hann nefndi hagfræðina, væru ónauðsynlegar vörur ekki til. Það sem fólk vildi kaupa væru augljóslega nauðsynjar hverju sinni, og enginn væri þess umkominn að rengja þá skoðun. Arnljótur gaf lítið fyrir þá hræðslu að allir lausamenn legðust í leti og ómennsku ef bændur slepptu af þeim takinu og losað væri um vistarbandið. Hann spurði : „Er það hið rétta eðli mannsins, að vera latur og ónytjungur?“ og Arnljótur svaraði sjálfur „Allir hefðu hvöt til þess að bjargast, jafnvel að verða ríkir.“ Samþingmenn hans úr bændastétt fórnuðu höndum og sögðu þetta væri innantómt fjas í Arnljóti og hér væri hann augljóslega að misnota menntun sína.

Þegar litið er til þéttbýlismyndunar hér á landi og atvinnubyltingar í kjölfar tæknibyltingar í sjávarútvegi er stundum erfitt á sjá hvernig hún tengist sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, eins og haldið var fram í íslenskum kennslubókum. Ljóst er að Alþingi studdi ekki við þessa þróun til að byrja með. Þar voru bændur ráðandi afl og reyndu ítrekað að koma í veg fyrir fólksflutninga í þorpin við sjávarsíðuna. Þeir vildu viðhalda hinu aldagamla íslenska fyrirkomulagi þar sem almenningi var gert erfitt að flytja úr sveitunum og stofna heimili í þéttbýliskjörnunum sem voru að myndast með strönd landsins undir lok 19. aldarinnar.

Vistarbandið – ófrelsisákvæðið – var afnumið með lögum 2. febrúar 1894. Ný hjúalög voru sett árið 1928. Þar eru settar reglur um aðbúnað og kaupgreiðslur hjúa og ýmis atriði til að tryggja þeim betra atlæti. M.a. segir í 7. gr. hjúalaganna frá árinu 1928, en þau lög eru enn í gildi, að húsbóndi skuli veita hjúi sínu viðunandi og nægilegt fæði og rúmfatnað, ennfremur að hjúi væri ekki skylt að sofa í rúmi með öðrum. Hjú eigi rétt á að fá hreina rekkjuvoð eða lök í rúm sitt einu sinni á mánaðarfresti og hreint handklæði einu sinni í viku. Í frístundum sínum á vetrum skuli hjúi fengin dvöl í viðunandi hlýju herbergi.

Seinni hluta nítjándu aldar fer að renna upp fyrir bændum að vistarskyldan sé þeim líklega ekki eins hagstæð og útvegsbændur og bændur inn til landsins höfðu talið. Talsmenn þessarar stefnubreytingar bentu á að í vistarbandinu væri staða verkafólks alltof trygg. Ófrelsisákvæðið var nefnilega tvíbent að því leiti ekki mátti reka verkafólk úr vistinni sama á hverju gengi. Þetta verður til þess að þeim bændum fer því að fjölga sem telja að lausamenn yrðu duglegri þegar hægt væri að hóta þeim með fyrirvaralausum brottrekstri. Hábjargræðistíminn yfir sumarið var stuttur og af honum hafði bóndinn ágóða, en um veturinn vantaði arðbær verkefni og var bændum kostnaðarsamt að þurfa að standa undir þeirri skyldu að framfleyta verkafólki eftir sláturtíð og fram á vor. En þrátt fyrir að vistarbandið væri afnumið með lögum í febrúar 1894, viðgekkst arðránið áfram og það átti eftir að kosta mikla baráttu verkafólks að ná fram réttindum sínum og breyta viðhorfum samfélagsins.

Hugmyndafræðilegur grundvöllur verkalýðsbaráttunnar

Sósíalisminn varð fræðilegur grundvöllur í baráttu verkalýðsins í sókn hans gegn auðvaldsskipulaginu. Grunnvallarhugsunin var að tryggja aö vinnuaflið væri selt á markaðsverði á hverjum tíma og efla stéttarvitund verkamanna. Stofnuð voru samtök sósíalista, sem síðar urðu að Alþjóðasambandi verkalýðsins, eða Internasjónalnum, árið 1864. Marx mótaði stefnu sambandsins og boðaði að auðvaldsskipulagið væri hemill á framleiðslunni. Andstæður yrðu skarpari milli auðvalds og öreigalýðs og aðeins þjóðfélagsbylting gæti bjargað því samfélagi frá efnahagslegu hruni. Aðeins verkalýðshreyfingin sem upplýst fjöldahreyfing gæti haft forystu í slíkri byltingu. Það má hæglega bera þessar kenningar saman við þróun fjölþjóðafyrirtækjanna og stöðu verkalýðsins á hinum alþjóðlega vinnumarkaði.

Alþjóðasambandið hafði veruleg áhrif á mótun og grunnvallar skipulag í uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar og þeirra stjórnmálaflokka sem henni voru tengdir. Eitt mikilvægasta baráttumál Alþjóðasambandsins var að berjast gegn hvers konar stríðsrekstri. Almenningur hefði ávallt verið fórnarlamb stríðreksturs auðvaldsins. Verkalýðurinn ætti að standa saman í alþjóðlegu allsherjar verkfalli ef valdhafar ætluðu sér í stríð og hafna alfarið að gegna herþjónustu.

Sambandið stóð í mestum blóma fram undir árið 1870. Þá kom til styrjaldar milli Þjóðverja og Frakka þar sem samherjum í verkalýðsstétt var stefnt saman og þær bárust enn einu sinni á banaspjótum. Þar brugðust flokkar Alþjóðasambandsins stefnu sinni þegar á reyndi. Frakkar biðu algjöran ósigur í ársbyrjun 1871. Í mars tóku verkamenn í Parísarkommúnunni völdin og fengu stuðning frá Alþjóðasambandinu, það er í fyrsta skipti sem almúganum tekst að mynda samfélag þar sem hann velur þá sem fara með öll völdin, en frönsk stjórnvöld gengu síðan milli bols og höfuðs á kommúnunni og á einni viku í maí voru allt að 30 þúsund manns teknir af lífi. Þetta var mikið áfall fyrir Alþjóðasambandið og það leið undir lok árið 1876.

Vélvæðing útgerðar

Í upphafi síðustu aldar verður formgerðarbreyting á íslensku þjóðfélagi á tiltölulega skömmum tíma, örskömmum, sé það borið saman við þá kyrrstöðu sem staðið hafði hér á landi öldum saman. Hér á ég við þær breytingar sem verða á atvinnuháttum og kenndar hafa verið við iðnbyltinguna. Íslenska iðnbyltingin var nálægt 60 árum á eftir iðnþróuninni í nágrannalöndum okkar. Vélvæðing íslensks sjávarútvegs hófst þegar vél var sett um borð í sexæringinn Stanley á Ísafirði haustið 1902. Áratug síðar voru vélbátar orðnir 406. Upphaf togaraútgerðar hófst með togaranum Coot frá Hafnarfirði árið 1905, sama ár og sæstrengurinn er lagður til Seyðisfjarðar. Sjö árum síðar áttu landsmenn 20 togara, árið 1928 áttu Íslendingar 28 togara.

Þann 24. júní árið 1901 undirrituðu Bille sendiherra Dana á Bretlandi og utanríkisráðherra Breta, Lansdowne lávarður, samning um þriggja mílna landhelgi undan ströndum Íslands og þá firði og flóa þar sem skemmra var á milli annesja en tíu sjómílur. Á Íslandi var samningurinn talinn tákna uppgjöf og ósigur dönsku stjórnarinnar í landhelgismálinu. Danir hafi síðan reynt að fela niðurlæginguna með því að pukrast með samninginn, því það liðu um tvö ár þangað til samningurinn var gerður opinber, með auglýsingu í stjórnartíðindum. Á þessum árum var mikill fjöldi erlendra fiskiskipa við landið og talið er að árið 1907 hafi þau veitt helmingi meiri afla úr sjó en íslensk skip.

Vélvæðing sjávarútvegsins markaði upphaf atvinnubyltingar á Íslandi. Sæstrengur er lagður yfir hafið og tengir þjóðina við útlönd árið 1906. Hann er ein megin forsenda þessarar byltingar, því með honum komast á eðlileg viðskiptasambönd og verslunin flyst inn í landið. Á sama tíma margfaldast sjávarafli að tonnum og verðmæti. Erlent fjármagn bauðst og með því sköpuðust tækifæri fyrir hinn iðjulausa skríl á mölinni í Reykjavík. Hetjur íslenskrar iðnbyltingar voru ekki síst þessi fyrirlitni lýður sem fluttist úr sveitunum á mölina þrátt fyrir allar hrakspár. Sv notuð séu orð sem birtust í blöðum og tímaritum á þessum tíma.

Fjölgun verkafólks í þéttbýli

Fólksfjölgunin í Reykjavík um aldamótin var gífurleg. Löngun manna til þess að verða sjálfs sín herra var mikil samfara því að vilji manna stóð til þess að öðlast frelsi til þess að afla tekna með eigin vinnuafli og njóta þannig alls afraksturs vinnu sinnar svo þeir gætu reist sér og sínum eigið heimili. Verkafólk var beitt allmikilli hörku og var gert að vinna frá kl. 5 á morgnana til kl. 10 á kvöldin án nokkurra skilgreindra neysluhléa. Verkalýðnum var gert að stelast til þess að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur, eins og þessu var lýst.

Einar Benediktsson skáld og lögmaður skrifaði í Dagskrá árið 1896 og hvatti til þess að stofnuð yrðu verkamannafélög. Þar segir hann meðal annars: „Hér á landi eru slík samtök nær því óþekkt enn, og er þó auðsætt, að þau gætu komið að miklu gagni hér eins og annars staðar, ef þau aðeins væru sniðin rétt eftir öllum ástæðum lands og þjóðar. Sérstaklega gætu samtök verkamanna í Reykjavík hjálpað miklu til þess að bæta kjör hinna fátækari, starfandi borgarastéttar og jafnframt einnig aukið velmegun bæjarins í heild. Þannig löguð samtök miða að því að varðveita einstakan verkamann eða iðnaðarmann gegn samkeppni eða undirboði stéttarbræðra sinna og um leið halda uppi réttu hlutfalli milli þess hagnaðar, sem vinnuveitandi hefur, og þeirra launa sem hann geldur fyrir vinnuna. Því meiri sem fátæktin er meðal verkamanna og því lægra sem allar vinnuafurðir eru metnar til peninga, því nauðsynlegri er þessi félagskapur og því meiru góðu getur hann komið til leiðar.

Skyldi í nokkrum höfuðstað nokkurs lands vera farið þannig með menn sem eru frjálsir í orði kveðnu? Og á ekki hingað rót sína að rekja sljóleiki sá og hugsunarleysi, deyfð og doði, sem gjörir daglaunamenn almennt svo vanafasta og framtakslausa? Kvenmannsdaglaunin eru svo lág að slíkt er á engu viti byggt; eða hvaða sanngirni er að gjalda kvenmanninum ekki nema 3/5 á móti karlmanni, eða kannski tæplega það, og það þó kvenmaðurinn beri á börum móti karlmanni frá morgni til kvölds? Og þegar þau skila börunum að kvöldi fær karlmaðurinn 2 kr. 50 aura, en kvenmaðurinn 1 kr. 50 aura. Er eigi þetta ástæðulaus og gegndarlaus ójöfnuður?“

Á þessum árum var hin alræmda „milliskrift“ í algleymingi, þ.e. að vinnulaun voru aldrei greidd í peningum, heldur eingöngu í vörum, sem voru ávallt reiknaðar hærra en peningaverðið var. Þetta kerfi virkaði þannig í raun að allt verkafólk á Íslandi var í skuldafangelsi hjá kaupmanninum og því var hegnt grimmilega ef það vogaði sér að leita eitthvað annað um úrbót sinna mála. Lög um greiðslu verkakaups í peningum eru sett 14. febrúar 1902. Sá hængur var á lögunum, að laun átti að greiða með peningum, nema um annað væri samið. Í þessu sambandi er ástæða að geta þess að á þessum tíma er rætt um gjaldmiðil sem gildir að fullu í öðrum löndum og er beintengdur við dönsku krónuna. En það átti eftir að breytast til hins verra þegar sá gjaldmiðill sem laun á íslenskum vinnumarkaði voru greidd út í gilti einungis á Íslandi. Það má segja að þar hafi verið horfið aftur til þess ástands sem ríkti fyrir árið 1902. Þessu má á margan hátt bera saman við milliskriftina, eða þann gjaldmiðil sem margir kaupmenn komu sér upp og giltu einungis í þeirra eigin verslun.

Á þessum tíma var óþekkt hér á landi að verkafólk setti fram kröfur um kjör sín og takmörkun á vinnutíma. Til þessa hafði verkalýðurinn orðið að vinna myrkranna á milli ef á þurfti að halda, og þótti það jafnvel heppni því lengur sem þrældómurinn stóð yfir. Sumarfrí voru á þessum tíma óþekkt fyrirbæri. Fyrsti vísirinn að slíku varð til þegar kaupmenn tóku upp á því árið 1894 að loka búðum sínum einn dag á sumri og þeir kölluðu það hvíldar- eða frídag verslunarmanna.

Verkalýðshreyfing myndast

Upphaf fjöldahreyfingar hér á landi er ávalt miðuð við þegar skútukarlafélagið Báran var stofnað árið 1894, en það var gert í kjölfar þess að eigendur þilskipa höfðu stofnað með sér „Félag útgjörðarmanna við Faxaflóa.“ Fyrsta verkefni félags útvegsmanna var að birta reglugerð um ráðningarkjör sjómanna þar sem launakjörin voru skert umtalsvert og mataræðið versnaði til muna. Fljótlega eftir stofnun Bárunnar höfðu 80 hásetar samþykkt að ráða sig ekki á skip nema samkvæmt samþykkt félagsins. Þar voru ákvæði um bætt fæði og að a.m.k. helmingur launa yrði greiddur í peningum.

Verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað í Reykjavík 26. janúar 1906. Stofnfélagar voru 384. Fyrsta tilraunin til þess að stofna heildarsamtök verkafólks hér á landi var stofnun Verkamannasambands Íslands árið 1907. Stefnuskrá sambandsins var pólitísk og sniðin eftir stefnuskrám jafnaðarmanna á Norðurlöndum. Verkamannasambandið var forveri Alþýðusambandsins. Á fundi í Verkamannafélaginu Dagsbrún 28. október 1915 voru Ottó N. Þorláksson og Ólafur Friðriksson kosnir til þess að koma á samvinnu milli verkalýðsfélaga. Frá nóvember 1915 fram í mars 1916 starfaði undirbúningsnefnd frá 5 verkalýðsfélögum. Sunnudaginn 12. mars 1916 var stofnþing ASÍ og Alþýðuflokksins sett í Bárubúð. Fjöldi stofnfélaga var um 1500.

Stjórnmálin voru á þessum árum að umbyltast frá átökum um fullveldis- og utanríkismál yfir í innanlandsmál, þar sem réttindabarátta almennings var að taka til sín sífellt stærri hluta sviðsins í valdabaráttu yfirstéttarinnar. Forystumenn verkalýðsins urðu því hættulegir menn í augum hinna borgaralegu afla. Þó svo að vistarbandið og fleira væri afnumið með lögum, áttu launamenn enn fyrir höndum mikla og langa baráttu til þess að ná fram viðunandi réttindum og tryggingum. Vorið 1916 kom til fyrstu meiri háttar átakanna milli Hásetafélagsins og útgerðarmanna út af svokölluðum lifrarhlut. Togararnir í Reykjavík voru stöðvaðir og verkfallsmenn gengu í hópum um götur bæjarins. Verkfallið stóð í nær hálfan mánuð og urðu mikil átök í bænum. Þetta var langmesta verkfall sem orðið hafði á landinu til þessa og vakti mikla athygli.

Eftir mikinn kosningasigur verkafólks í bæjarstjórnarkosningum árið 1916 áttaði borgarastéttin sig á því að verkafólk var að ná saman sem pólitískt afl. Það varð ritstjórn Morgunblaðsins mikið áhyggjuefni :, „Mikil voru lætin í kvenfólkinu hérna um árið þegar það fékk fyrst kosningar og kjörgengisrétt til sveita- og bæjarstjórna. Þá óð Bríet á bæxlunum um allan bæinn og var engin svo gömul og farlama kerling að hún stæðist frýjunarorð hennar. Sko! sögðu allir, þetta getur kvenþjóðin þegar hún vill og hefir leyfi til þess að starfa. Og sjá! Kvennalistinn kom að öllum fulltrúaefnum sínum þar á meðal Bríet. … Verkamannahreyfingin hér í bæ minnir á kvennahreyfinguna hér um árið, fer geyst á stað og endar með deyfð og áhugaleysi. Öðru vísi getur ekki farið vegna þess að byggt er á óeðlilegum grundvelli. Það er verið að reyna að æsa verkamenn til stéttarrígs, sem hér hefur ekki þekkst áður, og er það illt verk og óheiðarlegt, getur engu góðu komið til leiðar, en mörgu illu. En vér trúum því að alþýða hér hafi svo næma dómgreind að hún sjái villuna áður en í óefni er komið.“

Verkalýðsfélögin komu í gegn mörgum veigamiklum málum til hagsbóta fyrir sína félagsmenn. Árið 1928 er Vökulögunum breytt þannig að tryggð var átta klst. hvíld á sólarhring. Á þessum tíma er algengasti vinnutími verkafólks frá kl. 6 að morgni til kl. 6 að kvöldi, en unnið var dag og nótt þegar þurfti. Stéttarfélögin reyndu að stemma stigu við þrælkuninni, m.a. með því að banna vinnu á nóttunni. Morgunblaðið sagði að hér væri nýtt spor stigið til þess að sporna gegn atvinnuvegum landsins, einstaklingsfrelsi, athafnafrelsi og heilbrigðri skynsemi. Í maí 1930 náðist stytting dagvinnutímans almennt úr 11 tímum í 10, eftir þetta hófst dagvinnan kl. 7:00 í stað kl. 6:00.

Lög um slysatryggingar árið 1925, lög um verkamannabústaði árið 1929, lög um alþýðutryggingar árið 1936 og lög um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1938, þau eru enn í gildi og eru um margt talin til mikillar fyrirmyndar og hafa skapað stéttarfélögum íslensks verkafólks sterkari stöðu. Árið 1942 nást fram lög um 12 daga lágmarksorlof á ári, sem síðan er lengt upp í 18 daga árið 1956.

Í þessu sambandi er ástæða að halda til haga þeirri sögufölsun sem hefur verið tíðkuð hér á landi af ráðandi stjórnmálaflokkum, eins og rakið er í upphafi þessa pistils hvað varðar sögufölsun í kennslubókum. Upp úr síðustu aldamótun lét sá stjórnmálaflokkur sem hefur verið lengst við völd hér á landi framleiða nokkur myndbönd þar sem farið var yfir samfélagslega þróun tuttugustu aldarinnar. Þar er þessum stjórnmálaflokki eignuð öll samfélagsleg framþróun og þar er sigur verkfólksins ávalt eignaður þeim ráðherra sem sat þegar viðkomandi lagabreyting náði loks í gegnum Alþingi.

Söguskýringar flokksskrifstofunnar sneiða ávalt hjá þeirri staðreunda að á undan lagasetningunni hafði jafnan staðið yfir áratuga blóðug barátta með löngum verkföllum verkafólks og kvenréttindahreyfingarinnar, þar sem barist var fyrir viðkomandi réttindum. Sannarlega var það verkafólkið og samtakamáttur þeirra sem varð til þess að valdastéttin varð að láta undan, en reyndi að breiða yfir tap sitt. Ísland var nánast alltaf um hálfri öld á eftir hinum norðurlöndunum hvað varðar félagsleg réttindi verkafólks. Þáverandi menntamálráðherra lét spila þessi myndbönd á besta tíma í sjónvarpinu auk þess lét hann menntamálaráðuneytið kaupa eitt sett hvern einasta grunnskóla landsins.

Smám saman tókst starfsgreinahópum að stofna stéttarfélög. En þau voru veikburða fyrstu árin og baráttan snérist fyrst og fremst um að afla viðurkenningar á samningsréttinum og að ná í gegn samningum um lágmarkslaun og það sé greitt eftir þeim samningum. Atvinnuleysi var mikið og oft erfitt að fá verkafólk til þess að sýna samhug og láta vinnuveitendur ekki komast upp með að brjóta á bak aftur samninga um lágmarkskjör og vinnutíma. Verkafólkið keppti um þá vinnu sem var að hafa og undirboð voru algeng. Mikill hluti verkafólks var ekki í verkalýðsfélögunum og árið 1920 er talið að um 20% verkafólks á Íslandi væru í stéttarfélagi.

En lesandi góður: við höfum náð langt í baráttunni fyrir öryggi og bættum kjörum. En hvað með þann gambít sem tiltekinn hópur hefur enn á íslensku samfélagi? Og þann gjaldmiðil sem þessi hópur sér um að laun okkar er greidd með.

Flokkun : Pistlar
1,575