trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 27/04/2014

Að liðnum mánuði: Þakk

Nú er réttur mánuður frá því Herðubreið hóf göngu sína á vefnum í núverandi mynd. Í hógværð okkar og lítillæti erum við eiginlega í svolitlu sjokki.Herðubreið

Það hafa nefnilega rúmlega 100 þúsund Íslendingar lesið Herðubreið á þessum tíma. Og þó: Kannske ekki svo margir einstaklingar, við vitum það ekki, en frá svo mörgum ip-tölum. Breytir engu. Við erum í skýjunum af hissu.

Vegna þess einfaldlega hvers konar vefrit Herðubreið er og hvers konar skepna vefurinn er.

Það er löngu þekkt staðreynd að mest lesna efnið á vefnum er sögur af fólki og daglegu lífi þess, einkum hvers konar áfalla-, sjúkdóma-, átaka- eða sorgarfréttir. Næst koma fréttir af frægum og alls kyns sjálfshjálpar- og heillaráðagreinar. „Kim Kardashian kvænist í Borneó. Sautján leiðir til að gera kynlífið frábært þótt makinn hafi engan áhuga. Tólf ástæður til að snæða túrmerik í hvert mál.“

Þetta er alltílæ og ekkert nema snobbhænsnahroki að taka fyrir nefið og hnussa yfir því hvað fólk skuli nú nenna að lesa. Mannfólkið er blessunarlega alls konar og skárra en ekki, að það skuli þó nenna að lesa.

Svo er hitt, að fyrir útgefendur og ritstjóra er vefurinn óseðjandi skrímsli. Heimtar alltaf meira og meira, sífellt nýtt og nýtt, því að annars fer fólki að leiðast (sem er líklega algengasta hugarástand samtímans) og það snýr sér annað.

Núnú. Herðubreið vill ekki vera þarna. Herðubreið birtir ekki mannlífs- og lífshjálpargreinar. Herðubreið er heldur ekki í spreng. Hún birtir jafnvel gamaldags efni, svo sem eftirmæli og ljóð.

Við gerum hins vegar kröfur til texta og erum óhrædd við að birta það sem þykir langar greinar á vefnum. Um lengd efnis gildir reglan „Eins langt og þarf, en ekki lengra en það þolir.“ Gæðin ráða. Stundum tekst það, stundum ekki. Eins og gengur.

En sumsé. Einmitt vegna alls þessa erum við óskaplega þakklát og – já – soldið montin yfir því að svo margir skuli kunna að meta taktinn sem Herðubreið hefur reynt að slá.

Og einmitt vegna þess að mest lesna efnið á Herðubreið hefur verið lengsta lesmálið er rétt að vitna í viðfangsefnið, Helga Hóseasson, og segja:

„Þakk.“

1,339