trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 05/06/2014

Að kyssast undir krossinum

Við sáum í sjónvarpsfréttum á mánudagskvöld frétt um ein heljarinnar manngerð göng og íshelli í Langjökli.Kross í Langjökli

Það er fínt framtak, og við var bætt að í kring yrði alls kyns þjónusta og einnig að inni í jöklinum yrði kapella þar sem fólk gæti gift sig.

Það er líka mjög góð hugmynd og áreiðanlega uppskrift að mörgum rómantískum og fallegum stundum brúðhjóna.

Nema eitt sem sló hinn skeptíska: Í kynningarmyndbandinu sem fylgdi með sást þessi líka risastóri kross við altarið(?) í kapellunni.

Þar var sumsé sirka tveggja mannhæða hár kross.

Kross?

Hvað með alla búddistana frá Japan? Eiga þeir að ganga í hjónaband undir kristnum krossi? Og hvað með Kínverjana, taóistana þar og alla hina, sem við höfum nýverið gert fríverzlunarsamning við og eru auðlind okkar til framtíðar? Er ætlunin að krossinn hans Jesúsar heitins komi í stað Konfúsíusar þeirra, sem dó saddur lífdaga?

Að ég nefni nú ekki gamla vini æðri máttarvalda lýðveldisins, Indverja. Hvernig eiga Hindúar, Síkkar og fleiri að haga sér þarna inni í jöklinum þegar þeir vilja eiga heilaga athöfn? Kyssast undir vestrænum krossi?

Enn eru svo nýjustu beztu vinir okkar, Rússarnir. Er nokkuð verið að gera út á þá? Krossinn í rétttrúnaðarkirkjunni þeirra er bara alls ekki svona í laginu. Eiga þau að staðfesta heiti sín undir vestrómverskum krossi?

(Við skulum alveg sleppa múslimunum í þessari upptalningu. Þeir eru allir í þvinguðum hjónaböndum hvort sem er og/eða uppteknir við að nauðga barnungum eiginkonum sínum.)

Svo eru þessir trúlausu, sem hafa komið hingað beinlínis til þess að binda trúnað hvert við annað vegna landsins og náttúrufegurðar þess, en á slíkt er auðvitað ekki treystandi.

———-

Jájá, svona væri hægt að halda áfram, en sumsé:

Þetta sérkennilega myndband með krossinum er auðvitað bara myndband, en fjöldi fólks (framleiðendur/auglýsingastofa) bjó það til og enn meiri fjöldi fólks (kúnnar/fjárfestar) horfði á það, oft og ítrekað, gerði athugasemdir, vildi að hitt og þetta yrði lagfært, og samþykkti loks að það yrði sent út til birtingar.

Þessir kúnnar voru, eins og fram kemur í fréttinni, Icelandair, lífeyrissjóðirnir okkar og einhverjir fleiri.

Þeir eru sumsé ennþá þarna? Að selja Ísland með krossinum hans Jesúsar?

Hvernig væri nú bara að stilla upp mynd af Óðni ríðandi á Sleipni?

Þar er þó sirka eini guðinn sem er sæmilega óumdeildur nú um stundir.

1,316