trusted online casino malaysia
Bragi Kristjónsson 15/08/2014

Á grunnsævi íslenzkra menningarstofnana

Eftir Braga Kristjónsson

Það hefur verið gefandi að starfa í bókmenningarkimanum í meira en hálfa öld. Þar hefur maðurinn kynnzt ótal góðu fólki, sem gefið hefur mikið af sjálfu sér og kynnt honum dásemdir lífsins og andans.Bragi Kristjónsson

Og það hefur líka verið klökkt að kynnast „innanbúðarfólki“ í þessum „geira“, sem var ekki alltaf störfum sínum vaxið.

Eg sagði einhverntíma frá því, þegar við Snær Jóhannesson bóksali reyndum að fá Þjóðmenjasafnið til að kynna sér og eignast frítt fullbúið einbýlishús með innbúi og fágætu bókasafni og handritum þám eptir hinn merka Konrad Maurer prófessor, og óbreyttri uppstillingu muna búsins frá aldamótunum 1900, þarsem menningarfólk hafði búið allan tímann. En það var ekki áhugi.

Það hafa borizt mér á liðnum áratugum merkileg handrit, gömul og nýlegri og tug þúsundir fágætra bóka. Sumt af bókunum reyndi eg að selja til Landsbókasafnsins, – verð var ekki aðalatriði hjá mér – en eg hef einu sinni, – EINU SINNI – látið af hendi bók til þess ágæta safns – og þá kom reyndar sjálfur landsbókavörðurinn, sómadrengurinn Finnbogi Guðmundsson, „sonur pabba síns“ og keypti bók Guðmundar Hagalíns, sem safnið átti ekki: – Um skáldskap.

Handrit hefi eg reynt að selja eða láta af hendi – til Árnastofnunar, en það hefur nú verið við djöfulinn að draga, alltaf þessi eilífu blankheit, kannski í sömu viku og forstöðumennirnir fóru á dýrar ráðstefnur til úttlands. Eða þáðu að gjöf milljóna styrki frá einstaklingum og stofnunum „til bókakaupa“.

Eg hef stundum velt fyrir mér afhverju þessi tregða stafi: Verðið hefur nánast aldrei verið aðalatriði hjá mér! En eg held það sé aðallega hinn landlægi íslenzki HROKI, jafnvel minnimáttartilfinng, sem breytist í framkomuhroka, sem kom í veg fyrir þessi tækifæri, sem opinberir aðiljar hafa hafnað – eða alls ekki svarað.

Reyndar lét eg af hendi til Árnastofnunar nokkur merk handrit meðan öðlingurinn dr. Vésteinn Ólason var þar við stýrið. Og fór allt vel fyrir báða.

———-

Einhver mesti og dýpsti maður íslenzkra fræða var Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn. Enginn Íslendingur hefur unnið fræðunum meira gagn með einstakri rýni og textaútgáfum og túlkunum á fornum verkum okkar.

Þegar hann lézt stóð þannig á, að eg átti fyrstur manna kost á því að kaupa allmörg verk úr hans mikla og merka safni.

Meðal annars var heilmikið safn af vinnugögnum hans frá því hann var við nám í Kaupmannahafnarháskóla. Þetta voru um 40 þéttritaðar, þykkar kompur, sem hann skráði niður eptir kennurum sínum í fræðunum: Finni Jónssyni, Valtý Guðmundssyni, Kristjáni Kaalund ofl.

Mér þótti einboðið að benda Árnastofnun hér á að eg hefði þessi einstöku verk undir höndum. Forstöðumaðurinn „bauðst til“ að líta á þessi verðmæti – og eg sagði honum að alveg væri hugsanlegt að fá þetta án greiðslu eða fyrir lítið verð.

Glaður mætti eg til fundar við prófessorinn með tvo plastpoka með hugsunum og minningum þessa einstæða manns í Íslandssögunni. Okkur kom prýðisvel saman og varð úr, að eg skyldi koma og ræða við hann, þegar hann hefði kynnt sér efnið. Að mánuði liðnum hafði eg ekki heyrt frá þessum lærdómsmanni og átti leið til dr. Einars Pjeturssonar, sem oft hefur reynzt mér haukur í horni við rannsóknir á rithandarsýnishornum. Reyndar var sjálfur forstöðumaðurinn öllum lærðari í þeirri grein.

Mér brá dálítið, þegar eg mætti á skrifstofu hans og sá pokana liggja á þeim stað á skrifstofu hans, sem eg hafði lagt þá. Hann bar við önnum: Hafði verið á ráðstefnum oflofl. Get eg togað uppúr honum, að „hann hefði ekki haft tíma til að kynna sér málið“.

Loks gat eg tosað uppúr honum með töngum, að líklega væri þetta „ekki rétti staðurinn fyrir þessi gögn“ eins og hann mælti blessaður.

Þetta heitir á dönsku að vera „lyseslukker“.

Jæja. Eg hvarf af vettvangi með nokkrum trega, enda vissi eg ekki um annan betri og meira viðeigandi stað fyrir grúsk og hugsanir Jóns Helgasonar um íslenzk fræði, þegar hann var ungur og ferskur. Auk þess sem einstaka kvæði höfundarins frá æskudögum voru þarna rituð.

Nokkrum dögum síðar átti leið hingað til lands „á ráðstefnu“ japanskur prófessor í norrænum fræðum, sem eg hafði átt góð skipti við um árabil. Greindi eg honum frá þessari fýluferð minni. Hann varð strax „fýr og flamme“ og spurði, hvort hans góði háskóli í Japan gæti fengið þessi ómetanlegu gögn. Eftir nokkra umhugsun bað eg hann að fá umþóktunartíma til dagsins eptir. Hringdi eg í áðurgreindan forstöðumann og spurði, hvort hann vildi þiggja verkin Jóns Helgasonar.

– „Heyrðu“, sagði sá lærði prófessor, „eg er nú alveg upptekinn á fundi, en viltu ekki hringja í mig í næstu viku?“

Þetta varð mér um megn og þegar japanski prófessorinn kom næsta dag, sagði eg honum, að þetta stæði hans skóla til boða. „Og verðið?“ spurði hann. „Sjálfdæmi,“ sagði hinn vonsvikni bókakaupmaður.

Nefndi hann síðan tölu, sem á þessum árum myndi hafa nægt fyrir sosum einum Volkswagen Golf og varð það úr, þótt mér þætti upphæðin að vísu í hærra lagi!!

Þannig að síðan hafa þessi frumgögn og handrit Jóns Helgasonar prófessors verið í vörzlu hins japanska háskóla, sem þessi heiðursmaður starfar enn fyrir.

Vildi bara nefna þetta við ykkur til að undirstrika frumkvæði og áræði íslenzkra menningarforkólfa, þegar kemur að „arfinum.“

Bragi Kristjónsson

Flokkun : Pistlar
1,467