trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 23/06/2017

10-11-ljóð

Hvað kostar ljóð? Það er einkar fróðleg spurning.

Hún kviknaði á dögunum þegar ég var að pranga ljóðabók inn á vini mína dýrum dómum.

Þeir hafa að vísu tekið ónæðinu furðuvel, en einn horfði þó á verðið, kr. 4.900, og spurði frekar höstugur: Hvað eru þetta eiginlega mörg ljóð?

Ég var ekki með það á takteinum, en spurningin vakti mig til umhugsunar. Hvað kostar eiginlega eitt ljóð? Eru þau verðlögð per orð? Þarf endarímið að vera dýrt? Er kannske hægt að selja þau eftir vigt?

Ég ímyndaði mér að einhver hlyti að hafa fundið svarið við þessum spurningum og leitaði ráða hjá víðlesnasta rithöfundi landsins. Hann kannaðist ekki við nokkur hefði reynt að svara svona vitleysu og það hnussaði hálfpartinn í honum.

Svo bætti hann einhverju við um tilfinningar, andvökustundir og angist, sem var aðeins of dramatískt fyrir minn smekk. Næg er andskotans dramatíkin í bókinni.

Svo rifjaðist upp að Andri Snær Magnason gaf eitt sinn út Bónusljóð, sem varð ein söluhæsta ljóðabók sögunnar.

Fjandinn, hugsaði ég – líklega hefði verið gáfulegra að gefa út Costco-ljóð og selja tólf bækur í bunka. Það væri örugglega myljandi bissniss.

Í staðinn eru komin hér út einhver 10-11-ljóð og mér finnst eins og ég sé að snuða lesendur mína. Hver með fulde fem kaupir enda ljóð sem kostar álíka og lítri af laktósafrírri mjólk frá Örnu?

Hinum verðmeðvitaða vini mínum sagði ég að bókin kostaði minna en tvö kíló af gúmmíosti frá Mjólkursamsölunni og éttu það. Er svo að hugsa um að rukka hann tvöfalt.

Þetta hérna var þó ekki skrifað um hann:

(Mannlýsing V)

Hávaxinn, horaður.
Taugaveiklun áberandi.
Háreysti einkennandi.
Mannhlýja einlæg, en fjarlæg.
Ævivonbrigði í augum.
Enn eitt leikrit í smíðum.

1,943