Wynton Marsalis og afæturnar
Við Helena förum nokkuð reglulega í Hörpuna og í leikhúsin til þess að njóta menningaviðburða, það lífgar upp á tilveruna og gefur okkur mikið. Stundum eru þar á ferð stórkostlegir listamenn bæði innlendir og erlendir og í gærkvöldi voru í boði tónleikar í heimsklassa í Eldborgarsal Hörpunnar þegar Wynton Marsalis trompetleikari kom hingað með hljómsveit sína.
Þeir fóru yfir söngbók jassins og sýndu okkur margar stíltegundir og hvernig þróun jassins hefur verið allt frá fyrstu áratugum síðustu aldar. Jazz at Lincoln Center Orchestra inniheldur fimmtán manns, en Marsalis er listrænn stjórnandi hennar. Hver einasta meðlimur hljómsveitarinnar er topplistamaður og tónleikarnir voru stórkostleg upplifun.
Það er engin launung á því að það væri ekki hægt að bjóða upp á margþætt menningarlíf í Hörpunni og leikhúsunum ef ekki kæmi til einhver stuðningur eins og Elliði bæjarstjóri Vestmannaeyja minnir okkur afæturnar reglulega á.
Við Helena komum úr Grafarvoginum þar eru einungis fjöldi íbúðarhúsa og nokkur bílaverkstæði, og það eina sem við framleiðum í Grafarvoginum og leggjum til samfélagsins eru börn. Mörg þeirra eru reyndar miklir listamenn og sum þeirra leiðandi í atvinnu- og íþróttalífinu.
Við erum vitanlega Elliða þakklát og öðrum Vestmannaeyingum að þeir láti nokkra brauðmola detta af allsnæktarborði sínu til okkar afætanna. Það er vitanlega skiljanlegt að Vestmannaeyingar vilji ekki vera með okkur.
En Elliði væruð þið ekki til í að skila okkur sameign þjóðarinnar áður en þið farið.Okkur langar nefnilega til þess að halda áfram að njóta menningar og ekki síður að styrkja skólakerfið fyrir börnin okkar og barnabörnin, svo maður tali nú ekki um að gera heilbrigðissviðið betra.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016