Væntanlegar forsetakosningar
Í kjölfar þess að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tilkynnti að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri hefur umræða um embættið farið vaxandi. Ólafur Ragnar hefur í sinni tíð á Bessastöðum þróað stjórnskipunina á grundvelli eigin túlkunar og þróað ábyrgðarleysiskenningu.
Hann hefur þar gert sjálfan sig að sjálfstæðri valdastoð og tekið sér það vald að ákveða hvort löggjöf sé sett með aðferðum fulltrúalýðræðisins og á grundvelli þingræðis eða með beinu lýðræði í þjóðaratkvæði. Samkvæmt þessari verklagsreglu Ólafs Ragnars þurfa hvorki forseti né ríkisstjórn eiga að taka afleiðingum þess að tapa í þjóðaratkvæði.
Ólafur Ragnar hefur einnig gefið margskonar yfirlýsingar í nafni Íslands, þar sem hann túlkar marga hluti með eigin hætti, jafnvel þvert á viðtekin og samþykkt viðhorf hér heima. Enginn ber stjórnskipulega ábyrgð á yfirlýsingum hans hvorki gagnvart Alþingi né öðrum þjóðum. Túlkun hans er nýmæli í íslenskri stjórnskipun.
Ólafur Ragnar hefur breytt ásýnd embættisins verulega og það mun hafa mikil áhrif á væntanlegt forsetakjör, mikil umræða um forsetaembættið og hvernig fólk vilji hafa það. Þjóðfundur lagði áherslu á að framtíð forsetaembættisins yrði skýrt mörkuð, það var tekið upp í tillögum stjórnlaganefndar.
Þessi umræða var áberandi innan Stjórnlagaráðs og varð til þess að ástæða þótti að setja skýrari ákvæði um embættið, ekki að það væri verið að breyta hlutverki forsetans, heldur frekar að staðfesta stöðu hans.
Öll stjórnvöld lenda í því að þurfa að afgreiða óvinsælar ákvarðanir. Ástandið eins og það hefur þróast hefur um of þóknast lýðskrumurum og á því verður að taka.
Í tillögum Stjórnlagaráðs er málskotsrétturinn gerður skýrari og hann aukinn. Almenningur fær einnig málskotsrétt án milligöngu forsetans. Með þessu er augljóslega verið að svara umdeildum athöfnum sitjandi forseta.
Setja þarf skýrari verklagsreglur um að forsetinn haldi sig við ríkjandi stefnu og sé ekki að reka eigin utanríkisstefnu, eða vera með yfirlýsingar um hagsmuni launamanna sem ganga þvert á samþykkta stefnu samtaka launamanna.
Þessi atriði frumvarps að nýrri Stjórnarskrá voru ekki sett til þess að efla stöðu forsetaembættisins, heldur til þess að auka lýðræði í landinu. Styrkja þingræðið og aðkomu hins almenna kjósanda.
Koma í veg fyrir að ákvarðanataka og stefnumótun fari ekki einungis eftir duttlungum og pólitískum skoðunum sitjandi forseta og svo deilum milli hans og sitjandi forsætisráðherra. Hér má vísa til tveggja mála, afgreiðslu fjölmiðlafrumvarps og svo Icesave samnings sem var með yfirgnæfandi meirihluta samþykki Alþingis og fékk síðan aðra niðurstöðu sem á líklega eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt.
Tilgangur Stjórnlagaráðs var ekki síst að sporna gegn því að fara í fyrra horf, þegar að engum umdeildum málum var vísað til þjóðarinnar og jafnvel ekki til sitjandi Alþingis. Hér var vísað til ástandsins eins og það var um síðustu aldamót. Í höndum tveggja ráðherra og nokkurra embættismanna sem sátu við hlið þeirra hvaða lögum og reglum var rúllað í gegnum hæstvirt Alþingi.
Öll þessi atriði þurfa að liggja skýr fyrir þegar þjóðin gengur til kosninga um nýjan forseta. Það er því óhjákvæmilegt að mörkuð verði skýr stefna um frumvarp til nýrrar Stjórnarskrár.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016