Uppdráttarsýki hagkerfisins
Fyrir síðustu kjarasamninga brýndi Seðlabankinn með mjög afgerandi hætti nauðsyn þess að launahækkanir væru í samræmi við batann í hagkerfinu. Verkalýðsforystan ákvað að stíga fram og standa að samræmdri kjarastefnu til langs tíma þrátt fyrir að nokkrir gengu fram fyrir skjöldu með glæsileg yfirboð um allt að 30% launahækkanir.
Fyrirliði yfirboðsliðsins var einn helsti ráðgjafi Sigmundar Davíðs síðustu kosningabaráttu eins blasti við í framboðsgreinum framsóknarmanna, fingraför hans voru á flestu sem sett var fram um kjaramál og málefni lífeyrissjóðanna. Óraunsæ yfirboð, töfralausnir og sjónhverfingar. Ekki hefur verið staðið við eitt einasta af þeim loforðum, enda óraunsætt geip.
Forsætisráðherra stóðst ekki mátið í áramótaræðu sinni 31.12.13 í tilraun til þess að auka á óánægjuna innan launþegahreyfingarinnar í kjölfar raunsæissamninganna og sagði m.a. : „Á nýja árinu og árunum sem á eftir fylgja þurfum við að auka kaupmátt Íslendinga jafnt og þétt. Það ætlum við að gera í sameiningu. Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægst launuðu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi. En það þarf líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum.“
Skömmu síðar stóð svo ríkisstjórnin að kjarasamning þar sem fylgt var yfirboðunum og gerðu ráðherrar þar að engu vonir atvinnulífsins um markvissa stefnu og endurtekningu á því sem gerðist áratuginn eftir Þjóðarsáttarsamninganna 1990 en hann leiddi til stöðugleika og gríðarlegs kaupamáttarauka. Sem dæmi þá samdi Rafiðnaðarsambandið um 12% launahækkanir á þeim áratug, en hafði samið um liðlega 3.000% launahækkun næsta áratug á undan
Nú eru ráðherrar undrandi á að launamenn séu orðnir pirraðir og mæti í mótmælastöðu á Austurvelli og krefjist þess að forsætisráðherra standi við orð sín um áþreifanlega bót á lægstu launum og hætti að sinna einunigs þeim ríkustu í samfélaginu.
Heilbrigðiskerfið að riða til falls og læknisþjónusta stefnir í að verða einungis fyrir þá efnameiri. Sama á við um menntakerfið.
Samfara þessu hefur launamönnum verið boðið upp á fréttir um milljarða arðgreiðslur til örfárra, sem síðan hafa lyft upp þeim meðaltölunum sem ráðherrarnir nota þegar þeir tala um hvað allir hafi það gott.
Árangurinn af þessari stefnu sem forsætisráðherra eyðilagði með vanhugsuðum yfirboðum hefur verið meiri kaupmáttarbati á þessu ári en við höfum uppskorið í langan tíma.
Og svo stígur Seðlabankastjóri öllum að óvörum fram á sviðið með tilskipun um 2,5% launahækkun og maður spyr sig
- Hvers vegna lækkaði Seðlabankastjórinn ekki stýrivextina í fyrra?
- Hvers vegna er Seðlabankastjóri að spila þessu út núna?
- Er hann sendur fram á sjónarsviðið til þess að reyna að bjarga forsætisráðherra úr þeirra sjálfheldu sem hann er búinn að koma sér í?
- Er ætlast til að launamenn taki lengur áfram mark á þeim tækifærissinnum sem komust í valdastólana á heimsmetum í yfirboðum og innistæðulausum loforðum?
Af hverju beina forystumenn ríkisstjórnarinnar spjótum sínum einungis að lægst launuðu hópunum innan ASÍ?
Það er auk þess ekki boðleg vinnubrögð í siðuðu samfélagi hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar reyna að gera ASÍ að samningsaðila við lækna og aðra starfsmenn ríkisins.
Kjaradeila lækna er aðeins toppur ísjakans, birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignun hagkerfis okkar. Brottfluttir eru fleiri en aðfluttir, hér eiga stjórnvöld að keppast um að halda í hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna.
Hagkerfinu er stjórnað er af tækifærissinnum þar sem ríkir himinhrópandi getuleysi og fullkominn skortur á framtíðarsýn fyrir samfélagið. Þetta birtist mjög vel í þeim fjárlögum sem liggja nú fyrir með því að skera í burtu jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða auk þess að standa ekki við marggefin loforð um stuðning við starfsorkumat, svo maður tali nú ekki um aðför að atvinnuleysisbótakerfinu. Fjölgun öryrkja er gríðarlega há hér á landi þessar aðgerðir í fjárlögnum munum leiða til þess að enn frekari fjölgun öryrkja.
Þessar aðgerðir munu sé litið tillengri tíma valda því að útgjöld Tryggingarstofnunar munu hækka umtalsvert vegna skerðinga lífeyrissjóðanna á bótum. Auk þess munu útgjöld sveitarfélaganna vaxa umtalsvert. Þessar aðgerðir eru að leiða til þess að það er fækkun á vinnumarkaði og það getur ekki leitt til annars að hagvöxtur dregst saman, og verður jafnvel neikvæður.
Traust er nefnilega grundvallaratriði í mannlegum samskiptum. Það er nauðsynlegt að geta treyst ráðamönnum. Þegar traust er ekki til staðar þá skekkjast samskipti og brenglast, andrúmsloftið verður eitrað. Vantraust elur á ótta og óheiðarleiki kallar fram meiri óheiðarleika. Spilling breiðist hratt út og áður en varir eru leikreglurnar breyttar. Sá sem er ósvífnastur nær undirtökunum. Þá er þeim hampað fyrir hegðun sem áður var óþolandi.
Vinnubrögð lýðskrumarans eru vel þekkt. Hans hugsun er ætíð skammtímahugsun öflun vinsælda dagana fyrir kosningar. Engum er betur ljóst að hann mun ekki geta staðið við innistæðulaus loforð sín. Það er fyrirséð hvernig hann mun bregðast við. Lýðskrumarinn endar alltaf sína velþekktu vegferð með því að bera sakir á aðra, oftast blandað andstyggilegu persónulegi níði. Kjarasamningar eru gerðir milli stéttarfélaga við samtök fyrirtækja og/eða sveitarfélaga. Stéttarfélög semja ekki hvert við annað.
Fjölmiðlun spilar stórt hlutverk undir stjórn lýðskrumarans. Við líðum oft fyrir það hversu slök íslensk fjölmiðlun er, í mörgum tilfellum vegna þekkingarleysis fjölmiðlamanna. En oftar er það hugsunin um að það eigi að vera fjör í fréttunum og í spjallþáttunum. Það er svo gaman að fá einhvern í viðtöl sem þorir að segja eitthvað. Þannig er lýðskrumaranum hampað í viðtölum og spjallþáttum og gjarnan er hann nefndur „baráttumaður!!“
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016