Þýska húsið – Arnaldur Indriðason
Arnaldur Indriðason var að senda frá sér nýja bók, „Þýska húsið“. Í þessari bók eru sögumenn þeir Flóvent og Thorson samstarfsmenn í Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldar sem við kynntumst í „Skuggasundi“, sem kom út árið 2013. Flóvent er eini rannsóknarlögreglumaðurinn í Reykjavík, en samstarfsmaður hans vestur-íslenski hermaðurinn Thorson er að stíga sín fyrstu skref og hefur ekki alveg tök á starfinu eins og kemur glögglega fram í bókinni.
Bókin gerist sumarið 1941 mánuðina áður en Churchill átti fund með Franklin D. Roosevelt á herskipum á Atlantshafi suður af Íslandi og þeir náðu hinum svokallaði Atlantshafssáttmála. Eftir fundinn, eða 16. ágúst, kom Churchill í stutta heimsókn til Íslands.
Arnaldur hefur að venju yfirburða tök á efninu. Bókin lýsir vel lífinu í Reykjavík á þessum tíma. Húsnæðisvandanum, kömpunum og braggalífinu. Viðhorfum í samfélaginu á stríðstímum. Arnaldur leiðir okkur um heim „ástandskvenna“ og ólánsamra karla. Aftaka eins þeirra beinir sjónum að hermönnum, engin vill trúa því að íslendingar eigi nokkuð slíkt til í sínu saklausa pokahorni. Allt hið illa sé erlent. Viðhorfshorn sem við þekkjum svo vel, og viljum mörg hver trúa.
Bókin fellur þannig prýðilega að þeirri umræðu sem á sér stað akkúrat þessa stundina í kjölfar frumsýningar Bíó Paradís á hinni athylgisverðu heimildarmynd „Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum“. Þar sem fjallað er um fordæmingu á lauslæti og skækjulifnað ástandsstúlknanna sem ógnuðu þjóðarsómanum að mati þeirra sem telja sig hafa það hlutverk að segja þjóðinni fyrir verkum og setja okkur hinum normin.
„Þýska húsið“ er ein af betri bókum Arnaldar. Hann er hér í fantaformi og heldur lesendum sínum vel við efnið. Það er nefnilega helsti kostur Arnalds að mínu mati bókin er algjörlega laus við einhverja óþarfa 100 blaðsíðna útúrdúra, eins er orðið svo algengt í Skandínavísku krimmunum og verður stundum til þess að maður nennir ekki að klára bókina.
Harðsoðinn 4 klst. lestrarpakki sem sannarlega hélt mér föstum allan tíman. Það vekur mann til umhugsunar og spennandi pælinga þegar virðist búið að leysa alla hnúta að samt eru eftir 100 bls.
Já þá er betra að skella sér á snyrtinguna og koma við í eldhúsinu og ná í auka kaffibolla, því spennan heldur áfram fram á síðustu blaðsíðu.
4 stjörnur af 5 mögulegum.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016