Þrælakistur nútímans
Öflugri verkalýðshreyfingu hefur verið þakkað hið örugga og friðvænlega ástand sem ríkt hefur á Norðurlöndum. Okkur hefur tekist að skapa sérstöðu í heiminum. Með stöðugri baráttu hefur tekist að halda Norrænum stjórnvöldum á réttri braut alla síðustu öld. Foreldrum okkar tókst að brjótast upp úr örbirgð og skapa fjölskyldum sínum tryggt og friðsamt umhverfi. Á sama tíma hefur staðið yfir barátta verkafólks í þrælakistum í fátækari hlutum heimsins. Þar stritar blásnautt fólk og börn allt upp í 18 – 20 tíma á sólarhring við ömurlegar aðstæður í niðurníddum verksmiðjuhjöllum fyrir nokkra aura á tímann.
Þessi stefna öfgakenndrar frjálshyggju hefur tekið heimsbyggðina kverkataki, reglubundnar kreppur lenda á almenning og hinir ríku verða sífellt ríkari. Samfélög eru að leysast upp vegna áherslu á einstaklingshyggju. Tryggja á frelsi einstaklingsins til að velja það sem honum sýnist, án tillits til samfélagsins og afleiðinganna. Allar áherslur miða að sérréttindum þess sem á fjármagnið og stjórnmálamenn hægri manna gefa sér, án þess að tilgreina einhver rök, að einstaklingar í viðskiptalífinu séu óspilltir og þyrftu ekki eftirlit en í ríkisbúskapur leiddi hins vegar til spillingar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor einn helsti hugmyndasmiður þessarar stefnu sagði um þetta „Ég held að það sé ekki beinlínis hægt að kenna þeim öllum um. Þeir eru mistækir eins og gengur. En kapítalisminn snýst ekki um kapítalistana, heldur árangur sjálfskerfisins. Græðgi er þáttur í mannlegu eðli sem við getum ekki breytt með predikunum heldur eigum við að tryggja að græðgin verði öðrum til góðs og það gerir hún við frjálsa samkeppni þar sem menn þurfa að leggja sig fram um að fullnægja þörfum annarra betur og ódýrara en keppinautar þeirra. Græðgin er ekkert að hverfa. Aðalatriðið er að nýta kapítalistana til góðs.“
Talsmenn frjálshyggjunnar kætast þessa dagana hér á landi og tala opinberlega um að nú séu góðir tímar. Þeir eru að herða tökin á fjölmiðlum sínum og þaðan berast tíðindi sem eru þeim að skapi. Markvisst er grafið er undan skipan samfélagsins og alið er á mýtum til þess að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan. Áhrifaríkustu leiðirnar eru að höfða til trúarbragða og þjóðernishyggju, eins og við sáum t.d. í síðustu kosningum. Alið er á ótta og engu máli skiptir í hugum frjálshyggjumanna hvort mýturnar fela í sér eitthvert sannleikskorn. Þær gegna einungis því hlutverki að stjórna samfélaginu og skara eld að köku fjármagnseigandans.
Búnar eru til einfaldar mýtur svo boðskapurinn komist til skila. Dæmi um áhrifamikla mýtu er sú að bandaríska þjóðin sé stórkostleg. Þjóð sem hafi mikilvægu hlutverki að gegna, berjast gegn hinu illa í heiminum og breiða út hið góða, sem er lýðræði og Bandarísk gildi. Þetta er lagt að jöfnu við boðun kristinnar trúar og þeir gefa jafnvel hiklaust í skyn að þeir séu sérstakir boðberar Jesú Krists.
Svo mýtan virki þarf að búa til óvinaríki og íslensk stjórnvöld hafa skorið niður styrki til þróunarríkja en auka styrki til hermála. Óvinavæðingin tengist á engan hátt hættunni sem til staðar er, heldur eingöngu metnaði viðkomandi stjórnmálamanna til að viðhalda völdum. Boðuð er róttæk útþenslustefna bandarískra gilda, hernaðarhyggju sem leiðrétta á hið illa í heiminum, með þessu er skapaður samhugur heima fyrir. Settar eru upp sjónvarpsstöðvar sem senda linnulaust út boðskap um hinn afbakaða bandarísk rétttrúnað yfir heimsbyggðina.
Hermann Göring orðaði svipaða hugsun á áhrifaríkan hátt : Fólk vill ekki stríð … En þegar allt kemur til alls eru það leiðtogar ríkja sem eru stefnumarkandi og það er alltaf auðvelt að fá almenning á sitt band. Engu skiptir hvort um lýðræðisfyrirkomulag sé að ræða. fasisma, þingræði eða kommúnistastjórn… Það eina sem þarf að gera er að segja almenningi að von sé á árás og gera lítið úr friðarsinnum, fyrir skort á þjóðernishyggju og fyrir að leggja þjóðina í mikla hættu, það virkar eins í öllum löndum.
Helsti forsvarsmaður frjálshyggjunnar á Íslandi sagði á sínum tíma aðspurður hvort stefna hans geti ekki leitt til vaxandi fátæktar og örbirgðar. „Þetta er sjálfskaparvíti fólksins í láglaunastörfunum. Það getur bara hætt að vinna og farið í háskóla. Þá fær það mikið betri vinnu og þá getur það sparað og keypt sér hlutabréf.“ Gróðafíkn er orðin að æðsta takmarki og öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru eru gerð að mati á kaupgetu. Gleypigangurinn ræður ríkjum, hann er boðorðið, fyrirheitið og æðsta takmark hins gerilssneidda lífs frjálshyggjunnar.
Hér eiga vel við orð Johns Voight :
Ef allir væru ríkir
og allir gætu lifað
á skuldabréfum
eða vöxtum
Þyrfti enginn að vinna
og allir myndu deyja úr hungri.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016