Þarf Ísland að flytja inn kol til húshitunar innan nokkurra ára?
Það styttist í alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í París í desember. Talið er að þetta sé einn mikilvægasti fundur mannkynssögunar og tugþúsundir manna víðsvegar m Evrópu eru að undirbúa að ganga til París til þess leggja á herslu á að skammtímahugsun og tækifæristefna stjórnmálamanna gangi ekki lengur hvað varði loftslagsmál og umgengni við náttúruna. Þetta sé síðasti möguleiki mannkyns til þess að taka ákvarðanir um að takmarka hlýnunina við 2 gráður fram til næstu aldamóta. Ef það tekst ekki missum við tök á þessum vanda og hlýnunin verði 5-6 gráður að meðaltali. Það mun leiða til þess að þá munu stór svæði á Jörðinni verða óhæf til ábúðar.
Afleiðingar tillitsleysis gagnvart náttúrunni birtast okkur í öllum fréttatímum á hverjum degi. Auknir þurrkar og jarðvegseyðing valda vaxandi fólksflótta á milli svæða. Hækkun sjávar blasir innan tiltölulega skamms tíma. Hækkun sjávar sem mun nema um 2 metrum jafnvel á næsta áratug og jafnvel allt að 9 metra hækkun á þessari öld. Náttúran á sinn rétt og varðveisla hennar er forsenda þess að við, eða kannski frekar afkomendur okkar, geti búið á þessari jörð. Það verður að koma málum þannig fyrir að það sé ólöglegt að að eyðileggja vistkerfin. Loftslagið er óhjákvæmilega sameign alls mannkyns, ekki bara hluta þess.
Ef við lítum okkur nær og skoðum hvernig við Íslendingar höfum hagað okkur á þessu sviði, þá erum við fjarri því að vera í eins góðum málum og margir stjórnmálamenn okkar halda fram. Þeir er tamt að tala um sjálfbæra þróun og og nýtingu auðlinda Íslands á sama tíma virðist það ekki vefjast fyrir þeim að vaða yfir ósnortin svæði á hálendinu og með áætlunum um að koma þar fyrir virkjunum og lónum sem víðast. Samfara því er verið að undirbúa eyðileggingu á jarðhitageymunum undir Reykjanesinu.
Markmið sjálfbærrar þróunar er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Þegar rætt hefur verið um endurnýjanlegar og sjálfbærar auðlindir hér á landi er oft talað um gufuaflið, eða varmaflæði frá iðrum jarðar til yfirborðs. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar, hleypt upp á yfirborð og í stað þess kemur kalt vatn inn í jarðhitageyminn. Sjálfbærnin felst í því að ekki sé hleypt upp í gegnum borholuna í of mikilum mæli því þá verður kæling bergsins of mikil.
Reynsla undanfarinna ára segir okkur að við höfum ekki fylgt þessum reglum og það hefur leitt til þess að við erum ekki með sjálfbæra nýtingu á jarðvarmavirkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiðinni, sama á við um virkjanirnar á Reykjanesi. Fyrir liggur að það eru mikil tengsl á milli jarðhitasvæðanna á öllu Reykjanesinu og við getum ekki bjargað okkur með því að bæta við virkjunum á sama svæði. Orka jarðhitageymanna er ekki endalaus eins og menn virðast hafa gert ráð fyrir. Raforkuframleiðsla þessara guguaflsvirkjana hefur fallið um nokkur prósent á ári og það stefnir að orkan geti hæglega klárast á um fimmtíu árum verði núverandi nýtingaráform ekki endurskoðuð.
Rannsóknir sýna að ef bergið í jarðhitageymi kólnar um of taki það jafnvel nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar og er nú komin fram staðfesting hér á landi. Íslendingar eru með þessum ákvörðunum að stefna á að framleiða raforku með 10% nýtingu á jarðvarmanum og senda þúsundir tonna af brennistein út í andrúmsloftið. Þetta getur ekki leitt til annars en að við (börn okkar) muna þurfa innan ekki svo langs tíma að hefja innflutning á olíu til þess að hita upp húsin á suðvestur horninu. Það er svo sannarlega ekki sjálfbær þróun. Við erum að koma okkur upp ósjálfbærri námuvinnslu á Reykjanesinu.
Þrátt fyrir framangreinda reynslu af rekstri gufuaflsvirkjana á suðvestur horninu eru í undirbúningi enn frekari boranir á þessum svæðum. Allt segir okkur að það sé út í hött að setja upp fleiri virkjanir. Það muni einfaldlega leiða til þess eins að orkutapið verði enn meira en það er þegar orðið, og bergið í jarðhitageymunum er þegar farið að kólna og ef það fellur allveg munu líða allmargir ártugir áður en orkuvinnsla getur hafist aftur.
Stefán Arnórsson, prófessor við jarðfræðideild Háskóla Íslands hefur bent á að fullyrðingar um að jarðvarmi sé endurnýtanleg auðlind standist ekki og í raun sé rennt blint í sjóinn með stærð sumra þeirra svæða sem til standi að nýta, svo sem á Hellisheiði og á lengra vestur á Reykjanesinu. Í þessu togast á þrennt, pólitík, hagsmunir og fagmennska og allt faglegt mat segi að auðlindin sé ekki endurnýjanleg.
Í ítarlegri grein „Rammaáætlun út af sporinu“ í Fréttablaðinu í dag (13.08.15) færir Gunnlaugur H. Jónsson eðlisfræðingur margvísleg rök fyrir þeirri skelfilegu stefnu sem fylgt er í jarðvarmavirkjunum á Reykjanesinu. Þar kemur m.a. fram að í matskýrslu um jarðhitann á Reykjanesinu sé með traustum rökum sýnt fram á að tengsl eru á milli hitasvæðanna í Eldvörpum og Svartsengi og orkuvinnsla í Eldvörpum yrði því aldrei sjálfbær, ekki frekar en vinnslan í Svartsengi sem er í dag keyrð á rúmlega 70% afköstum.
Eldvörpin þar sem nú á að hefja tilraunboranir liggja á milli jarðvarmavirkjana að Svartsengi og á Reykjanesi sama á reyndar við um tengsl jarðhitasvæðanna á brotabelti Mið-Atlantshafshryggjarins upp allan Reykjanesskagann. Þau eru ekki sjálfstæðar einingar. Vinnslan er ekki sjálfbær og frekari vinnsla á svæðinu yrði til þess að bæta gráu ofan á svart.
Sama á við um Hengilssvæðið með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun ásamt fyrirhuguðum borunum fyrir nýjum virkjunum á þessu svæði. Staðreyndin liggur á borðinu : eftir aðeins örfárra ára nýtingu hefur raforkuframleiðsla Hellisheiðarvirkjunar fallið um 2% árlega.
Öll rök hnýga í þá átt að ekki gangi upp að skipta Reykjanesinu upp í mörg smá svæði eins og umgangast þau eins þau séu ótengd. Þegar kemur að stórfelldri nýtingu jarðvarma eins og stefnt er að með borholum sem geta teygt sig allt að þrjá kílómetra niður í jörðina og mörg hundruð eða þúsundir metra til hliðar frá borsvæðunum þarf hver virkjun helgunarsvæði sem nær 10 km út frá virkjuninni og sambærilega virkjun mætti ekki setja nær en í 20 km fjarlægð.
Það er góð orkustefna að framleiða rafmagn með jarðhita sem aukaafurð með lághitanýtingu í hitaveitum, en það er orkusóun að láta raforkuframleiðsluna hafa forgang og stýra álaginu á jarðhitasvæðin. Þetta á einkum við á svæðum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Við náum mun betri nýtingu með nýtingu þessara svæða til húshitunar. Öll vitum við að sú orkuþörf mun vaxa um tugi MW árlega. En á sama tíma er gengið að jarðhitann með því að senda árlega enn meiri varmaorku út í loftið um kæliturna en sem nemur framleiddri raf- og varmaorku og menga andrúmsloftið óhóflega í leiðinni.
Jarðvarmavirkjanir senda í dag frá sér meiri brennistein út í andrúmslofið en öll hin Norðurlöndin samanlögð og við erum að sóa jarðvarma með því að framleiða rafmagn með 10 til 15% nýtingu á jarðvarmanum í stað þess að geyma hann til þess að mæta ört vaxandi orkuþörf komandi kynslóða til húshitunar á þéttbýlasta svæði landsins og koma í veg fyrir að börn okkar þurfi að nýta innflutta orku til húshitunar.
Guðmundur Þóroddsson forstjóri Reykjavík Geothermal kvartar í síðasta Viðskiptablaði (06.08.15) undan ofsafengnum viðbrögðum hér á landi gegn öllum virkjanaáformum. Hér megi auðveldlega dúndra upp 30 þús. MW jarðvarmavirkjunum, en það megi ekki velta við steini á Íslandi þá gangi náttúruverndarfólkið af göflunum. Staðreyndirnar liggja á borðinu. Það er ekki einungis náttúruvernd sem sýnir fram á að menn verði að hugsa vel sinn gang þegar teknar eru ákvarðanir um frekari virkjanir. Öll rök segja okkur að við getum ekki leyft okkur að láta skammtímahagsmuni ráða för. Við verðum að hugsa í áratugum og þá ekki síst með hagsmuni afkomenda okkar í huga.
Núlifandi kynslóð á ekki ein þessa jörð og hún ein hefur engan rétt til þess að hrifsa til sín allan arðinn.
- Skuggahliðar menningarinnar. - 26/04/2016
- Nei takk ómögulega. Það er nóg komið - 07/04/2016
- Þetta er ógeðslegt þjóðfélag - 04/04/2016