trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 29/10/2016

Svona dagar

Kjördagur 2003. Ég hringdi frekar pirraður í Hönnu Birnu.MAÓ 1314

En kurteis. Alltaf kurteis. En með ákveðið erindi.

Ég hafði heyrt í bílnum auglýsingu frá ungum sjálfstæðismönnum. Um að fólk ætti að kjósa flokkinn þeirra.

Það var svosem eðlilegt af þeirra sjónarhóli. En nú var kjördagur. Mjög sérstakur dagur.

Um það höfðu gilt óskrifaðar reglur áratugum saman, að stjórnmálaflokkar stunduðu ekki áróður eða birtu fylgisauglýsingar á kjördag. Þeir létu sér nægja að auglýsa kosningakaffi, leiðbeiningar um kjörstaði og hvernig mætti láta skutla sér þangað.

Kjördagur var nánast helgur dagur. Hátíðisdagur lýðræðisins. Hann átti ekki og mátti ekki vanhelga með áróðri.

Það gerði Samfylkingin heldur ekki, þótt sumir frambjóðendur teldu það höfuðnauðsyn og kæmu þeirri skoðun rækilega á framfæri við mig.

Hanna Birna var aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og tók mér vel. Erindinu líka, sem var efnislega svona:

Geturðu ekki látið unglingadeildina þína taka þessar auglýsingar úr birtingu? Við gerum ekki svona á kjördag.

Hanna Birna var sammála. Ég veit ekki hvort hún hringdi sjálf í útvarpið eða lét ungliðahreyfinguna gera það, en auglýsingarnar heyrðust ekki meir. Drengilega gert, þótti mér. Ég kunni strax vel við hana.

Þetta litla samkomulag okkar Hönnu Birnu um hefðirnar var áreiðanlega ekki ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði í þessum kosningum og Davíð Oddsson varð á endanum seðlabankastjóri. Hrunið var ekki okkur Hönnu Birnu að kenna.

Við vorum bara sammála um að leyfa lýðræðinu að eiga sinn dag. Nóg var alla aðra daga um allt hitt.

Í morgun heyrði ég í öllum útvörpum auglýsingar frá stjórnmálaflokkum, um spillingu, Willum og jafnaðarstefnuna. Fór ósjálfrátt að hugsa um hvar ég fyndi símanúmerið hjá Hönnu Birnu. En við breytum líklega minnstu um þetta héðan af.

Kannske erum við Hanna Birna risaeðlur, en það eru samt bara þrettán ár síðan. Hvað breyttist?

Veit það ekki og það skiptir svosem minnstu. Veit bara að ég er nógu mikil risaeðla til þess að vilja ekki láta selja mér fótanuddtæki með auglýsingum klukkan 18 á aðfangadag.

Þetta eru bara þannig dagar.

Gleðilega hátíð.

1,545