trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 31/12/2014

Staðan í kjarabaráttunni

Haustið 2013 lagðist verkalýðshreyfingin, þeas á almenna vinnumarkaðnum, í töluverða vinnu við að móta langtímastefnu í kjaramálum. Í þeirri vinnu var horft til níunda áratugar síðustu aldar, þar sem verðbólgan hafði farið með himinskautum og náð þriggja stafa tölu. Verkalýðsfélögin sömdu á þessum tíma um tugaprósenta launahækkanir á hverju ári, en þrátt fyrir það tókst ekki að lagfæra kaupmáttinn.1. maí

 

Þessar kollsteypur enduðu með tilraunum til að ná saman um þjóðarsátt í aðgerðum til þess að stoppa hringrásina í hækkun verðlags og þjónustugjalda sem varð ávalt til þess að verkalýðsfélögin kröfðust samsvarandi launahækkana. Afleiðingin var vaxandi verðbólga og hækkandi vextir. Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem tókst að fá alla aðila til þess að ganga í takt árið 1990.

 

Verðbólgan varð þannig að verkfæri í efnahagsstjórninni sem leiddi til eignatilfærslu í samfélaginu sem samsvaraði upptöku fjórðungs af innkomu launamanna á íslenskum vinnumarkaði, þegar tillit hefur verið tekið til lakari launa, hærri vaxta og lengri vinnuviku. Þessi efnahagsstjórn færði þannig mikil verðmæti frá launamönnum til fyrirtækjanna og hins opinbera. Þar birtist hvers vegna sömu aðilar berjast svo hatramlega gegn því að við losum okkur við krónuna.

 

Hin hliðin á þessum pening var mikil spenna á vinnumarkaði ásamt veðbólgunni framkallaði launaskrið sem síðan birtust í umfangsmiklum kröfum um launahækkanir. Því var mætt með fleiri krónum og hringrásin hélt áfram eftir afgreiðslu kjarasamninga með því að mæta kröfum vinnuveitenda með gengisfellingu. Þannig var verðbólgan reglulega notuð til þess að lækka kostnað fyrirtækjanna svo að atvinnuleysi ykist ekki í kjölfar kjarasamninga, með öllum sínum hliðarverkunum.

 

Vinna við hina endanlegu þjóðarsátt hófst árið 1988 með harkalegri baráttan baksviðs í starfsnefndum og lauk árið 1992. Það kostaði gríðarlega mikla vinnu að fá sveitarfélögin og stjórnvöld til þess að halda aftur af sér með hækkun þjónustugjalda og fá bankana til þess að keyra niður vexti. Fyrri tilraunir til þjóðarsátta höfðu sprungið í höndum manna vegna þess að ekki hafði tekist að fá stjórnmálamenn að taka þátt í verkefninu, en auk þess höfðu nokkur stéttarfélög klofið sig út úr samstöðunni og þvingað fram mun meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir.

 

Í lok níunda áratugarins blasti við launamönnum hratt vaxandi atvinnuleysi því þá lauk miklum framkvæmdum eins og flugstöðina, Kringluna, Blönduvirkjun og Járnblendið í Hvalfirði. Þannig að það var hinn landlægi ótti við atvinnuleysi sem átti drjúgan þátt í að þjóðarsáttin náði nægjanlega miklu fylgi í verkalýðsfélögunum.

 

Það voru einmitt þessar staðreyndir sem ASÍ forystan horfði til haustið 2013 þegar hún lagði upp plön sín nýja þjóðarsátt. En þau sprungu í loft upp síðastliðið vor. Fram á sjónarsviðið höfðu að venju stigið yfirboðsmenn með yfirlýsingum um að þeir hefðu getað náð fram þrefalt hærri launahækkunum. Sigmundur Davíð forsætisráðherra gekk lengst og sagði ma í áramótaræðu sinni 31.12.2013 :

 

„Á nýja árinu og árunum sem á eftir fylgja þurfum við að auka kaupmátt Íslendinga jafnt og þétt. Það ætlum við að gera í sameiningu. Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægst launuðu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi. En það þarf líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum.“

 

Þarna var tónninn sleginn. Þjónustugjöld hækkuðu umfram umsamdar launahækkanir og þeir launahóparnir sem áttu eftir að semja horfðu vitanlega til ummæla forsætisráðherra um og sömdu síðan í vor um þrefaldar launahækkanir á við það sem ASÍ félögin höfðu samið um.

 

Einnig kom fram á árinu að þau fyrirtæki sem ríkisstjórnin hafði afhent tugi milljarða í niðurfellingu skatta rann nánast milliliðalaust til eigenda þessara fyrirtækja í formi arðgreiðslna. Þjónusta í heilbrigðiskerfinu hefur farið minnkandi, bætur til fjölskyldna hafa minnkað og það er mun erfiðara að koma sér upp þaki yfir fölskylduna.

 

Mörg ummæli forystumanna stjórnaflokkanna og helstu stjórnarþingmanna í sambandi við launafólk og þá sem minna mega sín eins og td aðstoð við öryrkja, tillögum að leggja Virk nánast í rúst, skerðingar á jöfnun örorkubyrðar, stytting atvinnuleysisbóta og afnám rétt til þess að ljúka námi eftir 25 ára aldur. Allt þetta hefur orðið til þess að það virðist stefna í víðtæk átök á vinnumarkaði upp úr páskum í vor.

 

Margir launamenn segja nú er nóg komið og vilja endurskoða skiptin á þjóðarkökunni og ætla að fara í gegnum þá skiptingu í Karphúsinu í vor. Hér er að finna þá sjálfheldu sem Sigmundur Davíð og Bjarni Ben ásamt forsvarmönnum fjárlaganefndar hafa komið sér í. Þetta er helsta ástæða þess að þau geta ekki tekið á læknadeilunni og hanga í örþunnum þræði gagnvart gjörvallri verkalýðshreyfingunni.

 

Ummæli stjórnarliða í fjölmiðlum undanfarið bera með sér yfirgengilegan hroka í garð launamanna og samtaka þeirra, en auk þess mikinn þekkingarskort á því hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni.  Allt stefnir í að það gæti orðið í Karphúsinu sem örlagaríkustu ákvarðanirnar hvað varðar efnahagsmál verði teknar á næsta ári.

 

Ríkisstjórn Jóhönnu klúðraði nánast öllu í samskiptum sínum við verkalýðshreyfinguna og það varð að einum stærsta myllusteini Jóhönnu og Steingríms í kosningabaráttu þeirra. Á þetta benti t.d. Sigmundur Davíð réttilega margsinnis og sagðist ekki ætla að fara sömu leið. Hann myndi taka upp vinsamleg og drengileg samskipti við launafólk í landinu. Stjórnarsáttmáli hans var í samræmi við þetta og þar var sannarlega lofað fögru samfélagi

 

Stjórnarsáttmálinn var í samræmi við loforðin í kosningabaráttunni og þar var sannarlega lofað fögru samfélagi:b-d_strakarnir_8

 

Með myndun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefst ný sókn í þágu lands og þjóðar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagur heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í þágu almannahags.

 

Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.

 

Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar. Það er forsenda þess að Íslendingar geti hafið nýtt skeið vaxtar og stöðugleika að íslenskt efnahagslíf njóti að nýju trausts á innlendum sem erlendum vettvangi. Þannig verða undirstöður velferðar treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna.

 

Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur. Mikilvægt er að hlúð sé að þeim sem þurfa á aðstoð að halda og jafnframt að fólk fái notið árangurs erfiðis síns og hugkvæmni. Aldraðir skulu njóta öryggis og velferðar og öllum skal tryggð hlutdeild í þeirri verðmætasköpun sem Ísland og íslenska þjóðin getur af sér.

 

Með verkum sínum mun ríkisstjórnin gera landsmönnum kleift að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem þeir standa frammi fyrir, þjóðinni allri til heilla.

 

Unnið verður að því að tryggja jafnrétti allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og stöðu að öðru leyti, svo sem vegna búsetu, og að rækta með þjóðinni þær dyggðir sem best tryggja farsæld og jafnræði.

 

Bætt lýðheilsa og forvarnastarf verður meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.

Ísland á að vera fjölskylduvænt land þar sem börn búa við öryggi og jöfn tækifæri og njóta lögvarinna réttinda líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Stefna stjórnvalda skal stuðla að því að yngstu kynslóðirnar öðlist trú á framtíð lands og þjóðar og þá þekkingu og framfaraþrá sem er grundvöllur hagsældar til framtíðar.“

 

Þrátt fyrir þessi fögru fyrirheit í stjórnasáttmála Sjálfstæðismanna og Framsóknar hefur nánast allt stefnt í þveröfuga átt og myllusteinninn þeirra orðin mun stærri en steinvalan sem Jóhönnu og Steingrím hafði tekist að mynda.

Flokkun : Pistlar
1,371